Categories
Fréttir

Krafa að bankaráð Landsbankans bregðist við með viðeigandi hætti

Deila grein

15/03/2016

Krafa að bankaráð Landsbankans bregðist við með viðeigandi hætti

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Í gær kom Bankasýsla ríkisins fyrir hv. fjárlaganefnd og staðfesti það sem fram kemur í bréfi sem stílað er á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að forsvarsmönnum bankans hafi ekki tekist að svara gagnrýni og að fagleg ásýnd bankans hafi beðið hnekki. Bankasýslan gerir þá kröfu á bankaráð Landsbankans að bregðast við með viðeigandi hætti.
Ég ætla ekki að ráða í það hér hvaða ráðstafanir bankaráðs eru viðeigandi svo traust megi endurheimta. Það er sannarlega vandmeðfarið, eins og segir í grein í Kjarnanum um þetta verkefni, en þar segir jafnframt að við stjórnmálamenn verðum líka að líta í eigin barm þegar kemur að uppbyggingu fjármálamarkaðarins. Þar segir jafnframt að þrátt fyrir að margt hafi tekist mjög vel, meðal annars við uppbyggingu Landsbankans, verðum við stjórnmálamenn að taka til okkar þá ábyrgð sem við berum á traustari ramma, jafnræði og lagaskyldum og opnu og gagnsæju söluferli á eignum og afskriftum skulda. Höfum við gert nóg eða gætt nægjanlega að þeim sjónarmiðum? Um það verðum við að spyrja okkur. Svar Kjarnans við því er: Nei.
Því miður er Borgunarmálið staðfesting á því. Það er augljóst að við verðum að læra og gera betur. Nýlegt dæmi um slíkt viðfangsefni og ábyrgð er sú lagalega umgjörð sem nauðsynlegt er að búa umsýslu fjár og eigna sem komið er til vegna stöðugleikaframlags fjármálafyrirtækja. Þar hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagt sig í líma við að tryggja skýra lagalega umgjörð og áréttar að þar skuli stofnað fyrirhugað félag undir fjármála- og efnahagsráðuneyti við fullnustu og sölu verðmæta sem leggi áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni þar sem ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga liggja til grundvallar og í fullu samræmi við 45. gr. laga um opinber fjármál. Sýnir það dæmi að við erum meðvituð um þá ábyrgð og viljum gera betur.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 15. mars 2016.