Categories
Fréttir

Komum í veg fyrir upplýsingaóreiðu og umræðu með upphrópunum!

Deila grein

20/09/2023

Komum í veg fyrir upplýsingaóreiðu og umræðu með upphrópunum!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, ræddi kynfræðslu og hinsegin fræðslu í grunnskólum í störfum þingsins. Samfélagsumræðan hefur verið hávær undanfarið vegna kynningar Menntamálastofnunar á kennsluefni í kynlífsfræðslu fyrir 7-10 ára. Fór Hafdís Hrönn yfir að foreldrar óski réttilega eftir upplýsingum um fræðsluna og setji jafnvel fyrirvara við námsefnið eða uppsetningu þess. Foreldrar vilji einnig vita hvað börnin þeirra eru að læra til að geta tekið samtalið heima við.

„Varðandi nær allt annað námsefni væri því fagnað að foreldrar sýndu slíkan áhuga en hvað þessa fræðslu varðar virðist ekki alveg það sama gilda,“ sagði Hafdís Hrönn og bætti við að foreldrar sem vilji frekari upplýsingar um fræðsluna séu ekki að beita fordómafullri orðræðu eða að dreifa falsupplýsingum.

„Foreldrar gera sitt besta í að gæta hagsmuna barna sinna af heilindum og spyrja því gagnrýninna spurninga sem krefjast skýrra svara. Hysterían myndast nefnilega vegna upplýsingaskorts til foreldra. Við þurfum að upplýsa foreldra betur um námsefnið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Með þeim hætti má einmitt koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu og að umræða sé leidd áfram af upphrópunum, umræða sem verður að taka af yfirvegun,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Ég styð heils hugar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks og mikilvægi þess að við fáum öll fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Við þurfum líka að fræða um áskoranir einstaklinga með einhverfu og ADHD. Höldum áfram að fræða í átt að meiri samstöðu og umburðarlyndi í samskiptum milli fólks. Með þessu vil ég hvetja til aukins samtals milli heimilis og skóla því að við erum öll í þessu saman, þ.e. að koma börnunum okkar almennilega til manns svo sómi sé að fyrir samfélagið allt,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kynfræðsla og hinsegin fræðsla í grunnskólum hefur verið mikið í kastljósi samfélagsumræðunnar undanfarið. Í miðju þessarar umræðu eru foreldrar sem spyrja spurninga, kalla eftir upplýsingum um fræðsluna og setja jafnvel fyrirvara við námsefnið eða uppsetningu hennar, foreldrar sem vilja vita hvað börnin þeirra eru að læra til að geta tekið samtalið líka heima við. Varðandi nær allt annað námsefni væri því fagnað að foreldrar sýndu slíkan áhuga en hvað þessa fræðslu varðar virðist ekki alveg það sama gilda. Það er undarlegt að því sé haldið fram að foreldrar séu að beita fordómafullri orðræðu, dreifa falsupplýsingum og valda usla í samfélaginu vegna þess að þeir vilja fá frekari upplýsingar um fræðsluna. Foreldrar gera sitt besta í að gæta hagsmuna barna sinna af heilindum og spyrja því gagnrýninna spurninga sem krefjast skýrra svara. Hysterían myndast nefnilega vegna upplýsingaskorts til foreldra. Við þurfum að upplýsa foreldra betur um námsefnið til að koma í veg fyrir svona stöðu í framtíðinni. Með þeim hætti má einmitt koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu og að umræða sé leidd áfram af upphrópunum, umræða sem verður að taka af yfirvegun.

Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks og mikilvægi þess að við fáum öll fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins. Við þurfum líka að fræða um áskoranir einstaklinga með einhverfu og ADHD. Höldum áfram að fræða í átt að meiri samstöðu og umburðarlyndi í samskiptum milli fólks. Með þessu vil ég hvetja til aukins samtals milli heimilis og skóla því að við erum öll í þessu saman, þ.e. að koma börnunum okkar almennilega til manns svo sómi sé að fyrir samfélagið allt.“