Categories
Fréttir Greinar

Kraftur samfélagsins skapar aukin lífsgæði

Deila grein

14/03/2023

Kraftur samfélagsins skapar aukin lífsgæði

Iðnþing eru mikilvæg samkoma. Íslenskur iðnaður er gríðarlega öflugur og þeir kraftar sem búa í greininni eru dýrmætir fyrir íslenskt samfélag. Við höfum á síðustu árum séð aukna fjölbreytni í íslenskum iðnaði sem er mikilvægt til að efla efnahag þjóðarinnar og draga úr sveiflum sem hafa einkennt íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.

Ísland stendur frammi fyrir miklum áskorunum þessa dagana. Verðbólga hefur hækkað á síðustu misserum og ef ekkert verður að gert er hætt við því að við upplifum aftur tíma sem við vonuðum að væru alveg að baki. Ástæður verðbólgunnar eru margar. Við erum tiltölulega nýkomin út úr tímabili heimsfaraldurs þar sem þurfti að ræsa út liðsinni ríkissjóðs til að halda samfélaginu gangandi, fyrirtækjunum starfandi og þar af leiðandi tryggja næga atvinnu fyrir fólk.

Þegar loks fór að léttast á okkur brúnin þá brast á með innrás rússneska hersins í Úkraínu. Afleiðingar þessa stríðs eru gríðarlegar. Stríðið sem geisar í austanverðri Evrópu hefur áhrif á allan heiminn. Útflutningur hrávöru frá Úkraínu er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var og auk þess hefur viðskiptabann við Rússland mikil áhrif, ekki aðeins á orkumarkað Evrópu heldur einnig á aðra þætti evrópsks samfélags. Margföldun orkukostnaðar í Evrópu hefur síðan áhrif á alla viðskiptakeðjuna með tilheyrandi bólgu á verði. Það skilar sér síðan til Íslands í formi hærra vöruverðs og á það jafnt við um matvöru og byggingarefni. Þessu finna allir fyrir, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Verðbólgan er vágestur

Verkefni næstu mánaða er að ná tökum á verðbólgunni. Á Íslandi ríkir þensla. Hér var 6,4% hagvöxtur á síðasta ári. Hér er atvinnuleysi mjög lágt. Einkaneysla er mikil. Til að slá á verðbólguna hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti verulega á síðustu mánuðum. Áhrifa þeirra hækkana er tekið að gæta. Eftirspurn eftir húsnæði hefur dregist saman og húsnæðisverð staðið í stað eða lækkað.

Frostið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og háir vextir munu að öllum líkindum, ef miðað er við söguna, hafa þau áhrif að byggingafyrirtækin halda að sér höndum.

Þær aðstæður sem eru uppi núna eru okkur ekki ókunnugar. Við sjáum á tölum að sveiflur á byggingamarkaði eru miklar. Frostið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og háir vextir munu að öllum líkindum, ef miðað er við söguna, hafa þau áhrif að byggingafyrirtækin halda að sér höndum sem gerir það að verkum að geirinn dregst saman, framboð á nýju húsnæði verður mjög takmarkað og þrýstingurinn frá þeirri kynslóð sem þráir að flytja úr foreldrahúsum og í eigið húsnæði verður gríðarlegur og verð á íbúðarhúsnæði hækkar.

Hvað er þá til ráða?

Bætt yfirsýn og markvissari aðgerðir

Nýtt innviðaráðuneyti varð til eftir kosningar 2021. Nú heyra húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngumál og sveitarstjórnarmál undir sama ráðuneytið. Það hefur gert okkur kleift að öðlast betri yfirsýn og ekki síður safna upplýsingum með víðtækum hætti sem byggir undir markvissar aðgerðir.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur unnið að því í samstarfi við innviðaráðuneytið og sveitarfélögin að búa til rafrænar húsnæðisáætlanir sem gera meiri kröfur til sveitarfélaganna um uppbyggingu í takt við íbúaþróun og eftirspurn. Það er ljóst að til að koma í veg fyrir þær sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn og ná jafnvægi þarf á næstu tíu árum að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir.

Þær miklu sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hafa verið áhrifaþáttur í óstöðugleika í efnahagslífi landsins.

Tímamótasamningar við sveitarfélög

Í júlí á síðasta ári undirritaði ég fyrir hönd ríkisins rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessa sameiginlegu framtíðarsýn. Hugmyndin er sú að sveitarfélögin skuldbindi sig til að sjá til þess að lóðaframboð sé nægt til að mæta þörfum markaðarins. Ríki og sveitarfélög munu einnig tryggja að 30% sé hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði byggðar með stuðningi ríkis og sveitarfélaga í formi stofnframlaga eða hlutdeildarlána auk þess sem fimm prósent verði húsnæði fyrir fatlað fólk og aðra hópa í viðkvæmri stöðu.

Jafnvægi í húsnæðismálum er forsenda jafnvægis í efnahagsmálum. Þær miklu sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hafa verið áhrifaþáttur í óstöðugleika í efnahagslífi landsins. Meginmarkmið rammasamnings ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru að byggt verði í samræmi við þörf, að framboð íbúða á viðráðanlegu verði sé nægt, að húsnæðisáætlanir haldi utan um og fylgi samningsmarkmiðum og að einn ferill um húsnæðisuppbygginu sé mótaður til að straumlínulaga uppbyggingarferlið sem best má verða.

Nýbyggingar© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Koma verður í veg fyrir tímabundið frost

Í byrjun janúar var undirritaður fyrsti samningur ríkisins við sveitarfélag og var hann við Reykjavíkurborg. Hann markaði tímamót. Markmið samningsins er að í Reykjavík verði á næstu tíu árum byggðar um 16 þúsund íbúðir. Á næstu fimm árum verði takturinn í uppbyggingunni hraðari eða allt að tvö þúsund íbúðir á ári til að mæta uppsafnaðri þörf og mun borgin tryggja framboð byggingarsvæða.

Mikilvægi samningsins við Reykjavík á þessum tímapunkti er gríðarlegt. Við þær aðstæður sem hafa skapast á húsnæðismarkaði er brýnt að ríki og sveitarfélög leggi sitt af mörkum til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði með stofnframlögum. Vaxtastig er hátt og fjármögnun framkvæmda einkaaðila dýr. Til að koma í veg fyrir tímabundið frost í framkvæmdum með tilheyrandi skorti og verðhækkunum þegar birta tekur er það beinlínis skylda stjórnvalda að brúa bilið.

Það er ánægjulegt að fylgjast með stórhuga hugmyndum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar sem eru uppi víða um land.

Stórkostleg tækifæri í orkugeiranum

Tækifærin sem Ísland hefur á næstu árum eru fjölmörg og leikur íslenskur iðnaður stórt hlutverk í að nýta þau sem best. Orkuskiptin eru í fullum gangi. Ljóst er að til að við getum staðið við alþjóðlegar skuldbindingar og um leið aukið lífsgæði á Íslandi þarf að virkja meira á næstu árum. Ávinningurinn fyrir samfélagið okkar felst ekki aðeins í minni losun. Á ári hverju kaupir íslenskt samfélag jarðefnaeldsneyti fyrir um það bil 120 milljarða króna. Hagur Íslands af því að kaupa innlenda orkugjafa er gríðarlegur. Við öðlumst með því orkusjálfstæði sem er dýrmætt fyrir fullveldi Íslands.

Það er ánægjulegt að fylgjast með stórhuga hugmyndum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar sem eru uppi víða um land. Við höfum mikla þekkingu og reynslu af orkuöflun sem nýtist okkur vel. Þær hugmyndir sem eru uppi um framleiðslu á rafeldsneyti og lífrænu eldsneyti eru spennandi og gætu ef rétt er á spilum haldið aukið lífsgæði Íslendinga verulega. Stjórnvöld fylgjast vel með þróuninni á þessu sviði.

Hugverkaiðnaðurinn eflist og stækkar

Á síðustu árum hefur hugverkaiðnaðurinn verið í mikilli sókn. Fjölbreytni hans er mikil. Lyfjaiðnaður, tölvuleikjagerð, fjártækni, kvikmyndagerð og fleiri greinar innan hugverkaiðnaðarins hafa sýnt hvers við megum vænta á næstu árum. Framsýni þeirra sem hafa leitt vöxt hugverkaiðnaðarins er lofsverð og mun allt samfélagið njóta ávaxtanna af þessum öfluga iðnaði.

Framtíðin er björt

Það hefur verið frekar dimmt yfir þjóðmálaumræðunni síðustu vikur enda vekur verðbólgan upp slæmar minningar hjá mörgum. Aukið aðhald í ríkisfjármálum, auknar tekjur ríkissjóðs, góðar spár varðandi ferðaþjónustuna á árinu og einkar góð loðnuvertíð ættu þó að gefa fyrirheit um að við náum verðbólgu hratt niður. Íslenskt hagkerfi er öflugt og atvinnuvegirnir verða sífellt kraftmeiri og fjölbreyttari. Íslenskur iðnaður leikur stórt hlutverk í nútíð og mun í framtíðinni leiða íslenskt samfélag til aukinna lífsgæða.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023 sem kom út fimmtudaginn 9. mars 2023.