Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að samgönguáætlun sé allt að því samfellt samráðsferli en eins og lögin kveða á um sé lögð fram samgönguáætlun til fimmtán ára og framkvæmdaáætlun til fimm ára. Áætlunin sé endurskoðuð á minnst þriggja ára fresti, jafnvel oftar. Þetta kemur fram í frétt á visir.is í dag.
„Fyrsta skrefið þegar það á að endurskoða samgönguáætlun er að ráðherra leggur fjárhagsramma fyrir samgönguráð,“ segir Líneik Anna, en í ráðinu sitja fulltrúar bæði ráðherra og fagstofnana. Ráðið vinni tillögu að samgönguáætlun og skili tillögu til ráðherra sem svo fer yfir tillöguna og gerir hana að sínu ef honum sýnist sem svo. Að því búnu fari hún svo í samráð við almenning. „Þar erum við stödd núna. Þriðji liðurinn er svo eftir þetta samráð, þá fer samgönguráðherra og hans ráðuneyti aftur yfir áætlunina, gerir hugsanlega einhverjar breytingar vegna ábendinga sem koma fram í samráðinu og eftir það verður áætlunin lögð fyrir þingið,“ segir Líneik Anna.
Þegar nefndin var með málið til skoðunar í fyrra átti eftir að ganga frá samkomulaginu um samgönguuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu sem nú er komið fram.
„Við erum komin með risastór skref frá því að við lukum vinnunni við síðustu áætlun í janúar. Við erum svo að fá inn flugstefnu í fyrsta skipti og heildarstefnu í almenningssamgöngum og ég sé fyrir mér að það verði töluverð vinna að fara í gegnum það,“ segir Líneik.