Categories
Fréttir

Aukum aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum

Deila grein

13/03/2023

Aukum aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um fjarnám á háskólastigi og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta á háskólastigi.

Markmið vinnunnar verði að greina hvernig íslenskir háskólar geti ávallt verið í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta og þannig aukið aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskóla eða í fjarnámi.

Í vinnu starfshópsins verði lögð áhersla á eftirfarandi:
a. gæði og þróun stafrænna kennsluhátta,
b. aukið framboð fjarnáms, bæði námsleiða og einstakra námskeiða,
c. allt nám sem mögulegt er að verði fjarnám verði það nema eðli námsins krefjist staðnáms sérstaklega,
d. réttindi og hlutverk nemenda, hvort sem þeir stunda fjar- eða staðnám,
e. samfélagslegt hlutverk háskóla,
f. hlutverk stjórnvalda í stuðningi við fjarnám á háskólastigi.

Starfshópurinn skili niðurstöðu til ráðherra fyrir árslok 2023. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum hópsins.“

Líneik Anna fór yfir að möguleikarnir á að nota stafræna kennsluhætti til að tryggja aðgengi að námi og bestu aðstæður til náms og kennslu hafi aukist stöðugt á liðnum árum, í raun tekið stökk breytingu. „Tæknin hefur líka þróast hratt og viðmót batnað. Það er mikilvægt að við nýtum okkur þessar staðreyndir við aðgang að námi, óháð aðstæðum einstaklinga og að tryggja samfélögum aðgang að nauðsynlegri þekkingu, t.d. til að veita þá þjónustu sem við mælum fyrir um í lögum.“

„Samhliða vex eðlileg krafa samfélagsins um að allt nám á háskólastigi sem mögulegt er að bjóða fram með stafrænum hætti verði í boði. Tillagan er í góðu samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem segir m.a. að gert verði átak í netvæðingu náms og aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, sem eykur aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum,“ sagði Líneik Anna.

Í greinargerð með tillögunni er farið yfir ávinning samfélagsins.

„Samkeppnishæfni byggða og þjóða byggist á menntun íbúa og fjárfesting í menntun er því fjárfesting til framtíðar. Skipulag skólastarfs hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár. Þetta er staðreynd sem ég held að sé oft vanmetin þegar rætt er um nám á háskólastigi,“ sagði Líneik Anna.

„Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur, samskiptafærni, vellíðan og forvitni er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Grunnurinn nýtist best ef aðgengi einstaklinga, atvinnugreina og byggðarlaga að háskólanámi er tryggt á sem flestum sviðum. Tækifærin til þess hafa aldrei verið betri en nú. Öflugt fjarnám getur auðveldað íslenskum háskólum að koma til móts við kröfur atvinnulífsins, landsbyggðanna og einstaklinga sem búa við ólíkar aðstæður. Á það jafnt við um grunnnám, framhaldsnám og háskólanám sem símenntun,“ sagði Líneik Anna.

„Þá getur aukið framboð fjarnáms gegnt veigamiklu hlutverki í byggðaþróun með almennri hækkun á menntunarstigi og möguleikum til að bregðast við þörf fyrir menntun á ákveðnum sviðum á tilteknum landsvæðum. Aukið aðgengi helst í hendur við 2. gr. laga um háskóla þar sem segir: „Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.“ Í dreifbýlum samfélögum á norðlægum slóðum hefur þróunin víðast orðið sú að háskólar hafa fengið skilgreint hlutverk í þjónustu við dreifbýl svæði. Þetta hlutverk er þá leyst með því að starfrækja net háskólasvæða (e. campuses), útibúa eða námsvera. Má þar benda á Tromsø í Noregi, Oulu í Finnlandi, nokkra skóla í Norður-Kanada og dreifbýli Skotlands. Hér á landi hafa símenntunarmiðstöðvar gegnt mikilvægu hlutverki í þjónustu við fjarnema undanfarin 20 ár. Á síðustu árum hafa náms- og kennsluaðferðir rutt sér til rúms sem nýtast vel bæði í hefðbundnu háskólanámi og fjarnámi, svo sem spegluð kennsla (e. flipped classroom) og ýmsar leiðir við framsetningu vandaðra netfyrirlestra. Hugtökin dreifnám eða sveigjanlegt nám eru einnig notuð um fjarnámið.

Aukið framboð fjarnáms getur líka bætt samkeppnisstöðu landsins með auknum möguleikum til þess að nýta tækifæri sem er að finna á landsbyggðinni og tækifærum til að miðla sérhæfðri þekkingu Íslendinga til alþjóðasamfélagsins, t.d. á sviði sjávarútvegs, siglinga, nýtingar jarðhita og jafnréttismála,“ sagði Líneik Anna.

Í greinargerð með tillögunni má nálgast frekari rökstuðning fyrir tillögunni og eins hefur greinargerðin að geyma svör frá mennta- og menningarmálaráðherra til fyrsta flutningsmanns um sveigjanleika í námi og fjarnám á háskólastigi á 151. löggjafarþingi (854. mál). Kom þar fram að háskólar á Íslandi séu í auknum mæli að huga að sveigjanleika í námi ásamt því að auka aðgengi að námi með stafrænum hætti. Þá er einnig unnið að því að bæta við námsleiðum í fjarnámi.

Útdrátt úr svari háskólanna við fyrirspurninni má og finna í greinargerðinn og koma þar einnig fram mismunandi afstaða háskólanna gagnvart fjarnámi.