Categories
Fréttir

Klasastefna er til að ráðstafa fjármunum markvissar og efla samvinnu, nýsköpun, samkeppnishæfni og hagsæld

Deila grein

01/10/2019

Klasastefna er til að ráðstafa fjármunum markvissar og efla samvinnu, nýsköpun, samkeppnishæfni og hagsæld

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „mótun klasastefnu“. „Ég hef flutt þetta mál nokkrum sinnum áður, fyrst á 144. löggjafarþingi árið 2014 og eiginlega á flestum þingum síðan þá; 145., 146., 149. og nú á 150. löggjafarþingi,“ sagði Willum Þór.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019. Markmið nýrrar klasastefnu verði:

a. að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar með markvissum hætti,

b. að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs,

c. að efla nýsköpun,

d. að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar,

e. að efla hagsæld.

Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2020.

Willum Þór sagðist vilja beina því til atvinnuveganefndar Alþingis að skoða sérstaklega að sækja þekkingu á klasastefnu og klasastarfi erlendis frá og sækja þá reynslu sem er til staðar víða erlendis þar sem unnið er eftir slíkri opinberri stefnu. Og að ríkisstjórninni ætti að skipa slíkan starfshóp og að verkefnið heyrði undir iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðuneyti.
„Ég er þeirrar skoðunar þegar við ræðum nýsköpun og nýsköpunarstefnu að opinber klasastefna ætti að vera hluti slíkrar heildarstefnumótunar. Það er líka fyllilega í samræmi við stjórnarsáttmála og stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar að móta slíka stefnu, opinbera klasastefnu, og í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að hvetja til hvers konar nýsköpunar og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Sett verður af stað vinna við að undirbúa klasastefnu fyrir Ísland þar sem unnið er með styrkleika ólíkra atvinnugreina í samvinnu menntakerfis, rannsóknastofnana, atvinnulífs, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.“

Það segir svo í greinargerð með þingsályktunartillögunni að lagt sé til að slík opinber klasastefna verði mótuð í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Ég vil í því samhengi vitna í fyrstu umsögn við málið sem kom fram árið 2014 en sú umsögn kom frá Bændasamtökunum. Í henni var einmitt lögð áhersla á þessa tengingu við aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, enda er mjög margt að finna í þeirri aðgerðaáætlun sem hefur samhljóm með hugmyndafræði klasastefnu. Í umsögninni segir m.a., með leyfi forseta:

„Samtökin styðja tillöguna og leggja til að hún verði samþykkt. Það er jákvætt að stjórnvöld nýti sér kosti klasahugmyndafræðinnar til að efla og styrkja stoðkerfi atvinnulífsins og efla nýsköpun. Mörg dæmi, bæði hér heima og erlendis, eru um góðan árangur af klasasamstarfi og má nefna Sjávarklasann sem dæmi.
Bændasamtökin vilja þó leggja áherslu á að stefnumótun sem þessi sé samræmd annarri stefnumótun stjórnvalda á sama sviði, þ.e. áætlun Vísinda- og tækniráðs eins og fram kemur í tillögunni, en einnig byggðaáætlun, sóknaráætlunum landshluta og öðrum þeim áherslum sem taka til þeirra verkefna sem tillagan fjallar um.“

Mér finnst þetta mjög góð athugasemd vegna þess að í tillögugreininni kemur fram að við ráðstöfum fjármunum markvissar,“ sagði Willum Þór.
„Hugmyndafræðin um klasa er alls ekki ný og má rekja sögulega aftur til kenninga Michaels Porters. Hún er auðvitað þekkt hér á landi og Nýsköpunarmiðstöð Íslands er leiðandi stofnun á sviði rannsókna- og þróunarstarfs á því sviði og auk þess að standa að mjög fróðlegu árlegu riti um klasa hefur Nýsköpunarmiðstöðin gefið út leiðbeiningarhandbók um klasastjórnun sem er í tilvísunargrein með tillögunni. Þar er jafnframt að finna skilgreiningu á hugmyndafræðinni þar sem segir að klasi sé

„landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni og einnig í samvinnu“.

Þegar ég les þá skilgreiningu dettur mér þegar í hug jarðvarmaklasinn. Við höfum náð gríðarlegum árangri með samvinnu ólíkra aðila á ólíkum sviðum. Sprottið hafa upp nýjar hugmyndir og klasinn hefur jafnframt, sem ekki allir klasar þurfa eða hafa endilega, alþjóðlega tengingu. Það er ekki bara að nýsköpunin nýtist innan lands heldur getur það skapað nýjar hugmyndir, nýja tækni, nýja hugsun sem hefur alþjóðlega skírskotun og mun efla þess vegna, eins og kemur fram í tillögugreininni, samkeppnishæfni þjóðarinnar,“ sagði Willum Þór.
Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður, þakkaði Willum Þór fyrir framlagningu tillögunnar.

„Hún hefur komið fram allt of oft og nú þurfum við bara að klára hana svo ekki þurfi að leggja hana fram enn á ný.“

Síðar í ræðu sinni sagði hún,

„ég styð þetta mál eins og fram hefur komið og vona að ég þurfi ekki að fara oftar í pontu Alþingis til að mæla því bót vegna þess að við klárum málið á þessu þingi.“