Categories
Greinar

Ísland í forystusveit

Deila grein

31/10/2019

Ísland í forystusveit

Talið er að meira en þriðjungur af losun koltvísýrings á Norðurlöndunum komi frá húsnæðis- og byggingariðnaði. Jafnframt er talið að 40 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu megi rekja til byggingariðnaðarins. Það var til umfjöllunar á fundi húsnæðis- og byggingamálaráðherra Norðurlandanna sem boðað var til hér á landi, í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, fyrr í mánuðinum. Í kjölfarið var gefin út sameiginleg yfirlýsing þar sem við skuldbundum okkur til að vera í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að því að þróa lausnir sem draga úr losun í byggingariðnaði. Markmiðið er að Norðurlöndin taki sameiginlega alþjóðlega forystu í loftslagsmálum.

Í fyrrnefndri yfirlýsingu hvetjum við aðila innan byggingariðnaðarins til að taka höndum saman um norræna samstöðu um byggingarframkvæmdir með lága koltvísýringslosun. Eins köllum við eftir auknu samstarfi innan fræðasamfélagsins og milli rannsóknastofnana á þessu sviði. Við leggjum áherslu á mikilvægi hringrásarhagkerfis innan byggingariðnaðarins og er vert að benda á að byggingar og önnur mannvirki sem þegar hafa verið reist hafa að geyma mikið af nothæfu byggingarefni sem hægt er að endurnýta. Á sama tíma er víða skortur á íbúðarhúsnæði og hef ég beitt mér fyrir húsnæðisuppbyggingu bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni enda hverjum manni nauðsynlegt að hafa öruggt þak yfir höfuðið. Kannski hljómar þetta öfugsnúið í ljósi fyrrgreindra markmiða. En verkefnið snýst ekki um að hætta við eða minnka byggingaframkvæmdir heldur að leita umhverfisvænni lausna við hönnun og smíði húsnæðis.

Markmiðinu um að gera Norðurlönd að kolefnishlutlausu svæði fyrir 2030 verður ekki náð nema húsnæðis- og byggingargeirinn horfi til umhverfisvænna lausna. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð að búa yfir orkuauðlindum sem eru, borið er saman við aðrar, hreinar og vistvænar. Við eigum því að vera í fararbroddi, fremst meðal jafningja, þegar kemur að vistvænum og umhverfisvænum lausnum í húsnæðis- og byggingariðnaði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. október 2019.