Categories
Fréttir

Kveðja frá Framsókn – minningarorð um Alfreð Þór Þorsteinsson

Deila grein

16/06/2020

Kveðja frá Framsókn – minningarorð um Alfreð Þór Þorsteinsson

Alfreð Þór Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 15. febrúar 1944. Hann lést á nýrnadeild Landsspítalans í Reykjavík 27. maí 2020.

Foreldrar hans voru Ingvar Þorsteinn Ólafsson verkamaður, f. í Reykjavík 25. október 1901, d. 25. október 1964, og kona hans Sigríður Lilja Gunnarsdóttir, f. í Fellsaxlarkoti í Skilmannahreppi 7. janúar 1909, d. 22. ágúst 1971. Bræður Alfreðs voru: Gunnar Þór f. 1930, d. 1974, Óli Þór f. 1936, d. 2005, Sigurjón Þór, f. 1945, d. 1996, og Ingvar Þór, f. 1949, d. 2012.

Alfreð kvæntist 18.7. 1970 Guðnýju Kristjánsdóttur, f. 12.8. 1949, prentsmið. Hún er dóttir Kristjáns Pálssonar, f. 4.12. 1928, d. 3.3. 1965, húsasmíðameistara á Seltjarnarnesi, og k.h., Helgu Sæmundsdóttur húsmóður, f. 5.10. 1929, d. 2.9. 1991.

Dætur Alfreðs og Guðnýjar eru: 1) Lilja Dögg, f. 4.10. 1973, mennta- og menningarmálaráðherra, gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, hagfræðingi í atvinnuvegaráðuneytinu, börn þeirra eru Eysteinn Alfreð, f. 2007, og Signý Steinþóra, f. 2009. 2) Linda Rós, f. 31.5. 1976, guðfræðingur og sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, dóttir hennar er Guðný Gerður f. 2014.

Kveðja frá Framsókn

Fallinn er frá Alfreð Þór Þorsteinsson, fæddur lýðveldisárið 1944.

Alfreð var 18 ára gamall farinn að vinna sem íþróttablaðamaður fyrir Tímann, málgagn framsóknarmanna. Allt frá þeirri stundu var hann virkur í flokksstarfi Framsóknarflokksins.

Alfreð var kjörinn varaborgarfulltrúi í borgarstjórnarkosningunum 1970 en varð borgarfulltrúi ári síðar. Var hann endurkjörinn til setu í borgarstjórn í kosningunum 1974.

Hann varð formaður félagsins í Reykjavík og hélt uppi merkjum flokksins í borginni með flokksstarfi og framsóknarvist í mörg ár. Hann var samvinnumaður og félagsmaður sem taldi farsælast að vinna flokknum og fylgjendum hans allt hið besta innan frá. Margir eiga góðar og innilegar minningar frá sumarferðum framsóknarfélaganna í Reykjavík á hans formannsárum.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1986 var staða framsóknarmanna í Reykjavík ekki góð samkvæmt skoðanakönnunum. Alfreð hafði á ný verið kjörinn formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur árið áður og í vissu þess að ætla mætti að fylgi flokksins væri mun meira í kosningum var stillt upp framboðslista með Sigrúnu Magnúsdóttur sem oddvita og Alfreð í öðru sæti. Reynslan gaf framsóknarfólki sannfæringu um að berjast áfram. Sagan hefur kennt að fylgi flokksins á til að dala um tíma en það hefur sýnt sig að undirstaðan er traust og krafturinn mikill þegar á reynir.

Alfreð var varaborgarfulltrúi allt til ársins 1994 er Framsóknarflokkurinn tók þátt í framboði Reykjavíkurlistans, er felldi eftirminnilega meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Alfreð var borgarfulltrúi allt til ársins 2006 og voru honum falin margvísleg og vandasöm störf. Óhætt er að fullyrða að stærsta og vandasamasta verkefnið á hans borði hafi verið að stofna Orkuveitu Reykjavíkur 1999, með sameiningu Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Ári síðar var Vatnsveita Reykjavíkur sameinuð Orkuveitunni. Lyft var grettistaki og byggt upp einstakt og öflugt og framsýnt fyrirtæki í þágu borgarbúa. Framlag Alfreðs Þorsteinssonar í  Reykjavíkurlistaframboðinu var mikilvægt, enda með mikla reynslu úr borgarmálunum, allt frá árinu 1970, og hafði gott pólitískt nef. Hann var fljótur að átta sig og snöggur að svara klækjum andstæðinganna. Það tekur enginn af honum sem hann áorkaði.

Alla tíð lagði Alfreð sig fram um að sinna íþróttahreyfingunni vel. Félagsmálastörf voru honum í blóð borin. Knattspyrnufélagið Fram stóð hjarta hans næst og spilaði hann með yngri flokkum félagsins og átti síðar eftir sem formaður félagsins að standa að byggingu félagsheimilisins í Safamýri og seinna íþróttahúss Fram.

Þeir sem kynnast félagsstörfum vita að oft er starfið borið uppi af eldhugum. Alfreð var einn þeirra; framsýnn hugsjónamaður, sem samfélag hans, borgin hans, naut ávaxtanna af.

Fyrir hönd Framsóknar votta ég eftirlifandi eiginkonu Alfreðs, Guðnýju Kristjánsdóttur, og dætrunum Lilju Dögg og Lindu Rós og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Við Elsa óskum þess að góður guð styrki ykkur í sorginni en minning um góðan dreng lifir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu 16. júní 2020.

Stykklað á stóru um störf Alfreðs Þorsteinssonar í borgarstjórn Reykjavíkur

Fyrst er þó rétt að rifja upp að Alfreð var fljótt í góðum hópi afreksmanna á knattspyrnu með Fram. Framgangur félagsins var Alfreð hugleikin alla tíð, forsaga aðstöðuleysis félagsins enda löng.

Íslandsmeistari í knattspyrnu með fjórða flokki Fram

Alfreð varð Íslandsmeistari í fjórða flokki Fram árið 1956 og má finna fyrstu myndina í Tímanaum af Alfreð frá 8. nóvember það sama ár, í grein þar sem farið er yfir fjölbreytta starfsemi Knattspyrnufélagsins Fram á árinu. Í greininni kemur m.a. fram að „á árinu var ítrekuð umsókn félagsins um athafnasvæði í Kringlumýri. Ekki hefur þetta nauðsynjamál Fram enn þá fengið afgreiðslu, þar sem unnið er að gerð skipulagsuppdráttar af þessu svæði“.

Verkefni fram undan 1962 – nýtt félagssvæði Fram

Á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Fram árið 1962 kemur fram að aðalverkefni félagsins fram undan og það verkefni sem félagið hefur mesta þörf fyrir að hrint verði í framkvæmd, er uppbygging hins nýja félagssvæðis, sem borgarráð úthlutaði félaginu endanlega 20. nóvember s.l. Nýja félagssvæði, sem er 4,4 ha. er norðan Miklubrautar nærri Kringlumýri. Þar er ráðgert, að reist verði stórt og vandað félagsheimili, auk þriggja valla. Öll aðstaða félagsins til æfinga er óviðunandi eins og sakir standa — og er hvergi nærri hægt að koma öllum æfingum fyrir á þeim eina velli, sem félagið hefur til umráða. Allar líkur benda til þess, að hafizt verði handa, strax á næsta vori að vallargerð á nýja svæðinu.

Bæjarstjórn Reykjavíkur úthlutaði félaginu svæði við Miklubraut á 50 ára afmæli félagsins 1958. Vegna framkvæmda bæjarins hefur ekki verið unnt að ganga frá endanlegu skipulagi og hafa staðið yfir samningar milli bæjaryfirvalda og félagsins um stærð og legu svæðisins. Er máli þessu nú svo langt komin að hægt er að sjá fram á byrjunar framkvæmdir á árinu. Á þessu svæði, sem er norðan megin Miklubrautar, verSa 3 fullstórir leikvellir, auk handknattleiksvallar og sparksvæðis.

Á aðalfundinum 1962 er Alfreð kosinn í varastjórn Fram.

Alfreð var ungur farinn að vinna sem íþróttablaðamaður fyrir Tímann, málgagni Framsóknarmanna.

Íþróttamenn í „átthagafjötrum“

Skrif Alfreðs Þorsteinssonar sem íþróttafréttamanns komst á forsíðu Tímans af þætti hans „Á vítateigi“ 15. október 1967 fundir fyrirsögninni, „Íþróttamenn í „átthagafjötrum““. Var þar deilt á ferðaskatt er Alfreð benti á að yrði íþróttafélögum ofviða. Þegar hafi ferðaskatturinn haft þau áhrif, að handknattleikslið ÍR sé hætt við keppnisför til Þýzkalands. Í fréttinni segir:

„Hér er um fimmtán manna hóp að ræða, en samkvæmt fyrir huguðum ferðaskatti ríkisstjórnarinnar, mundi hann þurfa að greiða fjörutíu og fimm þúsund krónur í ríkiskassann til að fá að fara úr landi.

Þetta er íþróttafélaginu að sjálfsögðu ofviða. Fjárhagur íþróttafélaganna er það bágborinn, að þau mega ekki við þessum álögum.

Sýnilegt er að ferðaskatturinn mun hafa í för með sér að öll íþróttasamskipti við erlendar þjóðir munu stórlega dragast saman. T. d. eru Evrópu bikarleikir fram undan hjá Val í knattspyrnu og Fram í handknattleik, og er vafasamt að þessi félög treysti sér til að taka þátt í þessu vegna kostnaðar.

Alfreð Þorsteinsson segir í þætti sínum „Á vítateigi“ m.a.: Hinn nýi ferðaskattur mun kippa stoð unum undan þeirri þátttöku. Með honum væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir þátttöku í slíkri keppni brostinn, því að hvernig geta þessi félög tekið á sig auknar byrðar, sem nema 45-60 þús. krónum, þegar þau berjast í bökkum fjárhagslega.

Það yrði okkur til skammar, ef við þyrftum að draga okkur úr keppninni, en ekki væri hægt að lá félögunum fyrir að taka ákvörðun um slíkt.

Að lokum má geta þess, að fimm landsleikjaferðir í handknattleik eru fyrirhugaðar i vetur. Er stjórn HSÍ nú alvarlega að hugsa um það, hvort ferðaskatturinn útiloki ekki þessa þátttöku. Því að samtals nemur hann á þriðja hundrað þúsund krónum fyrir allar ferðirnar.

Borgarstjórnarkosningarnar 1970

Alfreðs Þorsteinssonar ákveður að bjóða sig fram í fyrsta skipti fyrir Framsóknarflokkinn í borgarstjórnarkosningunum 1970. Fram kemur í auglýsingu um framboð í skoðanakönnun Framsóknarfélaganna í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna 1970 að alls væru 41 í framboði. Þátttakendum könnunni var ætlað að kjósa sex nöfn og raða þeim í sex sæti framboðslistans.

Niðurstaðan varð að Einar Ágústsson, alþingismaður hlut 1. sætið og Kristján Benediktsson, borgarfulltrúi annað sætið. Þriðja sætið hlaut  Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fjórða sætið Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttaritari. Gerður Steinþórsdóttir, íslensku fræðingur það fimmta og Kristján Friðriksson, iðnrekandi það sjötta.

Guðmundur G. Þórarinsson, sem var þrítugur að aldri, Alfreð Þorsteinsson, sem var 26 ára, og Gerður Steinþórsdóttir, sem var 25 ára, höfðu ekki áður tekið sæti á framboðslista flokksins.

Í forystugrein Tímans „Skoðanakönnunin í Reykjavík“ sagði:

„Um seinustu helgi fór fram skoðanakönnun um skipan sex efstu sætanna á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík, en að borgarstjórnarkosningunum þar mun mestri athygli beint. Þeir Einar Ágústsson og Kristján Benediktsson, sem verið hafa borgarfulltrúar flokksins undanfarin átta ár, hlutu langflest atkvæði, og hafa þannig hlotið maklega viðurkenningu fyrir störf sín í borgarstjórninni. Sigríður Thorlacius, sem var í þriðja sætinu í seinustu borgarstjórnarkosningum, gaf ekki kost á sér aftur, en í það sæti hlaut nú Guðmundur Þórarinsson verkfræðingur langflest atkvæði. Guðmundur er þrítugur að aldri, er þekktur úr íþróttahreyfingunni og skátahreyfingunni og hefur starfað sem verkfræðingur hjá Reykjavíkurborg undanfarin ár. Hann kann því góð skil á skipulags- og framkvæmdarmálum borgarinnar. Í fjórða sæti hlaut annar ungur maður, Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttaritari, langflest atkvæði, en hann er manna kunnugastur íþróttamálum borgarinnar. Í fimmta sætið valdist ung menntakona, Gerður Steinþórsdóttir, og í sjötta sætið þekktur iðnrekandi, Kristján Friðriksson.

Það var áberandi, að þátttaka ungs fólks var hlutfallslega mun meiri en eldra fólksins í skoðanakönnuninni. Því fór þó fjarri, að fylgi þeirra Guðmundar, Alfreðs og Gerðar væri einskorðað við það.“

***

Hafa sjálfir fellt þyngsta dóminn um frammistöðu sína

Tíminn tekur opnu viðtal við Alfreð í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Í þessu viðtali slær hann tóminn um umbóta- og framfaramál er þurfi að hrinda í framkvæmd. Fer viðtalið í heild sinni hér að neðan.

Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttamaður, er fjórði maður á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík og er það vel til fallið, því að íþróttamál eru orðin mikill þáttur og sívaxandi í málefnum borgarinnar og nauðsynlegt að í borgarstjórn sitji menn, sem hafa góða þekkingu á þeim málum.

Alfreð Þorsteinsson er 26 ára að aldri, fæddur og uppalinn í Reykjavík. Foreldrar hans eru Sigríður Gunnarsdóttir og Ingvar Þorsteinn Ólafsson, en hann er nú látinn.

Alfreð hóf nám í Kennaraskólanum en hvarf frá því og gerðist blaðamaður við Tímann árið 1962.  Hann stundaði íþróttir allmikið um skeið hjá Fram og var þjálfari yngstu flokka félagsins í nokkur ár. Alfreð hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum, var formaður unglinganefndar Knattspyrnusambands Íslands í nokkur ár og formaður knattspyrnudeildar Fram, en undanfarið hefur hann starfað í knattspyrnudeild Ármanns og er varaformaður hennar.

Ýmsum öðrum trúnaðarstörfum innan íþróttahreyfingarinnar hefur hann gegnt og tekið virkan þátt í félagsmálum hennar með ýmsum hætti.

Þegar hann réðst að Tímanum, fór hann þegar að rita um íþróttir, bæði einstaka kappleiki og íþróttamál almennt, og hefur síðustu árin verið ritstjóri íþróttasíðu blaðsins, en auk þess unnið ýmis önnur störf, svo sem við umbrot blaðsins.

Alfreð vann sér þegar gott álit sem dómbær og glöggur íþróttafréttamaður og skeleggur málsvari ýmissa umbóta í íþróttamálum. Hefur þáttur hans, „Á vítateigi“, hér í blaðinu, þar sem hann ræðir ýmis íþróttamálefni dagsins, vakið verulega athygli, enda mörgum þörfum málum hreyft þar og ýmislegt gagnrýnt, sem aflaga fer.

Í eftirfarandi viðtali er Alfreð ómyrkur í máli um þjónustu borgarinnar við íþróttamálin í Reykjavík.

„Siðleysi“ Sjálfstæðisflokksins

„Ég dreg enga dul á það, að mér hefur fundizt frammistaða Sjálfstæðisflokksins í íþróttamálum léleg, svo ekki sé meira sagt,” sagði Alfreð, þegar við ræddum við hann um þessi mál. „Heilindi talsmanna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum eru ekki meiri en svo, að sumir þeirra, sem eru í áhrifastörfum í íþróttahreyfingunni, berjast hatrammlega gegn umbótatillögum í þessum efnum í borgarstjórn, jafnvel tillögum sem þeir haf sjálfir lýst sig fylgjandi á íþróttaþingum.

Raunar hefur enginn lýst þessum óheilindum Sjálfstæðismanna betur en 5. maðurinn á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum í vor, Albert Guðmundsson. Hann hefur nefnt þetta „siðleysi”, og er það vissulega þungur dómur á Sjálfstæðisflokkinn.

Lítil von um stefnubreytingu

— Er ekki von til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn breyti um stefnu í íþróttamálunum, ef Albert kemst í borgarstjórn?

— Ég veit hug hans í þessum málum. Við höfum ekki ósvipaða skoðum á ýmsum málum, höfum m.a. barizt saman fyrir því að fá vallarleiguna lækkaða, en  árangurslaust. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þverskallazt við að gera raunhæfar úrbætur í því máli. Ég er hræddur um, að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér ekki að leyfa Albert að koma of nærri íþróttamálunum eins og raunar hefur komið fram, því að þegar flokkurinn hélt almennann fund um íþróttamál ekki alls fyrir löngu, var Albert ekki látinn halda framsöguræðu, en aftur á móti fékk hann að tala á heildsalafundi, sem flokkurinn gekkst fyrir.

Það virðist því lítil von um stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum í íþróttamálum. Hins vegar mun Framsóknarflokkurinn beita sér fyrir ýmsum framfaramálum og m.a. berjast fyrir því að fá vallarleiguna lækkaða, svo að grundvöllur skapist fyrir eðlileg íþróttasamskipti við útlönd.

Íþróttafélögin illa á vegi stödd fjárhagslega

— Hvernig er búið að íþrótta félögunum í borginni?

— Ekki nægilega vel. Þau eiga í sífelldum fjárhagsörðugleikum og fer allt of mikill tími hjá forystumönnum félaganna til að afla fjár. Að mínu viti þarf að gera stórátak til að efla félögin, af því að þau eru undirstaðan undir öllu íþróttastarfinu.

Sumum kann að virðast að of miklu fé sé varið til íþróttamála, en til fróðleiks get ég upplýst, að styrkur Reykjavíkurborgar til Íþróttabandalags Reykjavíkur á síðasta ári var 2.5 milljónir króna. Af þessari upphæð var greiddur allur skrifstofukostnaður ÍBR, en hinu skipt á milli félaganna. Og þegar marga munna þarf að metta, fær hvert félag lítið í sinn hlut, svo lítið, að það hrekkur ekki einu sinni til að greiða æfingatíma í íþróttasölum  borgarinnar, en þeir eru í eigu Reykjavíkurborgar.

Til fróðleiks má geta þess, að á sama tíma og borgaryfirvöld halda að sér höndum í íþróttamálum, er 150 milljónum króna kastað í verkefnalausa höfn, en þar á ég við Sundahöfnina. Fyrir þá upphæð gæti Reykjavíkurborg styrkt íþróttafélögin í borginni til starfsemi sinnar í 50-60 ár miðað við óbreytt framlag!

Ég nefni þetta ekki af því að ég sé á móti verklegum framkvæmdum, síður en svo, en það er hlálegt, að á sama tíma og borgaryfirvöld telja sig ekki geta sinnt meira jafn þýðingar miklum málum og íþrótta- og æskulýðsmálin eru, þá skuli hundruðum milljóna króna varið til ótímabærra framkvæmda.

Leiðbeinendaskorturinn alvarlegur

— Á hvern hátt vilja Framsóknarmenn aðstoða íþróttafélögin?

Eins og dýrtíðin er orðin mikil, þá er næstum útilokað fyrir einstök íþróttafélög að reisa sjálf íþróttamannvirki. Þau verða að fá aðstoð til þess — meiri aðstoð en nú er veitt. Auk þess verður að sjá svo um, að íþróttafélögin geti á hverjum tíma haft hæfa og góða leiðbeinendur í þjónustu sinni. Leiðbeinendaskorturinn er mjög alvarlegur og háir starfsemi félaganna og í stefnuskrá Framsóknarflokksins við borgarstjórnarkosningarnar núna, er m.a. lögð á það áherzla, að félögunum verði gert kleift að hafa leiðbeinendur á íþróttasvæðum sínum dag langt yfir sumarmánuðina. Er þá haft í huga, að félögin geti tekið á móti þeim yngstu og veitt þeim tilsögn fyrr á daginn, en með því nýtast vellirnir betur.

Flóttinn úr höfuðborginni

— Nú hefur því verið fleygt, að þjálfarar í Reykjavík fari í síauknum mæli út á landsbyggðina til starfa. Af hverju stafar það?

— Já, það er rétt. Á undanförnum árum hafa bæjarfélögin úti á landi lagt aukna áherzlu á íþróttastarfið og íþróttakennurum og þjálfurum bjóðast betri kjör úti á landi. Þetta á eikum við um knattspyrnuna. Í þeirri grein eru Reykjavíkurfélögin varla samkeppnisfær um þetta. Utanbæjarfélögin bjóða í beztu leikmennina og þjálfarana, ef svo mætti orða það, og standa félögin hér varnarlaus gagnvart þessari þróun. Enginn getur álasað ungum knattspyrnumönnum með mikla hæfileika, þó að þeir þiggi slík boð, en þó verður að reyna að sporna gegn þessum flótta úr höfuðborginni, því að Reykjavíkurfélögin missa annars forystuhlutverk sitt, eins og raunar hefur gerst í knattspyrnunni. Íslandsbikarinn er í höndum Keflvíkinga og Akureyringar unnu „Bikarinn“ eins kunnugt er.

Ef Reykjavíkurfélögin eiga að ná forystuhlutverki sínu aftur, verður Reykjavíkurborg að aðstoða þau meira en nú er gert, ekki einungis með því að styrkja hinn daglega rekstur þeirra, heldur og að bæta alla aðstöðu til keppni.

Í kaupstöðum úti á landi, þar sem knattspyrna er iðkuð eitthvað að ráði, þykir lágmark að hafa einn grasvöll og einn malarvöll. Þó er álagið á þeim völlum mörgum sinnum minna en á völlunum í Reykjavík, því að í höfuðborginni eru mörg félög um tvo keppnisvelli. Af þessum sökum skapast oft vandræðaástand í Reykjavík. T.d. má ekki mikið út af bera til þess að ásigkomulag Laugardalsvallar verði þannig, að ekki sé hægt að leika á vellinum. Og þá er ekki hægt að grípa til neins varagrasvallar.

Þetta er afleitt ástand í jafnstórri borg.

Flóðljós þar — hvenær hér?

— Talandi um íþróttavelli hér í borginni og úti á landi. Er það misminni hjá mér, að sum félögin úti á landi hafi þegar fengið flóðljós við velli sína?

— Nei, það er rétt. Litlu bæjarfélögin úti á landi hafa gengið á undan með góðu fordæmi í þessum málum, en hugmyndir um flóðljós í Reykjavík virðast nokkuð á reiki. T.d. las ég það í Mbl. ekki alls fyrir löngu, að fyrirhugað væri að koma fyrir flóðljósum við gamla Melavöllinn — völl, sem bráðlega verður lagður niður.

Að mínu áliti er ekki eftir neinu að bíða með að byggja nýjan malarvöll í Laugardal í stað Melavallarins og þar á að setja upp flóðljós, en ekki við völl, sem brátt verður lagður niður.

Skynsamleg stefna um notkun íþróttahúsa

— Hvað viltu segja um íþróttahús í borginni?

— Ég er mjög fylgjandi þeirri stefnu, sem tekin hefur verið upp um sameiginleg afnot skóla og félaga af íþróttahúsum. Skólarnir nota þau á daginn, en íþróttafélögin á kvöldin. Með þessu móti nýtast íþróttahúsin fullkomlega.

Varðandi keppnisíþróttahús, er frammistaða borgaryfirvalda ekki eins góð. Laugardalsböllin, þó að stór sé og glæsileg á ytra borði, kemur ekki hún ekki að fullum notum. Hér vantar  tilfinnanlega íþróttahús með áhorfendarými fyrir 500—600 manns í stað Hálogalandsbraggans, íþróttahús, þar sem minni keppnismót gætur farið fram, t.d. í glímu, badminton og keppni yngri flokkanna í handknattleik og körfuknattleik.

— Nú er rætt um, að leiga íþróttamannvirki í Reykjavík sé íþróttahreyfingunni ofviða?

— Það er ekkert leyndarmál. Sumar íþróttagreinar treysta sér alls ekki til að leigja íþróttamannvirki í Reykjavík fyrir keppnismót sín. Hafa körfuknattleiksmenn t.d. flutt mót sín út á Seltjarnarnes af þessum sökum.

Íþróttafólk hætt að taka mark á loforðum Sjálfstæðisflokksins

— Undanfarna daga hafa íþróttaforkólfar Sjálfstæðisflokksins hamazt við að gefa loforð um ný íþróttamannvirki. Hvað viltu segja um það, Alfreð?

— Íþróttafólk brosir þessu brölti þeirra. Það þekkir orð og efndir Sjálfstæðisflokksins í íþróttamálum. Íþróttamannvirkin í Laugardal hafa verið í smíðum á þriðja áratug — og ber ekki vitni um dugnað í þeim málum. Menn taka því mátulega trúanlegt, þegar Sjálfstæðisflokkurinn talar um að koma upp 15—20 skíðalyftum í nágrenni borgarinnar, flóðljósum við knattspyrnuvelli og gervigrasi á íþróttasvæði fyrir 25 milljónir króna. Loforð Sjálfstæðisflokksins eru einskis virði. Nægir í því sambandi að minna á loforð flokksins í íþróttamálum fyrir síðustu kosningar. Þá lofaði hann m.a. að ljúka byggingu nýrra búnings- og baðherbergja við Sundlaug Vesturbæjar — að hefja byggingu malarvallar í Laugardal — að hefja undirbúning á byggingu sundlaugar í Breiðholtshverfi — að bæta aðstöðu til sjóbaða og róðraríþróttar í Nauthólsvík — og að fjölga skautasvellum í borginni.

Öll þessi loforð hafa verið svikin — og meira en það, því að í sumum tilvikum er ástandið verra nú, en það var fyrir fjórum árum. T.d. hefur sjóbaðstað Reykvíkinga verið lokað vegna mengunar — og borgin hefur hætt að starfrækja skautasvell í borginni.

Eina loforðið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið við, er bygging þaks yfir stúkuna á Laugardalsvelli. Smíði þess tókst að ljúka fyrir nokkrum dögum, rétt fyrir kosningar. Þá hafði stúkan í Laugardal verið þaklaus í 13 ár.

Athafnir í stað orða

— Hvað hyggst Framsóknarflokkurinn að gera í íþróttamálum borgarinnar, ef hann kemst til áhrifa?

— Eins og ég hef áður sagt, þá er mjög þýðingarmikið, að félögin séu sterk. Þau eru undirstaðan undir öllu íþróttastarfinu. Framsóknarflokkurinn mun beita sér fyrir því að efla hag Reykjavíkurfélaganna svo að þau geti sem bezt gegnt hinu þýðingarmikla hlutverki sínu. Við leggjum til, að gerð verði áætlun til fjögurra ára í senn í íþróttamálum og höfð verði náin samvinna við félögin um þá áætlunargerð.

Um byggingu íþróttamannvirkja vil ég segja þetta: Við byggjum ekki íþróttamannvirki með orðum einum. Við þurfum athafnir í stað orða. Við eigum að stefna að því að byggja hentug og sem ódýrust mannvirki, en ekki að leggja allt upp úr því að hafa þau sem stærst og veglegust. Í þeim efnum gætum við mikið lært af nágrannaþjóðum okkar.

Erfitt að spá um úrslit

— Að lokum Alfreð, hverju viltu spá um kosningarnar?

— Það er jafn erfitt að spá um kosningar og knattspyrnu. En þó verð ég að segja, að ég er bjartsýnn á, að nú takist að brjóta einveldi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á bak aftur. Fjölmargt ungt fólk gengur nú til kosninga í fyrsta sinn. Unga fólkið nú er skynsamt og fordómalaust — og dæmir sjálft um hlutina, en lætur ekki blekkjast af fagurgala þreyttra stjórnmálamanna. Það er þetta unga fólk, sem ræður úrslitum kosninganna, og við verðum að treysta því sjálfu bezt til að ráðstafa atkvæðum sínum.

***

Í TÍMANUM frá 26. maí 1970 segir frá fjölmennum og fjörugum kappræðufundi FUF í Reykjavík og Heimdallar.

Mjög fjölmennur og fjörugur kappræðufundur F.U.F. og Heimdallar í fyrrakvöld:

Fátt um svör við rökfastri gagnrýni Framsóknarmanna

Alfreð var ræðumaður á kappræðufundi FUF í Reykjavík og Heimdalls í Sigtúni í aðdraganda kosninganna. Ungir Framsóknarmenn höfðu sótt það í 40-daga að fá við Heimdall að rökræðuborðinu. Segir svo í Tímanum að fundurinn hafi verið geysifjölmennur og fjörugur, en einkenndist að öðru leyti af mjög harðri málefnalegri gagnrýni ræðumanna Framsóknarflokksins á mistök borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík á undanförnum árum. Var fátt um svör hjá ræðumönnum Sjálfstæðisflokksins — þeim sem á annað borð gerðu tilraun til að svara gagnrýninni. Sumir Sjálfstæðismennirnir ræddu um flest annað en borgarmálin, og gátu fá svör gefið við gagnrýni og spurningum Framsóknarmanna. Þá gátu þeir heldur ekki svarað því, hver yrði borgarstjóri í hugsanlegri samsteypustjórn Sjálfstæðismanna og Alþýðuflokksmanna eftir kosningar — ef íhaldið tapaði meirihluta sínum.

„Gaman — Gaman — flokkurinn“

Alfreð Þorsteinsson talaði næstur á eftir Guðmundi G. Þórarinssyni fyrir hönd Framsóknarmanna. Minnti hann í upphafi á tilraunir Sjálfstæðismanna til að betla atkvæði hjá kjósendum annarra flokka. Það væru hræddir menn, sem ekki treystu á málstað sinn, en stæðu í slíku atkvæðabetli.

Sagði hann, að það væri reyndar ekkert undarlegt þótt Sjálfstæðismenn í Reykjavík væru hræddir, þegar litið væri á störf þeirra á liðnu kjörtímabili. Þau störf væru með þeim endemum, að Sjálfstæðismenn hefðu fellt niður úr síðustu „Bláu þókinni” kaflann „Orð og efndir”, sem þó hafði verið fastur liður í bókinni síðustu áratugina.

Þá sagði Alfreð, að Sjálfstæðismenn hefðu kvartað undan því, að fá enga málefnalega gagnrýni á stjórn borgarinnar. Þegar Framsóknarmenn legðu síðan fram ítarlega og málefnalega gagnrýni, hver væru þá viðbrögð Sjálfstæðismanna?

Jú, fallkandídat Sjálfstæðisflokksins í síðustu  borgarstjórnarkosningum hafi skrifað í ruslakistu Mbl. eftirfarandi: „Sælir eru einfaldir. Gaman, gaman.“

Það var að vísu gaman, sagði Alfreð, að Staksteinahöfundurinn skyldi falla í síðustu borgarstjórnarkosningum — og enn þá meira gaman yrði það, ef nú tækist að hnekkja íhaldsmeirihlutanum í Reykjavík. En ég vil leyfa mér að benda á, að Reykvíkingar líta ekki á það sem gamanmál, að hundruð milljón króna skuli hafa verið varið í ótímabærar framkvæmdir á meðan önnur nauðsynlegri verkefni bíða úrlausnar. Það sér enginn neitt sniðugt við það, nema trúðar íhaldsins — hinir sjálfumglöðu skriffinnar Gamangaman-flokksins.

Sneri Alfreð sér síðan að íþróttamálunum, og lýsti nokkuð ástandinu í þeim málum — og þá m.a., að stuðningur borgarinnar við íþróttafélögin nægði ekki einu sinni fyrir leigu félaganna á íþróttahúsunum, sem borgin á. Einnig ræddi hann afstöðu ýmissa íþróttaleiðtoga Sjálfstæðisflokksins, sem samþykktu tillögur til úrbóta á þingum íþróttasamtakanna, en stæðu síðan á móti þeim í borgarstjórn. Minnti hann á, að 5. maður á lista Sjálfstæðisflokksins, Albert Guðmundsson, hefði á sínum tíma, nefnt slíkt siðleysi, og tæki hann undir þau orð. Slíku siðleysi yrði að hnekkja 31. maí.

***

Alfreð Þorsteinsson var ekki lengi að láta finna fyrir sér á vettvangi borgarstjórnar. Strax að loknum kosningum var hann farinn að flytja tillögur er pirruðu meirihluta Sjálfstæðismanna. Skrifaði Morgunblaðið m.a. að tillöguflutning Alfreðs mætti heimfæra upp á „nýliða“ í borgarmálum.

Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, svaraði gagnrýn Morgublaðsins frá 4. júlí 1970, undir fyrirsögninni „Ábyrgðarleysi Mbl.“.

„Í gær ræðst Mbl. heiftarlega á Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og ásakar hann um sýndarmennsku og auglýsingastarfsemi, fyrir það eitt, að Alfreð bar fram tillögu í borgarstjórn, sem miðar að því að auka öryggi borgarbúa, þegar slys bera að höndum. Er gert ráð fyrir því í tillögu Alfreðs, að læknar eða læknanemar fylgi sjúkrabifreiðum og sjúkrabifreiðir verði hafðar til taks víðar í borginni.

Í tillögum, sem sjúkraflutninganefnd skilaði nýlega, er ekki gert ráð fyrir því, að þessi háttur verði hafður á, þó að, það liggi í augum uppi, að öryggi borgarbúa væri miklu betur tryggt með því að læknar kæmu á slysstað og veittu fyrstu hjálp.

Tillaga Alfreðs er því engin auglýsingastarfsemi, og skrif Mbl. um jafn þýðingarmikið mál, ber vott um ábyrgðarleysi á hæsta stigi.“

***

TÍMINN segir frá fundi í desember 1970 þar sem Alfreð var frummælandi um íþróttakennslu í skólum í Reykjavík.

Síðast liðið fimmtudagskvöld gekkst Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík fyrir fundi í Glaumbæ. Fundarefnið var:

Er íþrótta kennslan vanrækt í skólum?

Frummælandi var Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttamaður. Allmargir íþróttakennarar og íþróttanefndarmenn úr skólum í Reykjavík sóttu fundinn og sköpuðust miklar umræður um íþróttakennsluna. Alfreð Þorsteinsson hélt ítarlegt framsöguerindi um þetta efni.

Of lengi hefur verið trassað að moka út

Sl. fimmtudagskvöld gekkst Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík fyrir fundi í Glaumbæ. Fundarefnið var: Er íþróttakennslan vanrækt í skólum?

Frummælandi var Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttamaður, allmargir íþróttakennarar og íþróttanefndameon úr skólum í Reykjavík sóttu fundinn og sköpuðust miklar umræður um íþróttakennsluna.

Alfreð Þorsteinsson hélt ítarlegt framsöguerindi um þetta efni og sagði m.a.: „Satt að segja fannst mér gæta fullmikillar hæversku hjá baðendum þessa fundar, er þeir ákváðu að hafa nafngift hans í spurnarformi. Ég, fyrir mitt leyti, hefði heldur kosið að sleppa spurningarmerkinu aftan við fundarheitið — Er íþróttakennsla vanrækt í skólum? og ganga hreint til verks með því að slá því föstu, að íþróttakennslan sé ekki aðeins vanrækt heldur stórkostlega vanrækt í skólum randsins.

Börn undir 10 ára aldri hljóta enga íþróttakennslu Urni það höfum við ótal dæmi. Ég get bent á nokkra af stærstu kaupstöðum landsins, máli mínu til stuðnings. í Hafnarfirði njóta engin börn undir 10 ára aldri íþróttakennslu. Sömu sögu er að segja á Akureyri. Börn og unglingar í eldri bekkjum í þessum kaupstöðum njóta mjög takmarkaðrar íþróttakennslu og í sumum tilvikum alls engrar, eins og á sér stað í efri bekkjum gagnfræðaskólans í Hafnarfirði. í mörgum kaupstöðum og kauptúnum úti á landsbyggðinni er sömu sögu að segja, en ég nefndi Akureyri og Hafnarfjörð sem dæmi. Raumar mætti nefna Kópavog og Keflavík i sömu andrá, þó að ástandið sé skárra þar.

Í Reykjavík er ástandið þannig við hina fjölmörgu ríkisskóla, að í engum þeirra er framfylgt lögboðinni íþróttakennslu, enda kannski ekki von, þegar þess er gætt, að ekki hefur verið reist eitt einasta íþróttahús við þessa skóla á þeirri öld, sem við lifum á.

Fjósalykt enn þá

Eina íþróttahúsið, sem reist hefur verið að frumkvæði ríkisins mun vera gamla íþróttahúsið við Menntaskólann í Reykjavík, sem að sögn var byggt sem fjós upphaflega á síðari hluta nítjándu aldar. Alla tíð síðan hefur fjósalyktin verið ríkjandi í íþróttahúsamálum ríkisvaldsins. Minnir það óneitanlega á lyktina í fjósi Ágesar konungs í Elís, sem segir frá í hetjusögum grískrar goðafræði, en sagan segir, að Ágeas hafi átt ógrynni nauta. En fjós hans höfðu aldrei verið mokuð út, svo að mykjan hafði safnazt þar fyrir. — Ein af tólf þrautum kappans Heraklesar var að hreinsa fjósin á einum degi — og leysti hann þrautina með því að veita tveimur fljótum um fjósin og hreinsaði þau á skömmum tíma.

Það væri sannarlega óskandi að hægt væri að leysa vandamál íþróttakennslunnar hér á landi með jafnari dreifi aðferð og Herakles notaði. en hræddur er ég um, að það muni reynast erfitt. Hvort tveggja er, að húsráðendur eru ekki gjarnir á að opna dyrnar til að veita nýjum straumum inn, og hitt, að enda þótt tækist að ljúka dyrunum upp, er óvíst, að lyktin hyrfi á skömmum tíma, svo lengi sem trassað hefur verið að moka út.

Skortur á íþróttahúsum

Arið 1940 er merkilegt ár fyrir íþróttakennsluna í landinu. Þá er íþróttakennsla lögleidd við skóla landsins í reglugerð í íþróttalögunum frá 1940 er gert ráð fyrir að nemendur fái þrjá íþróttatíma á viku, en í yngstu bekkjardeildunum tvo tíma.

Alla tíð síðan hefur verið mikill brestur á, að þessum lögum hafi verið framfylgt. Ræður mestu um skortur á íþróttahús um. Enn fremur vil ég nefna tvö önnur atriði, sem staðið hafa íþróttakennslu hér á landi fyrir þrifum — skortur á vel menntuðum íþróttakennurum — og skilningsleysi skólayfirvalda á nauðsyn og gildi íþrótta kennslunnar.

Af þeim þrem atriðum sem einkum hafa staðið íþróttakennslunni fyrir þrifum, vil ég fyrst nefna aðstöðuleysið — skortinn á húsnæði undir íþrótta kennslu.

Ég hygg, að það muni ekki of sterkt til orða tekið, þó að ég segi, að eymdarástand hafi verið ríkjandi í íþróttahúsum um undanfarna þrjá áratugi eða allt frá því, að íþróttalög tóku gildi. Nærtækt dæmi er sinnuleysi ríkisvaldsins um byggingu íþróttahúsa við ríkisskólana hér í höfuðborginni. Kennaraskólinn, Stýrimannaskólinn, Vélskólinn, Tækniskólinn, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Húsmæðrakennaraskólinn, Matsveina- og veitingaþjónaskólinn og Iðnskólinn — enginn þessara skóla hefur eigið íþróttahús. Nemendur þessara skóla skipta þúsundum, en enginn þeirri hlýtur fullkomna íþróttakennslu. Hún er alls staðar skert — og í sumum skólum alls engin, eins og til að mynda í Iðnskólanum og Tækniskólanum.

Ástandið við ríkisskólana í Reykjavík er sennilega ljótasta dæmið um sinnuleysið gagnvart íþróttakennslu. Víða úti á landsbyggðinni er pottur brotinn í þessum efnum. Ég nefndi Akureyri, Hafnarfjörð, Kópavog og Keflavík sem dæmi — sums staðar mun ástandið vera betra, og sums staðar verra, þó að ég hafi ekki skýrslur undir höndum, sem sanna það.

Breyting til batnaðar hjá Reykjavíkurborg

En víkjum aðeins að íþróttahúsamálum á vegum Reykjavíkurborgar; Til skamms tíma hefur ríkt ófremdarástand á þeim vígstöðvum sem öðrum, allt fram á allra síðustu ár. En nú er að verða, sem betur fer, stórkostleg breyting til batnaðar í íþróttahúsamálum Reykjavíkurborgar, enda þótt margt sé ógert enn. Ég hef hér undir höndum yfirlit um byggingu íþróttahúsa af hálfu Reykjavíkurborgar frá 1930 og sýnir örugglega, hver þróunin hefur verið í þessum málum.

Fyrir 1930 voru byggðir 2 salir, samt. 299 ferm., árin 1931 til 1940 enginn salur byggður, 1941 til 1950 fjórir salir byggðir, samt. 801 ferm., 1951 til 1960 tveir salir byggðir, samt. 318 ferm. og 1961 til 1970 eru byggðir sextán salir að flatarmáli samt. 5294 fermetrar.

Reyndar skal það tekið fram, að 5 af þeim 16 íþróttasölum, sem ég taldi vera smíðaða á áratugnum 1961—70 eru enn í smíðum. Er þar átt við íþróttasalina í Vogaskóla og íþróttasalina við Árbæjarskóla. En smíði þeirra er það langt komin, að þeir eiga að vera tilbúnir um áramótin.

Enda þótt reiknað sé með, að íþróttahúsin við Vogaskóla og Árbæjarskóla séu komin í gagnið — sem þau eru reyndar ekki — kemur í ljós, að enn vantar nokkuð á. að hægt sé að fram fylgja lögboðinni íþróttakennslu í skólum Reykjavíkurborgar. Í gagnfræðaskólum hljóta 57,7% nemenda fulla íþróttakennslu, en 42.3% hafa skerta íþróttakennslu Þetta er þó miklu betra ástand heldur en var fyrir 6 árum því að þá hlutu einungis 12.4% unglinga í gagnfræðaskólum fulla íþróttakennslu. Í barnaskólum borgarinnar verður samanburður við árið 1964 enn hva ‘~~m, því að eftir næstu áramót munu 72,2% barna hljóta fulla íþróttakennslu, en árið 1964 nutu aðeins 37,1% barna íþróttakennslu.

Ber vissulega að þakka það átak, sem gert hefur verið í þessum málum í höfuðborginni, þó að enn sé nokkuð langt í land með að íþróttaskyldunni verði fullnægt, auk þess, sem enn skortir nokkuð á, að húsnæði það, sem sumir skólarnir nota, geti talizt hagkvæmt verða nemendUr þeirra að sækja íþróttatíma langan veg, þar sem íþróttakennslan fer fram í öðru húsnæði en því, sem tilheyrir skólunum. Má þar nefna Hagaskóla, en nemendur hans verða að sækja íþróttatíma í KR-húsið við Frostaskjól, Hlíðarskóla, en nemendur hans sækja íþróttatíma í Valshús. Einnig mætti nefna verknámsskólann í Ármúla. En ljótasta dæmið um langferðir skólanema til að sækja íþróttatíma, eru ferðir nemenda æfingadeildar Kennaraskóla íslands. Sækja nemendur hans, sem flestir eru búsettir í námunda við Kennaraskólann, íþróttatíma í íþróttahús Jóns Þorsteinssonar, sem er niðri í miðbæ, nánar tiltekið við Lindargötu. Er að vonum, að foreldrar þessara barna hafa skrifað undir mótmælaskjal vegna þessarar ráðstöfunar, sem er hæpin í meira lagi.

Látum þetta nægja um íþrótta húsin og aðstöðuna til íþróttakennslu, en þó væri vissulega ástæða til að geta um þá miklu vöntun á tækjum og áhöldum, sem víða er ríkjandi — og íþróttakennarar kvarta mjög undan.

Íþróttakennaranám alls staðar lengra en hér Snúum okkur þá að menntun íþróttakennaranna. Ég hygg, að öllum muni vera ljóst, að 9 mánaða nám í íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni getur tæplega talizt fullnægjandi nám. Vel má vera, að svo hafi verið 1943, þegar íþróttaskóla Björns Jakobssonar var breytt í íþróttakennaraskóla íslands, en síðan hafa orðið stórkostlegar breytingar á íþróttakennslu — og breytingar eru sífellt að gerast. Kröfurnar, sem gerðar eru til íþróttakennara, hafa aukizt að mun. Er hægt að slá því föstu, að íþróttakennaraskóli íslands er ekki fær um það í dag. eins og nú er f pottinn búið, að veita væntanlegum íþróttakennurum þá alhliða menntun. sem krefjast verður af íþrótta kennurum.

Aðrar þjóðir gera eftirtaldar kröfur um námsefni til íþróttakennaraprófs og hve undirbúningur nemenda er talinn þurfa að vera langur:

 • Danmörk: 9 mánuðir að loknu almennu kennaraprófi, 1400 kennslustundir.

 • Noregur: 16 mánuðir að loknu almennu kennaraprófi eða stúdentsprófi, 2149 kennslustundir.

 • Svíþjóð: 20 mánuðir að loknu almennu kennaraprófi eða stúdentsprófi. 2176 kennslustundir.

 • Finnland: Áætlaður námstími 21 mánuður að loknu 3ja ára námi í háskóla, auk námskeiða að sumarlagi. Samtals um 210ri kennslustundir.

 • England: Skipt í 3 ár um 20 mánuði alls.

 • V.-Þýzkaland: Skipt í 3 ár um 24 mánuði alls.

 • Frakkland: Skipt í 3 ár um 27 mánuðir alls.

 • Rússland: Skipt í 4 ár um 36 36 mánuði alls.

Ýmsar spurningar vakna

Þegar það er haft í huga hve stutt námið á íþróttakennaraskóla íslands er, vaknar ósjálfrátt sú spurning, hvort þorri þeirra íþróttakennara, sem nú eru starfandi, séu yfirleitt færir um að annast kennslu. Ég hef ekki ætlað mér að setjast í dómarasæti, en vil endurtaka, að það er ekki óeðlilegt, . þótt spurning um þetta atriði vakni.

Það mun til að mynda vera mjög fátítt núorðið, að íþróttakennarar, sem útskrifast af Laugarvatni, hirði um að afla sér framhaldsmenntunar. Sumpart stafar það af því, að launa lega séð skiptir það engu máli, hvort íþróttakennari aflar sér framhaldsmenntunar eða ekki —. en sumpart stafar það af því, að íþróttakennarar hafa ekki þann eðlilega áhuga, sem ég tel nauðsynlegt, að þeir hafi. Íþróttakennsla er nefnilega að ýmsu leyti meira en brauðstrit eitt fyrir íþróttakennara — hún er hugsjónastarf — eins og raunar öll kennslustörf eru að vissu marki.

Knötturinn látinn hafa fyrir erfiðinu

Enda þótt ég segði hér á und an, að ég hefði ekki hugsað mér að setjast í dómarasæti, get ég ekki stillt mig um að minnast á nokkur dæmi um íþróttakennslu, eins og hún gerist sums staðar £ dag, og ég tel vera merki um hnignun.

Fyrir örfáum dögum varð ég vitni að íþróttakennslu stúlkna í tilteknu íþróttahúsi í borginni. Stúlkurnar munu hafa verið eitthvað 15—20. Það, sem vakti fyrst athygli mína, var að helmingur þeirra mætti í íþróttatímann í götuklæðum, em hinn helmingurinn var í íþróttabúningum af ýmsu tagi. — Var ég að viðurkenna, að ekki virtist mér þetta lofa góðu um framhaldið — grunur minn styrktist, þegar íþróttakennarinn byrjaði á því að skipta stúlkunum í tvö handknattleikslið. — Gat ég ekki að því gert, en mér fannst sem þessi íþróttakennari vissi harla lítið um það, hvernig handknattleikur gengi fyrir sig. — Enda fór það svo, að eftir 5 mínútna sprikl stúlknanna, sem líktist miklu fremur slagsmálum en handknattleik, var leikurinn stöðvaður. — Bjóst ég nú við, að tekið yrði til við leikfimi eða léttari leiki, en það var öðru nær. — Aftur var stúlkunum skipt í tvo hópa — og nú var tekið til við að æfa vítaköst. — Var tíminn, sem eftir var, notaður á þennan hátt. — Og lái mér hver sem vill, en öllu ómerkilegri íþróttatíma hef ég ekki orðið vitni að.

Kannski var þessi tími undantekning — alla vega vonar maður það — en hitt hefur maður ekki komizt hjá að heyra, að nú gerist æ algengara í íþróttatímum skóla, að íþróttakennarar varpi byrði sinni yfir á knattleikina — og séu þeir nú orðnir fyrirferðameiri þáttur í íþróttakennslunni. en góðu hófi gegni.

Nú geta knattleikir verið hinir gagnlegustu og haft uppeldislegt gildi. Í knattleikjum læra menn að umgangast aðra og taka tillit til þeirra. Þeir læra lög og reglur leikja — og mátt samvinnunnar. En frum skilyrði er, að knattleikurinn sé vel stjórnað af íþróttakennurum á því vill verða misbrestur — og ég sel þá sögu ekki dýrari en ég keypti hana, að íþróttakennari við ákveðinn skóla hér í borg, hafi það til siðs að kasta knetti til nemendanna í fyrsta tímanum á morgnanna — og skipi þeim að iðka körfuknattleik á meðan hann fær sér blund í kennaraherberginu.

Trassað hefur verið að gera nauðsynlegar breytingar

Vinnubrögð af þessu tagi — ef rétt er frá sagt — eru forkastanleg og lítt til þess fallin að auka virðingu fyrir íþróttum, en eitt af frumskilyrðum góðrar íþróttakennslu er einmitt að gæða áhuga nemenda á íþróttum, gera þeim grein fyrir þýðingu þeirra, þannig, að þeir hafi áhuga á að iðka íþróttir, eftir að skólanum sleppir.

Auðvitað hlýtur Íþróttakennaraskóli Íslands að gegna þýðingarmiklu hlutverki í þessu sambandi. Það er hlutverk hans að mennta og útskrifa íþróttakennara og vekja með þeim þá ábyrgðartilfinningu um hlutverk og skyldur íþróttakennarans. Eins og málum er háttað nú, er Íþróttakennaraskólinn vart fær um að gegna því hlutverki, sem honum er ætlað.

Níu mánaða skóli gerir vart meira en að gefa íþróttakennara nemum innsýn í heim íþróttakennslunnar. Það er því ekki að ástæðulausu, sem hvatt hefur verið til þess, að skólinn yrði lengdur um helming. Hafa ráðamenn menntamála trassað í 6 ár að gera nauðsynlegar, breytingar á skólanum, þrátt fyrir, að allir séu sammála um, að núverandi ástand sé óþolandi.

Sérstakur námsstjóri í Reykjavík

Áður en ég sný mér að þriðja og síðasta atriðinu, sem stendur íþróttakennslunni fyrir þrifum, skilningsleysi skólayfirvalda, langar mig að vekja máls á því, hvort ekki- sé nauðsynlegt að skipaðir verði sérstakir námsstjórar í íþróttakennslu fyrir Reykjavík. Eins og málum er háttað nú, er íþróttafulltrúi ríkisins, námsstjóri í íþróttum fyrir allt landið. Segir sig sjálft, að einn maður kemst tæplega yfir svo stórt verkefni.

Slíkir námsstjórar í Reykjavík gerðu hvort tveggja í senn að veita íþróttakennurum aðhald og aðstoða þá.

Andleg og líkamleg menntun verða aldrei aðskildar

Snúum okkur þá að síðasta – atriðinu. Það er engin launung, að oft gætir skilningsleysis hjá skólayfirvöldum gagnvart íþróttakennslu. Hvarvetna, sem ég þekki til, er íþróttakennsla hornreka í skólum. Til að mynda er það nær algild regla, að íþróttatímar séu ekki í samfelldri stundaskrá, sem er auðvitað lang æskilegast.

Sums staðar er erfitt að koma slíku við, en þar sem hægt er að koma því við, er það ekki gert. Oft eru því íþróttatímar þess valdandi, að þeir slíta daga í sundur hjá nemendum — og trufla heimanám. Er slíkt ekki til þess fallið að auka á vinsældir íþrótta meðal nemenda og foreldra.

Á þessu verður að vera breyting hjá skólayfirvöldum. Í mörgum tilfellum er erfitt að fella íþróttakennslu inn í samfellda stundaskrá, það skal viðurkennt, en kappkosta ber að gera hana að kennslugrein meðal kennslugreina, því að það verða menn að hafa í huga, að andleg menntun og líkamleg menntun verða aldrei aðskilin.

***

TÍMINN, 18. júní 1971:

Ein athyglisverðasta tilraun, sem gerð hefur verið í skólamálum síðari ár

— sagði Alfreð Þorsteinsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fræðsluráði.

Á fundi í borgarstjórn s.l. fimmtudagskvöld, voru teknar til fyrri umræðu tillögur fræðsluráðs Reykjavíkurborgar um stofnun tilraunaskóla á gagnfræða- og menntaskólastigi. Geir Hallgrímsson, borgarstjóri, skýrði álit formanns fræðsluráðs, Kristjáns J. Gunnarssonar, á tillögunum, en auk hans tók til máls Alfreð Þorsteinsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fræðsluráði, og gerði grein fyrir afstöðu sinni til tillaganna. Fer hluti af ræðu Alfreðs Þorsteinssonar hér á eftir:

Satt bezt að segja, leizt mér ekki sérlega vel á hugmyndina um tilraunaskóla í upphafi, taldi ekki hyggilegt að safna öllum nemendum á framhaldsskólastigi undir einn hatt til kennslu í ólíkum greinum. Hvort tveggja var, að ég taldi ýmsa annmarka á framkvæmd slíkrar kennslu, auk þess, sem ég óttaðist, að viss stéttaskipting gæti skapazt innan slíks skóla. Þannig myndu nemendur á háskólabraut hafa nokkra sérstöðu og forréttindi umfram aðra nemendur skólans, t.d. þá, sem veldu sér iðnaðar- og iðjubraut, og þessar síðar nefndu brautir yrðu afskiptar.

En eftir því, sem málið þróaðist í meðförum fræðsluráðs, varð mér æ betur ljóst að kenningin um stéttaskiptingu innan skólans væri röng. Þvert á móti er ljóst, að lögð verður mikil áherzla á það, að gera námsbrautum jafn hátt undir höfði og dregið úr því vanmati og vanrækslu á tiltekna námsbrautum, sem skipting námsbrauta milli ólíkra og aðskildra skólagerða virðast jafnan hafa í för með sér, eins og getið er um í greinargerð i með tillögu um skólann.

Spyrja má, hvað sé unnið við að sameina almennt framhaldsnám í einni kennslustofnun. Kostirnir eru augljósir. Það er ekki einungis stefnt að hagkvæmara ytra skipulagi heldur stefnt að því, að gera breytingar á innri starfsemi skólans — ekki breytingar breytinganna vegna — heldur breytingar í þá átt, að auka jafnrétti nemenda, gefa þeim frjálsari hendur um námsval — og umfram allt, að sinna sérþörfum nemenda. Þannig er það markmið skólans að laða það bezta fram hjá hverjum einstaklingi í þeim tilgangi að búa hann sem bezt undir hagnýt störf í þjóðfélaginu.

Mér finnst það ekki sízt mikils vert, að gert er ráð fyrir því, að við skólann starfi náms- og starfsráðgjafar í þeim tilgangi að leiðbeina nemendum um námsleiðir með þarfir atvinnulífsins í huga. Þannig mun verða leitað til vinnuveitenda um samvinnu um atvinnukynningu, sem þátt af náms- og starfsráðgjöf skólans, þ.á.m. skipulagða vinnumiðlun í sumarleyfum, en auk þess er mjög líklegt, að starfsþjálfun á vinnustað verði hluti af náminu á sumum námsbrautum.

Þannig verður stefnt að því að hafa lifandi tengsl milli skóla og atvinnulífsins, en nokkuð hefur skort á, að svo hafi verið. Er einmitt vikið að því í greinargerðinni með tillögunni, að skólarnir hafi dregizt aftur úr þróun atvinnuveganna og að efling hvers konar starfsmenntunar, ekki sízt á framhaldsskólastiginu, sé þjóðinni efnahagsleg nauðsyn.

Er þetta sízt of sterkt að orði kveðið.

Að mínu viti er hér á döfinni ein athyglisverðasta tilraun, sem gerð hefur verið á skólamálum á Íslandi hin síðari ár — og á Jóhann S. Hannesson vissulega þakkir skildar fyrir þá miklu undirbúningsvinnu, sem hann hefur lagt að mörkum við tillögugerð um skólann. Hann hefur starfað eins og myndhöggvari, sem fær óunninn stein til úrvinnslu. Í meðförum hans hefur skapazt heilleg og skýr mynd af þeim skóla, sem líklegur er til að leysa af hólmi hina gömlu og hefðbundnu skóla sem marka nemendum sína ákveðnu bása í upphafi raunverulegs framhaldsnáms, og gefa þeim örsjaldan tækifæri til að leiðrétta stefnuna, ef ljóst var að hún er röng, nema með ærinni fyrirhöfn. Hinn nýi tilraunaskóli leysir þetta vandamál. Honum er ætlað að binda enda á það, að nemendum sé við ákveðinn aldur skipað í skóla, þar seni þeir eru í eitt skipti fyrir öll útilokaðir frá tilteknum námsbrautum. — Honum er ætlað að gefa nemendum tækifæri til að fresta endanlegu námsbrautavali og jafna þannig aðstöðu þeirra til að velja sér námsbraut í sem fyllstu samræmi við þann áhuga og þá getu, sem vaxandi þroski þeirra kann að leiða í ljós. Ég vil að endingu koma á framfæri þeirri hugmynd, að kalla skólann framvegis sem skóla í stað tilraunaskóla. Í greinargerð með tillögunni er nafngiftinni tilraunaskóli hafnað, enda þótt búast megi við því, að fyrst um sinn verði skólinn nokkurs konar tilraunaskóli. Talað hefur verið um sameinaðan framhaldsskóla, en miklu einfaldara og eðlilegra er að tala um samskóla — skóla, sem sameinar margar o§ ólíkar námsbrautir — og er í mótvægi við sérskóla.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að um nafn skólans verði farið eftir tíðkanlegum venjum og hann kenndur við umhverfi sitt en ekki markmiðið, en ég vil halda því fram, að þessi sjónarmið megi samræma á einfaldan hátt með því að tala umsamskóla í þessu og þessu hverfi. Þannig myndi nýi skólinn í Breiðholtshverfi verða nefndur samskólinn í Breiðholti eða Breiðholtshverfi á sama hátt og við tölum um menntaskólann við Tjörnina eða menntaskólann í Hamrahlíð.

***

TÍMINN, 7. október 1973:

Meiri framkvæmdahraða í Breiðholti

— 10 þús. manna samfélag býr við frumstæð skilyrði af hendi borgarinnar 

Á fundi í borgarstjórn flutti Alfreð Þorsteinsson svofellda tillögu sl. fimmtudag.

Með tilliti til þess, að aðstreymi fólks i Breiðholtshverfi hefur verið örara en áætlað var, samþykkir borgarstjórn að fela borgarverkfræðingi að gera  áætlun, sem miðar að því að flýta verklegum framkvæmdum og  þjónustustarfsemi á vegum Reykjavíkurborgar í Breiðholtshverfum.

Stefnt skal að því, að þessi áætlun verði tilbúin áður en fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 1974 verður lögð fram, svo að unnt sé að taka tillit til hennar við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Stórbær í Breiðholti fyrr en ráðgert var

Í framsöguræðu fyrir tillögunni ræddi Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, einkum um sex atriði, er átaka væri þörf umfram það sem gert hefði verið ráð fyrir. 

1) Skólamál væru i ólestri, það væri ekki einasta tvísetið i skólunum, heldur 3 og 4 setið og engin aðstaða væri til handavinnukennslu og leikfimiskennslu, þar sem íþróttahús vantaði og kennslustofur.

Væri greinilegt, að ástandið myndi enn versna frá því sem núna er, þegar allur sá fjöldi flytti í hverfið, sem nú eiga íbúðir í smiðum, langt komnar.

2) Samgöngumál væru i miklum ólestri. Breiðholtsbraut væri t.d. ein akrein og þyrfti þessi eins tvístefnuakstursgata að anna mannfjölda, sem væri svipaður og allir íbúar i stórum kaupstað, t.d. Akureyri eða Kópavogi, og þar að auki væru miklir flutningar um götuna vegna húsa sem væru i smiðum.

Það tæki strætisvagna 30-60 mínútur að aka til miðbæjarins og eyddi fólk því miklum tíma í að komast að og frá vinnustað vegna þessa.

Þá væru strætisvagnaferðir of strjálar, eins og viða hefði komið fram. 

3) Félagsaðstaða væri engin i hverfinu.

4) Íþróttir þyrfti að efla með nauðsynlegum iþróttamannvirkjum.

5) Heilbrigðisþjónustu, eins og læknamiðstöð vantaði.

6) Framkvæmdir við gangstéttir og opin svæði væru þegar orðnar langt á eftir. Viða skapaði þetta mikla slysahættu.

Ræðumaður kvað það ekki vera neina tilviljun, að tillaga þessi kæmi fram nú, öllum væri ljóst, að Breiðholtshverfi byggðist miklu örar, en ráð hefði verið fyrir gert hjá borginni og því yrði að svara með auknum hraða á framkvæmdum. 

***

Daufar undirtektir“ hjá sjálfstæðismönnum sagði í leiðara TÍMANS, 7. október 1973, um tillögu Alfreðs Þorsteinssonar, borgarfulltrúa, um að hraða framkvæmdum í Breiðholtinu.

„Á fundi borgarstjórnar á fimmtudaginn flutti Alfreð Þorsteinsson tillögu þess efnis, að Reykjavíkurborg beitti sér fyrir því, að framkvæmdum á hennar vegum í Breiðholtshverfum yrði hraðað, þar sem aðstreymi fólks í hverfin hefði orðið örara en ráðgert hafði verið. Nefndi Alfreð í því sambandi, að sérstaklega væri aðkallandi að gera átak i skólamálum hverfanna, að öðrum kosti myndi skapast algert ófremdarástand í þeim málum á næsta ári. Enn fremur nefndi hann, að nauðsynlegt væri að hraða framkvæmdum vegna félagslegra þarfa í Breiðholtshverfum, svo og þyrfti að vinda bráðan bug að því að koma samgöngumálum hverfanna í eðlilegt horf, og vitnaði í því sambandi til bréfs Framfarafélags Breiðholtsbúa, þar sem þeir lýsa yfir, að þau mál séu í algeru lamasessi.

Af undirtektum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að dæma, er vart við því að búast, að stuðningur komi úr þeirri átt við þessa tillögu. Taldi hann, að íbúar Breiðholts væru of kröfuharðir, og tíundaði framkvæmdir borgarinnar í Breiðholtshverfum. Mátti helzt skilja á honum, að íbúar hverfisins mættu þakka fyrir, að búið væri að leggja vatn, rafmagn og hita í þetta nýjasta hverfi borgarinnar.“ 

***

TÍMINN, sunnudaginn 7. janúar 1973:

Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi:

Þjóðaratkvæðagreiðsla um herstöðvarmálið

Einar Ágústsson, utanríkisráðherra, hefur tilkynnt, að endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkjamenn hefjist í þessum mánuði. Er það fagnaðarefni í sjálfu sér og í anda sjálfstæðrar og einbeittrar utanríkisstefnu, að þessu máli skuli hreyft, hver svo sem niðurstaða endurskoðunarinnar verður.

En hvort sem hún leiðir af sér, að talið verður nauðsynlegt að hafa varnarlið hér í óbreyttri mynd eða einhverjar veigamiklar breytingar taldar nauðsynlegar, verður ekki hjá því komizt, að almenningur í landinu fái að segja hug sinn í þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, því að það eru ekki fullgild rök, að kosið hafi verið um herstöðvarmálið í síðustu kosningum, eins og haldið hefur verið fram af ýmsum aðilum.

Í síðustu kosningum var fyrst og fremst kosið um landhelgismálið og uppsögn landhelgissamningsins við Breta og Vestur-Þjóðverja, en varnarsamninginn bar nánast ekkert á góma í kosningabaráttunni. Sigur núverandi stjórnarflokka grundvallaðist fyrst og fremst á skeleggum málflutningi í landhelgismálinu sem óumdeilanlega var höfuðmál kosninganna.

Bæði Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra og Einar Ágústsson, utanríkisráðherra, hafa marg ítrekað, að landhelgismálið hafi algeran forgang þeirra mála, er ríkisstjórnin beitir sér fyrir. Er það bæði eðlilegt og sjálfsagt, því að fátt skiptir meira máli fyrir okkur Íslendinga nú en farsæl lausn þess máls. Og eðli málsins samkvæmt, er það höfuðskylda núverandi ríkisstjórnar að ráð því til lykta.

Það kemur því óneitanlega spánskt fyrir sjónir, þegar tiltekinn hópur manna, sem telur sig vera i hópi stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, setur herstöðvarmálið á oddinn í byrjun ársins meðan landhelgismálið er enn á mjög viðkvæmu stigi, og krefst þess, að ríkisstjórnin geri gangskör að því að segja varnarsamningnum upp eða segi af sér ella.

Það verður að teljast vafasamt í meira lagi, að slík kröfugerð nú sé til þess fallin að styrkja ríkisstjórnina meðan hún þarf að einbeita sér að lausn landhelgismálsins og vinna að ýmsum félagslegum endurbótum innanlands, sem krefjast úrlausnar eftir 12 ára „viðreisnarstjórn”. Herstöðvarmálið var ekki forgangsmál í síðustu kosningum og því mjög óeðlilegt, að það sé sett á oddinn nú með þeim hætti, sem gert hefur verið, áður en ýmis aðkallandi mál, sem stjórnarflokkarnir hétu að berjast fyrir í síðustu kosningum og lögðu sérstaka áherzlu á, hafa verið leyst. Meginþorri framsóknarfólks vill ekki rasa um ráð fram í herstöðvarmálinu, þrátt fyrir háværar raddir lítils minnihluta innan flokksins, en hitt er annað mál, að sjálfsagt er að láta fara fram endurskoðun á varnarsamningnum. Ýmis atriði hans eru orðin úrelt, og vel má vera, að mönnum sýnist jafnvel ónauðsynlegt að hafa bandaríska varnarliðið áfram. Um það skal engu spáð, en kjarni málsins er sá, að stjórnarflokkarnir hafa naumast siðferðilegan rétt til að taka ákvörðun um brottför varnarliðsins, án frekara samráðs við almenning, þar sem herstöðvarmálið var ekki kosningamál við síðustu alþingiskosningar, a.m.k. ekki af hálfu stærsta stjórnarflokksins, Framsóknarflokksins, sem samþykkti á síðasta flokksþingi sínu stjórnmálaályktun, þar sem lýst var yfir, að rétt sé að óbreyttum aðstæðum, að Íslendingar séu aðilar að varnarsamtökum vestrænna þjóða. Enn fremur var minnt á þann fyrirvara sem gerður var af hálfu Íslendinga, er þeir gerðust aðilar að Atlanzhafsbandalaginu um það, að á Íslandi yrði ekki herlið á friðartímum, og í samræmi við þann fyrirvara vilji Framsóknarflokkurinn vinna að því að varnarliðið hverfi úr landi í áföngum.

Þessi yfirlýsing felur ekki í sér tafarlausar og róttækar aðgerðir í  herstöðvarmálinu, eins og nú er krafizt, m.a. af forustumönnum SUF. Þvert á móti kemur fram skýlaus viljayfirlýsing um áframhaldandi þátttöku Íslendinga i varnarbandalagi vestrænna ríkja og geta menn þá velt því fyrir sér, að þeirri forsendu gefinni, að ástandið hafi ekki breytzt tiltakanlega frá 1971, hvort það geti talizt skerfur til vestrænnar varnarsamvinnu, að visa varnarliðinu úr landi þegar á næsta ári.

Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er kveðið nokkuð sterkar að orði um varnarsamninginn, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að það var ekki kosið um herstöðvarmálið í síðustu kosningum. Þess vegna er mjög varhugavert að stiga stór spor í þessu máli, án þess, að almenningi verði gefinn kostur á að segja hug sinn um það. Raunar getur enginn haft á móti því, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um varnarsamninginn, breyttan eða óbreyttan, því að með slíkri málsmeðferð væri lýðræðislegum leikreglum fylgt út í æsar, og með því fengist úr því skorið, án þess, að flokkapólitík þyrfti að blandast verulega í málið, hver raunverulegur vilji Íslendinga er. Og ef það er svo, sem andstæðingar varnarliðsins vilja halda fram, að mikill meirihluti þjóðarinnar sé mótfallinn því að hafa erlent varnarlið í landinu, þurfa þeir sizt af öllum að óttast þjóðardóminn. Í þessu sambandi má minna á að allir núverandi stjórnarflokkar hafa haft það á stefnuskrá sinni að bera öll stærri mál undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Undir forustu Einars Ágústssonar, utanríkisráðherra, hefur verið tekin upp sjálfstæðari stefna í utanríkismálum Íslendinga en við höfum átt að venjast um langt skeið. Hæst ber útfærsla fiskveiðilögsögunnar, en auk þess hefur islenzka ríkisstjórnin haft þor og kjark til að viðurkenna ýmis erlend ríki, sem áður voru á svörtum lista. Er það almennt viðurkennt, hvar i flokki sem menn standa, að stjórn utanríkismála sé i góðum höndum, þar sem Einar Ágústsson er við stjórn í herstöðvarmálinu hefur hann viljað fara að með fyllstu gát, en lýst samt yfir ákveðnum vilja sinum til að láta endurskoða varnarsamninginn. Slík endurskoðun er áreiðanlega að vilja þorra Íslendinga, á því leikur enginn vafi. En það verður að teljast mikið vantraust á utanríkisráðherra, þegar ákveðnir hópar, sem þó telja sig til stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, berja bumbur á torgum og krefjast þess, áður en könnun varnarmálanna er lokið, að gripið verði til róttækra aðgerða. Slík vinnubrögð kunna ekki góðri lukku að stýra og eru í miklu ósamræmi við fagurgala sömu manna um lýðræðisleg vinnubrögð má minna á þau ummæli Einars Ágústssonar, að engin ákvörðun um brottför hersins verði tekin fyrr en eftir að könnun þessara mála er lokið. Einari Ágústssyni, utanríkisráðherra, er vel treystandi til að halda á þessu máli, án afskipta þessara manna, og leggja niðurstöður endurskoðunar  varnarsamningsins undir dóm þjóðarinnar.

***

TÍMINN, leiðari 15. mars 1973:

Réttlætismál

Á siðast fundi borgarstjórnar flutti Alfreð Þorsteinsson tillögu þess efnis, að samin verði reglugerð um lóðaúthlutanir í Reykjavík. Jafnframt gerði hann það að tillögu sinni, að við lóðaúthlutanir verði tekið tillit til Reykvíkinga, sem þurft hafa að flytjast úr borginni um stundarsakir t.d. vegna húsnæðisleysis, lóðaskorts, atvinnu eða af svipuðum ástæðum. Hér er um réttlætismál að ræða. Litið sem ekkert tillit hefur verið tekið til aðstæðna þessa fólks, þegar það hefur sótt um lóðir í Reykjavík, enda þótt vitað sé, að það hefur neyðzt til að flytja úr borginni af fyrrgreindum ástæðum. Alfreð benti á, að það væri ekki einhlít lausn að semja reglugerð um lóðaúthlutanir, heldur yrði Reykjavíkurborg að sjá svo um, að jafnan væru fyrir hendi lóðir til úthlutunar.

***

TÍMINN, sunnudagur 5. ágúst 1973:

Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi:

HVERT VAR FRUMKVÆÐI BORGARSTJÓRANS?

Vinnubrögð Sjálfstæðismanna í borgarstjórn eru ofttorskilin. Gott dæmi um það er fljótfærnisleg tillaga um íþróttamál sem þeir fluttu sameiginlega á síðasta borgarstjórnarfundi, en hún fjallaði um aukinn stuðning við íþróttafélögin í borginni. Fyrir þá, sem þekkja til vinnubragða Sjálfstæðisflokksins að þessum málaflokki, var þessi tillöguflutningur broslegur, því að framtakssemi borgarstjórnarmeirihlutans er ekki meiri en það, að á tveimur síðustu árum hafa ekki aðeins milljónir króna, heldur tugmilljónir verið óeyddar af fjármagni sem verja átti til íþróttamála, og fært á svokallaðan geymslureikning milli ára. Svo standa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins upp, hver af öðrum, og þakka borgarstjóranum fyrir „frumkvæði“ hans í þessum málum.

Efni þeirrar tillögu, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu á síðasta borgarstjórnarfundi, fjallaði um aukinn stuðning við íþróttafélögin i borginni svo að þau geti hraðað þeim framkvæmdum, er þau standa í. Var íþróttaráði falið að gera nýjar tillögur i þessum málum og hafa þær tilbúnar fyrir haustið, svo unnt sé að taka þær inn í fjárhagsáætlun.

Efni tillögunnar sem slíkrar er gott, um það var ekki deilt á borgarstjórnarfundi. Hins vegar var á það bent, að óþarfi væri að samþykkja tillöguna af þeirri einföldu ástæðu, að íþróttaráð hefur um nokkurra mánaða skeið einmitt verið að vinna að þessu sama máli, m.a. fól íþróttaráð Stefáni Kristjánssyni, íþróttafulltrúa, að gera sérstaka könnun á því, hve mikið fjármagn „gömlu” íþróttafélögin skorti til að geta fullgert þau íþróttamannvirki, sem þau annað hvort hafa byrjað smiði á eða hyggjast reisa á næstunni.

Þessi tillöguflutningur var því alger sýndarmennska, og svokallað „frumkvæði“ borgarstjórans ekkert, enda þótt það verði ekki dregið í efa, að hann sé hlynntur íþróttastarfseminni.

Spurning er, hvaða tilgangi sjónarspil af þessu tagi þjóni. Yfirbót vegna vanrækslusynda er langsennilegasta skýringin, enda hafa Sjálfstæðismenn af fáu að státa í íþróttamálum borgarinnar á yfirstandandi kjörtímabili.

Það er farið að slá í gömlu loforðin um búningsklefa við Sundlaug Vesturbæjar, Skautasvell, og íþróttavelli í Breiðholtshverfi, svo að eitthvað sé nefnt, sem aldrei hefur séð dagsins ljós. Sannleikurinn er sá, að meirihluti borgarstjórnar hefur sjaldan eða aldrei staðið sig jafn illa á neinu kjörtímabili og þessu við víkjandi íþróttamálum. Afgangsfé, sem renna átti til íþróttamála sl. tvö ár, er órækasti votturinn um það. Og við hverju er að búast, þegar formaður íþróttaráðs, Gísli Halldórsson, hefur ekki tíma til að kalla íþróttaráð saman til fundar? Þannig var enginn fundur haldinn í íþróttaráði á tímabilinu frá 18. maí til 20. júli í sumar. Það var sannarlega ekki sökum verkefnaskorts.

Þeim mönnum, sem sitja í íþróttaráði Reykjavíkurborgar, er löngu ljóst, að auka verður fjárframlög til íþróttamannvirkja félaganna í borginni. Þess vegna var byrjað að ræða þetta mál löngu fyrir áramót í þeim tilgangi, að íþróttaráð fullmótaði tillögur í þessu máli og hefði þær tilbúnar fyrir haustið 1973. M.a. voru forystumenn TBR boðaðir sérstaklega á íþróttaráðsfund til ráðuneytis. Þetta leiddi svo til þess, að íþróttafulltrúa var falið að kanna málið sérstaklega. Sést af þessu, hve „frumkvæði“ borgarstjórans er litið.

Annars skiptir það ekki mestu máli, hvort borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með borgarstjórann í broddi fylkingar reyna að slá sig til riddara í þessu máli. Það, sem máli skiptir er það, að nú verði staðið við þau fyrirheit, sem gefin hafa verið um aukinn fjárstuðning íþróttafélögunum til handa. Af reynslunni að dæma, er borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins ekki treystandi til þess.

Til marks um það, hve knýjandi nauðsyn er að rétta íþróttafélögunum hjálparhönd, er það, að eigur elzta og virðulegasta knattspyrnufélags borgarinnar voru auglýstar á nauðungaruppboði fyrir nokkrum vikum. Fleiri íþróttafélög eru stórskuldug og ekki þess megnug að ljúka nauðsynlegustu framkvæmdum við íþróttamannvirki sin. Eru dæmi þess, að sum félög hafi verið áratugum saman með íþróttamannvirki sin í byggingu.

Það er margyfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að aðstoða íþróttafélögin í borginni, bæði hvað varðar byggingu íþróttamannvirkja og daglegan rekstur þeirra, enda er slíkt bæði sjálfsagt og rétt með tilliti til þess uppeldislega gildis, sem íþróttir hafa fyrir börn og unglinga. En þrátt fyrir þessa stefnu borgaryfirvalda, og þrátt fyrir, að nokkuð  hafi miðað áfram í þessum málum, er enn langt í land, að íþróttafélögin hafi öðlazt þá aðstöðu, sem þau þurfa. Eins og er, geta þau ekki þjónað keppnisfólki sinu, hvað þá hinum almenna borgara, sem vill stunda íþróttir sér til heilsubótar. En óhætt er að segja það, að íþróttafélögunum hefur þó tekizt að rækja hlutverk sitt vel miðað við þær aðstæður, sem þau búa við. Það er ekki sizt að þakka áhugamönnum, sem oft á tíðum fórna bæði fé og tíma fyrir þetta áhugamál sitt.

Þá er sérstök ástæða til að hyggja að því hvernig bezt verður staðið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í nýjum borgarhluta. Slíkur hraði þarf að vera á framkvæmdum þar, að útilokað er, að áhugamenn hafi bolmagn til að reisa þau. Hér verða borgaryfirvöld að leggja enn meira af mörkum, en gæta þess þó að mismuna félögum ekki. Að þessu er stefnt.

Með tilliti til „frumkvæðis” borgarstjórans i þessu máli, er rétt að minna á það að lokum, að fulltrúar minnihlutaflokkanna fluttu tillögu í borgarstjórn við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, þar sem kveðið var á um aukinn stuðning við íþróttafélögin. Tillagan var svohljóðandi:

„Borgarstjórn leggur áherzlu á gildi íþróttastarfsins fyrir æskufólk Reykjavíkur og allan almenning, og minnir á nauðsyn þess, að jafnan séu starfandi öflug íþróttafélög í hverfum borgarinnar og séð svo um, að þau hafi góða starfsaðstöðu.

Á undanförnum árum hefur fjármagni verið varið til byggingar íþróttamannvirkja og myndarleg íþróttamannvirki risið á legg, sbr. mannvirkin í Laugardal. Enn skortir samt nokkuð á, að fullnægjandi aðstaða sé fyrir hendi, t.d. hinum nýju hverfum borgarinnar, auk þess, sem sumar íþróttagreinar eiga í vök að verjast vegna aðstöðuleysis.

Fyrir því ályktar borgarstjórn, og leggur á það ríka áherzlu, að ekki verði brugðið út af framkvæmdaáætlun um byggingu íþróttamannvirkja og upprunalegri fjárhagsáætlun fylgt á hverjum tíma og ekki komi til þess, að geyma þurfi framkvæmdafé milli ára, eins og gerist á þessu ári, þar sem geymslufé kemur ekki að sömu notum vegna hækkunar framkvæmdakostnaðar.“

Skyldi það hafa verið eftir að borgarstjórinn sá þessa tillögu, að honum datt í hug að hafa „frumkvæði” um aukinn stuðning við íþróttafélögin?

***

TÍMINN, 18. desember 1973:

Alfreð Þorsteinsson í borgarstjórn:

Einsetning höfuðforsenda nauðsynlegra breytinga í skólastarfinu

Á síðasta fundi borgarstjórnar gerði Alfreð Þorsteinsson grein fyrir tillögu borgarfulltrúa minnihlutaflokkanna í skólamálum, þar sem lögð er höfuðáherzla á einsetningu skóla. Alfreð sagði m.a.:

„Tillagan ber það með sér, að hún er lyst og fremst stefnumótandi með ákveðið markmið í huga, sem ekki verður náð í hendingskasti. Enda er málið stærra en svo.

Ég hygg, að skólamenn séu almennt sammála um það, að núverandi skólaform sé gengið sér til húðar og ekki hafi tekizt að breyta því í samræmi við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu.

Fyrir þessu gera skólamenn sér fulla grein, og eru fúsir til samstarfs um nauðsynlegar breytingar. En vandinn er sá, að þær breytingar, sem nauðsynlegt er að gera, munu fyrirsjáanlega kosta offjár, og eru af þeirri stærðargráðu, að óhugsandi er að ná markmiðinu nema í áföngum og í fullri samvinnu milli ríkisins og sveitarfélaga.

Í þessu sambandi er ekki óeðlilegt, að frumkvæðið komi frá Reykjavík. Til þess liggja margar ástæður, en fyrst og fremst sú, að hér er vandinn mestur.

Forsenda þess, að mögulegt sé að gera viðeigandi breytingar, er að átta sig á því, hversu stór vandinn er, og gera siðan skynsamlega áætlun um það, hvernig megi leysa hann.

Í tillögu þeirri, sem her liggur frammi og er stutt sameiginlega af okkur borgarfulltrúum Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, er einsetning talin höfuðforsenda nauðsynlegra breytinga til úrbóta í skólastarfinu. Um það hygg ég að sé enginn ágreiningur milli okkar og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og vonandi ekki heldur um það, að eðlilegt sé, að Reykjavík hafi forustu um að ná því markmiði. En til þess þarf skýra og ótvíræða viljayfirlýsingu borgarstjórnar eins og þá, er tillagan felur í sér. Hún er hófsöm, en markviss og felur það í sér að gerð sér stigskipt framkvæmdaáætlun til að ná settu marki.

Áður en lengra er haldið, er rétt að gera sér grein fyrir því hvað felst raunverulega í orðinu einselning, því að sannleikurinn er sá, að nokkurs misskilnings virðist gæta um merkingu þess.

Einsetning þýðir í raun það, að skóli sé vinnustaður nemenda, þar sem þeir mæta að morgni og ljúka starfi síðdegis eftir samfelldan vinnutíma. Þá er reiknað með því, að nemendur ljúki svokölluðu heimanámi í sjálfum skólanum og neyti máltíða þar.

Þetta er þó aðeins ytri rammi þess, sem í einsetningu felst. Þessi skipan mála gefur möguleika á breytum kennsluháttum og stóraukins ráðgjafastarfs vegna persónulegra vandamála nemenda. Hér koma sérkennslumálin til sögunnar, en það er ekki ofmælt, að skólamenn her hafi þungar og vaxandi áhyggjur af framvindu þeirra mála. Má í því sambandi vitna til fundar skólastjóra og yfirkennara í Reykjavík, sem haldinn var fyrr á þessu ári, þar sem einn skólastjórinn kemst m.a. svo að orði, „að áberandi væri, hve mörg börn veltust um í skólanum, án nokkurrar hjálpar“. Hann sagði enn fremur orðrétt: „Það er fjöldi einstaklinga, sem þvælist um í kerfinu. en fær enga úrlausn. Það stendur hvergi í lögum eða reglugerðum, að sveitarfélögum sé bannað að leggja fram viðbótarfé í kennslukvóta, enda er þetta gert úti á landi. Börnin, sem um ræðir hér, tilheyra sveitarfélaginu“, sagði hann enn fremur.

Hér er með fáum orðum en hnitmiðuðum bent á vandamál, sem hver einasti skólastjóri hér í borg kannast við úr sinum skóla. Hér er heldur ekki um neitt séríslenzkt vandamál að ræða. Í nágrannalöndum okkar beinast augu manna að sérkennslu í auknum mæli. Til að mynda má benda á það, að í Svíþjóð er því spáð, að árið 1980 verði 27% af heildarkennslumagninu á grunnskólastigi sérkennsla. Svipaða sögu er að segja frá öðrum nágrannalöndum, sem þegar hafa tekið myndarlega á þessum málum, á sama tíma og þeim er sinnt i lágmarki hér, þrátt fyrir ábendingar skólastjóra og kennara, sem eru mjög uggandi.

En þrátt fyrir, að nú sé unnið af veikum mætti að gera úrbætur á þessu sviði hér er ljóst, að viðhlítandi árangur næst ekki, fyrr en skólaforminu hefur verið breytt á þá lund, að skólar séu einsetnir. Það er raunar höfuðforsenda þess, að unnt sé að veita öllum einstaklingum þá aðhlynningu, er þeir þarfnast í skólanámi sinu, eða eins og það var orðað á fyrrgreindum fundi skólastjóra og yfirkennara af einum skólasljóranna: „Breyttir nemendur krefjast breytts skóla. Einsetinn skóli er nauðsynlegt skilyrði til eðlilegs skólastarfs“.

Af viðtölum við skólamenn er ljóst, að breyttir starfshættir liggja i loftinu hvað þetta snertir. Vaxandi agavandamál herða á kröfum um aðgerðir, sem vitaskuld eru kostnaðarsamar. „En ef peningar fást ekki, þá drabbast skólinn niður, og eftir nokkur ár verður ekki lengur starfandi við skólana“, eru ummæli skólastjóra við einn stærsta barna- og unglingaskóla borgarinnar.

Í upphafi tillögunnar, sem hér liggur fyrir, er á það bent, að almennt sé tvísett í skólum borgarinnar, og sums staðar þrísett. Þetta er ekki ofmælt. Raunar er fjórsett sums staðar í yngstu bekkjardeildunum. Þetta sýnir okkur, hversu langt við erum frá því marki að einsetja skólana, jafnvel þó að þess séu dæmi, að einstaka bekkjardeildir við suma skóla hér búi við einsetningu.

Spurningin er sú, hvort Reykjavíkurborg vilji taka frumkvæði i þessu máli. Framlag ríkisvaldsins til skólabygginga miðast við norm, er miða við tvísetningu. Þannig er Reykjavíkurborg alls ekki skylt, frekar en örðum að leggja meira af mörkum. En á það má benda, að sums staðar úti á landi er einsett í skóla, og á það hefur verið bent, að sveitarfélög úti á landi leggi til viðbótarfé í kennslukvóta til að ná meiri og betri árangri.

Reykjavíkurborg hefur um langt skeið haft forustu um nýjungar í skólastarfi, sem í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt vegna sérstöðu hennar. En sú forusta, sem Reykjavík hefur haft, er í hættu, nema tekið sé myndarlega á skólamálunum.

Skynsamlegast virðist að gera stigskipta áætlun, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Og ekki virðist óhugsandi, að slík stóráætlun, þegar hún liggur fyrir, verði að einhverju leyti fjármögnuð með láni erlendis frá. Eða telja menn lélegri fjárfestingu í skólum en hitaveitu, svo nærtækt dæmi sé nefnt?

Að lokum við ég með nokkrum orðum víkja að þeim þætti tillögunnar, þar sem talað er um, að þess verði jafnan gætt, að hafizt verði handa um skólabyggingar í nýjum hverfum í tæka tíð og þess gætt við hönnun skólabygginga, að þar sé rými fyrir alla þætti nútíma skólastarfs.

Það sem felst í þessum orðum er einfaldlega það, að ekki þurfi að skapast vandræðaástand i skólamálum nýrra hverfa, eins og Breiðholtshverfi eru talandi tákn um.

En við víkjandi því atriði, að þess verði gætt við hönnun nýrra skólabygginga, að séð verði fyrir þörfum nútímaskólastarfs, er því ekki að leyna, að stundum hafa þýðingarmikil atriði gleymzt eða þá sett aftast áfangaskipti og hafa þar af leiðandi aldrei komizt i framkvæmd. Þetta á ekki sízt við um íþróttakennsluna. íþróttahús vantar við marga skóla og það er fátítt, að sundlaugar séu byggðar við skóla.

Í þessu sambandi er oft vitnað til þess stórhugs, er rikti við byggingu Austurbæjarbarnaskólans á sinum tíma, þar sem í sömu byggingunni er gert ráð fyrir flestum kennslugreinum, auk bóklegs náms. Má í því sambandi nefna leikfimisal, sundlaug, handavinnustofur, náttúrufræðistofu, auk kvikmyndasýningasalar, aðstöðu fyrir skólalækni og fleira.

Í upphafi lét ég þau orð falla, að þessi tillaga okkar borgarfulltrúa Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, væri fyrst og fremst stefnuyfirlýsing i skólamálum. Það þýðir þó ekki það að við látum okkur nægja samþykkt slíkrar yfirlýsingar, án þess, að staðið verði við þau fyrirheit, sem gefin eru. Hér er brýnt verk að vinna, sem mun skila margföldum arði, er stundir liða fram.

***

TÍMINN, janúar 1974:

Gefa í skyn, að skólabyggingar séu fjármagnaðar sem íþróttamannvirki

Bent á augljósar rangfærslur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í íþróttamálum

Sem kunnugt er, fluttu borgarfulltrúar minnihlutaflokkanna í borgarstjórn ítarlega ályktunartillögu um íþróttamál við fyrri umræðu fjárlagsáætlunar Reykjavíkurborgar. Við síðari umræðuna fluttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins breytingartillögu, þar sem það var einna helzt talið til tekna í íþróttamálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hve mörg íþróttahús hefðu verið byggð við skóla.

Alfreð Þorsteinsson benti á það í svarræðu sinni að fjarstæðukennt væri að blanda þessu saman við raunverulegt framlag Reykjavíkurborgar til íþróttamála. Sagði hann m.a.: „íþróttahús og önnur íþróttamannvirki við skóla er skólahúsnæði, sem reist er samkvæmt fræðslulögum til að fullnægja kennsluskyldu í íþróttum. Það er þess vegna rangt að reyna að læða því inn, að þessi skólamannvirki séu íþróttamannvirki, fyrst og fremst byggð handa íþróttafólki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera tilraun til að blanda þessu saman i blekkingarskyni, og það er athyglisvert, að þessi þáttur er fyrirferðarmestur í tillögu þeirra um íþróttamálin.”

Þá sagði Alfreð, að enginn ágreiningur væri um ágæti þess samstarfs, sem tekizt hefði milli skóla og íþróttafélaganna um afnot af íþróttasölum, en það væri alrangt, að íþróttasalirnir við skólana væru byggðir fyrir fjármagn, sem Reykjavíkurborg verði til íþróttamála.

„Stóra átakið“ í íþróttamálum

Í framhaldi af þessu sagði Alfreð: ,,Þá vil ég víkja að hinu stórkostlega átaki, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þóttust ætla að standa að í því skyni að aðstoða íþróttafélögin í eldri borgarhlutunum við að ljúka við íþróttamannvirki, sem þau hafa haft í smiðum.

Það liggur fyrir, að lágmarksfjármagnsþörf í þessu skyni er kr. 200 millj. — og hefur þá verið notuð útilokunarregla til þess, að þetta fjármagn dreifðist ekki um of. Þannig liggur það t.d. fyrir, að ekki er gert ráð fyrir, að þessu fjármagni verði varið til byggingar íþróttahúsa, heldur til allra nauðsynlegustu framkvæmda.

Það var samdóma álit íþróttaráðs, að eðlilegt væri að dreifa þessu fé á 4—5 ár til að ná því marki, að íþróttafélögin geti lokið mannvirkjagerð sinni.

En þessi fjárhagsáætlun, sem hér liggur fyrir, bendir ekki til þess, að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætli að standa við fyrirheit sin, því að einungis er áætlað að veita kr. 15 millj. í þessu skyni, fyrir utan aukaframlag til TBR, er nemur 2—3 millj. kr. umfram venjulegan styrk til TBR.

Þannig lítur þá stórátak Sjálfstæðisflokksins í íþróttamálum út. Aðeins 17—18 millj. kr. framlag, sem þýðir það, að ef ná á settu marki, tekur það ekki 4—5 ár, heldur 10—12 ár, miðað við jöfn framlög árlega.

Rangfærslur um Bláfjallasvæðið

Það er rangt með farið í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að samstarfsnefnd hafi verið mynduð til yfirumsjónar með rekstri og uppbyggingu svæðisins.

Hér er átt við svokallaða Bláfjallanefnd, sem er einungis til eftirlits og umsjónar með svæðinu, en ekki til að vera neinn framkvæmdaaðili, allra sizt um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins er fullkunnugt um þetta enda hefur verið mjög um það rætt í íþróttaráði, að til skjalanna kæmi framkvæmdanefnd, sem tæki upp þráðinn, þar sem verksviði Bláfjallanefndar sleppir, m.ö.o. framkvæmdaaðili, sem hefði yfir fjárveitingu að ráða, en það hefur Bláfjallanefndin ekki í neinum mæli.

Þess vegna segir í ályktunartillögu okkar borgarfulltrúa minnihlutaflokkanna, að gera þurfi áætlun um uppbyggingu Bláfjallasvæðisins sem vetraríþróttamiðstöðvar í samráði við nágrannasveitarfélögin, og er þá að sjálfsögðu átt við framkvæmdaáætlun.

Vitaskuld er það rétt, að ýmislegt hefur verið gert til uppbyggingar Bláfjallasvæðisins, en ég vil benda á, að þar er aðeins um að ræða nauðsynlegustu undirbúningsvinnu, svo sem tilraunaboranir eftir vatni, lögn raflínu og kortlagningu“.

Loksins vélfryst skautasvell

Að síðustu ræddi Alfreð um vélfryst skautasvell, og sagði, að ástæða væri til að fagna því, að nú virtist hilla undir byrjunarframkvæmdir á því sviði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gætu ekki nú, eins og á síðasta ári, skotið sér á bak við það, að ekki fengist viðurkenning á fjárlögum fyrir skautasvelli: samþykkt hefði fengizt fyrir því.

Minnti Alfreð að lokum á, að undir forustu núverandi ríkisstjórnar hefðu framlög til íþróttamála margfaldazt á aðeins tveimur árum.

***

TÍMINN, sunnudagur 19. maí 1974:

Rætt við Alfreð Þorsteinsson, sem skipar 2. sæti  á lista Framsóknarflokksins við borgarstjórnar kosningarnar 26. maí nk.

ÓTRÚLEGT FYRIRHYGGJULEYSI BORGARSTJÓRNARMEIRIHLUTANS UM MÁLEFNI BREIÐHOLTS

Alfreð Þorsteinsson blaðamaður skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 26. maí nk. Við síðustu borgarstjórnarkosningar skipaði hann 4. sætið á listanum, og var því fyrsti varamaður Framsóknarflokksins. Þegar Einar Ágústsson tók við störfum utanríkisráðherra 1971 og hætti í borgarstjórn, tók Alfreð sæti í borgarstjórn sem aðalfulltrúi.

Alfreð var yngstur þeirra borgarfulltrúa, er skipuðu borgarstjórn á því kjörtímabili, sem nú er að ljúka, en hann er nýlega orðinn þrítugur. Óþarfi ætti að vera að kynna hann fyrir lesendum Tímans, því að undanfarin 12 ár hefur hann skrifað íþróttafréttir blaðsins. Alfreð er kvæntur Guðnýju Kristjánsdóttur, og búa þau að Vesturbergi 22 í Breiðholtshverfi, ásamt sjö mánaða gamalli dóttur þeirra, Lilju Dögg.

Samgöngumálin brenna heitast

— Það er eðlilegt, Alfreð, að við spyrjum þig fyrst um málefni Breiðholtshverfa, þar sem þú býrð. Þar þekkir þú allar aðstæður vel.

— Já, ég vil þá fyrst taka fram, að það er gott að búa í Breiðholtshverfi, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, sem stafa af því, að borgaryfirvöld hafa ekki brugðið nægilega skjótt við hinni öru uppbyggingu. Um það er hægt að nefna fjölmörg dæmi, en ætli það séu ekki samgöngumál Breiðholtshverfa, sem brenna heitast á baki borgaryfirvalda um þessar mundir. Það verður að segjast alveg eins og er, að ótrúlegt fyrirhyggjuleysi hefur ríkt um þau mál. Nú er talið, að um 12-14 þúsund manns búi í Breiðholtshverfum, eða talsvert fleiri íbúar en í næststærstu kaupstöðum landsins, og þeir verða að treysta á afar veika samgönguæð, veg með einfaldri akrein. Og þetta gerist á sama tíma og mikil uppbygging á sér stað í hinu nýja Seljahverfi. Vinnuvélar af öllum stærðum eru á ferðinni allan daginn og tefja umferðina gífurlega. Þetta ástand er algerlega óviðunandi, jafnvel þótt tekið sé tillit til þess, að alltaf eigi sér stað erfiðleikar í nýjum hverfum, meðan þau eru að byggjast upp.

Gleymdu að semja við húseigendur

— Og nú eru framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar að komast í sjálfheldu vegna þess, að borgaryfirvöld hafa ekki gengið frá samningum við húseigendur á vegarstæðinu?

— Já. Til þess að bæta gráu ofan á svart, stendur borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðismanna nú frammi fyrir því, loksins þegar hafizt var handa um breikkun Reykjanesbrautar, að láðst hefur að ganga frá samningum við fólk, sem á hús og eignir í Blesugrófinni í námunda við nýja veginn. Það þýðir, að dráttur getur orðið á framkvæmdunum, svo að enn þá getur dregizt verulega, að Breiðholtsbúar fái nauðsynlegustu úrbætur í samgöngumálum.

Ég tel þetta mál táknrænt fyrir þann sljóleika og slen, sem ríkir í stjórn borgarinnar. Þarna er bráðaðkallandi verkefni látið sitja á hakanum, og illa undirbúið, en á sama tíma er Austurstræti rifið upp með forgangsraða til að hellulagningu þess megi ljúka fyrir borgarstjórnarkosningar. Það er síður en svo, að ég sé á móti breytingum í Austurstræti, en hvort skyldi nú vera meira aðkallandi, breikkun Reykjanesbrautar, til að auðvelda umferð í 12-14 þúsund manna hverfi, eða hellulagning Austurstrætis? Núverandi borgarstjóri hefur svarað þeirri spurningu. Sýndarmennskan er látin sitja í fyrirrúmi.

Tillögur Framsóknarmanna hafa ýtt við Sjálfstæðismönnum

— Nú hafið þið Framsóknarmenn beitt ykkur fyrir sérstökum ráðstöfunum í Breiðholtshverfum?

— Við höfum margsinnis bent á nauðsyn þess, að Reykjavíkurborg hraðaði framkvæmdum sinum í þessu stærsta hverfi borgarinnar, sérstaklega í samgöngumálum, skólamálum, íþrótta- og æskulýðsmálum og þjónustustarfsemi fyrir hverfisbúa. En borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins hefur ekki viljað hlusta á tillögur okkar í þessum efnum. En þó er því ekki að neita, að þær hafa ýtt við borgarstjórnarmeirihlutanum, eins t.d. í samgöngumálunum, þó að aðgerðir í þeim málum komi of seint og séu illa undirbúnar, eins og fram hefur komið.

Ólík stefna í íþrótta- og æskulýðsmálum

— Þú hefur einbeitt þér sérstaklega að íþrótta- og æskulýðsmálum í borgarstjórn, Alfreð. Hvernig er staðið að þeim málum af hálfu borgaryfirvalda?

— Sem betur fer er mjög vaxandi skilningur á þýðingu þessa málaflokks, þó að auðvitað megi alltaf gera betur. Framsóknarflokkurinn hefur talsvert aðra skoðun en Sjálfstæðisflokkurinn á því, hvernig bezt verði að íþrótta- og æskulýðsmálum staðið. Framsóknarflokkurinn leggur megin áherzlu á, að dyggilega verði stutt við bakið á hinni frjálsu félagsstarfsemi þ.e. íþróttafélögum, skátafélögum, bindindisfélögum, KFUM og öðrum aðilum, er vinna að uppeldismálum af áhuga og óeigingirni, en telur, ekki, að rétt sé að koma upp miklu bákni æskulýðsráðs, eingöngu byggt upp meðlaunuðu starfsfólki. Það á að nýta hina miklu og ómetanlegu starfskrafta, sem bjóðast, ekki sízt í íþróttafélögunum. Þetta þýðir ekki það, að við viljum leggja æskulýðsráð niður, siður en svo, og það er rétt að skylt, að það komi fram, að sú starfsemi, sem fram fer á vegum æskulýðsráðs, nú, er gagnleg, ekki sizt seglbátastarfsemin í Nauthólsvík, svo dæmi sé nefnt. En við Framsóknarmenn teljum samt ekki rétt, að starfsemi Æskulýðsráðs þenjist stefnulaust út, og e.t.v. á kostnað íþrótta- og skátahreyfingarinnar. Fyrir okkur vakir, að börn og unglingar í Reykjavík eigi þess alltaf kost að finna sér viðfangsefni við sitt hæfi í leik og starfi í öllum hverfum borgarinnar.

— Nú er rétt vika þar til borgarstjórnarkosningarnar fara fram. Hvernig leggjast kosningarnar í þig?

— Kosningabaráttan hefur verið með dálítið óvenjulegum hætti. Prentaraverkfallið hefur auðvitað haft sin áhrif, en það, sem setur mest strik í reikninginn, eru að sjálfsögðu atburðirnir í landsmálunum, þingrofið og alþingiskosningarnar, sem haldnar verða í lok næsta mánaðar. Borgarmálin hafa horfið í skuggann, og Morgunblaðið hefur boðað, að það eigi að kjósa um landsmálin í borgarstjónarkosningunum eftir viku. Það er að sjálfsögðu mál Sjálfstæðismanna sjálfra, hvernig þeir meta stöðuna, en ég vil segja það, að við Framsóknarmenn teljum okkur hafa sterka málefnastöðu, hvort sem kosið verður um borgarmál eða landsmál. Við leggjum að sjálfsögðu höfuðáherzlu á að halda þriðja sætinu. Takist það, er meirihluti Sjálfstæðisflokksins fallinn, þar sem fullvíst má telja, að Alþýðubandalagið fái þrjá menn kosna og Alþýðuflokkurinn og Samtökin tvo menn. Það er unnið ötullega að kosningaundirbúningi af hálfu B-listans, og ég hef það á tilfinningunni, að við hljótum góða kosningu, ef enginn liggur á liði sinu, þessa fáu daga, sem eftir eru.

***

TÍMINN, fimmtudagur 23. maí 1974:

Á VÍÐA VANGI:

Úr bláu bókinni í einum grænum

Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi, sem skipar 2. sætið á B-listanum við borgarstjórnarkosningar á sunnudaginn hélt snjalla en gamansama ræðu í útvarpsumræðunum um borgarmálefni Reykjavíkur í fyrrakvöld. Alfreð hafði þá nýlega komizt yfir „Bláu bókina“, sem er síðbúin, en prentuð í „einum grænum“ eftir að prentaraverkfallinu lauk. Alfreð komst m.a. svo að orði í ræðu sinni:

„Fyrr í kvöld áður en ég kom hingað niður á útvarp, var ég staddur á biðstofu hjá heimilislækni mínum. Og eins og gengur og gerist greip ég í næsta myndablað, sem fyrir mér varð, til að drepa tímann meðan ég beið eftir lækninum.

Þetta var skrautlegt blað, og ég hélt auðvitað fyrst, að þetta væri „Hjemmet“ eða „Familie Journalen“ — þessi klassísku dönsku heimilisblöð, sem löngum hafa stytt fólki biðina hjá heimilislæknum borgarinnar.

En þegar ég gáði betur að, þá var það ekkert danskt þunnildi, sem ég hafði í höndum — heldur Bláa bókin, sem sjálfstæðismenn gefa út fyrir hverjar borgarstjórnarkosningar, — bókin með fallegu myndunum og fallegu loforðunum. — Já, hún er komin út, þó að seint sé — og aldrei hafa myndirnar verið fallegri — og aldrei hafa loforðin verið hástemmdari.

Ég fékk leyfi til að taka bókina með mér hingað niður í útvarp til að fletta í henni, mér til gagns og gamans, og vonandi ykkur líka, hlustendur góðir.

Nafnið á henni er ekki slorlegt — Líf í borg — heitir hún. Í opnu bókarinnar — sem ætti kannski frekar að kalla Grænu bókina en Bláu bókina — er fallegt kort af Reykjavík undir fyrirsögninni „Græna áætlunin“ — eða það, sem róttækir sjálfstæðismenn kalla „Grænu byltinguna“ sín á milli.

Róttæk „bylting“

Já, vissulega er hún róttæk, „Græna byltingin“ borgarstjórans, ef marka má kortið.

— Nýja lögreglustöðin við Hverfisgötu er sett undir græna torfu, sömuleiðis nokkrar malbikaðar götur — og göngustígur er lagður mitt í gegnum nýja Sjálfstæðishúsið, svo að eitthvað sé nefnt — og þetta kallar borgarstjórinn „möguleika til þess að skapa þá fjölbreytni í umhverfi okkar og þann sveigjanleika, að hver einstaklingur geti innan borgarinnar sinnt hinum margvíslegu athöfnum“ — eins og hann segir í formála „Bláu bókarinnar“ í ár.

Já, ekki vantar sveigjanleikann og fjölbreytnina. Ekki er ég þó viss um, að formaður húsbyggingarnefndar Sjálfstæðisflokksins, borgarfulltrúi Albert Guðmundsson, sé eins hrifinn af þessum sveigjanleika og borgarstjórinn, því að sjálfsagt hefur hann enga hugmynd um þennan göngustíg í gegnum Sjálfstæðishúsið — og varla hrópar lögreglustjórinn í Reykjavík húrra yfir því að lögreglustöðin eigi að hverfa undir grænar þökur.

Sömu loforðin aftur og aftur

En þetta eru auðvitað smámunir í augum borgarstjórans. — Borgin skal verða græn, hvað sem það kostar — alla vega rétt fyrir kosningar.

— Það má alltaf gleyma loforðum eftir kosningar — og alltaf skrifa nýja „Bláa bók“.

— Þetta kemur óneitanlega upp í hugann, þegar kaflinn um íþróttir í þessari „Bláu bók“ er skoðaður.

„Í Laugardal verður lokið framkvæmdum við hina glæsilegu íþróttavelli, sem þar hafa verið skipulagðir og vélfryst skautasvell er á næsta leiti“, segir í þessum kafla.

Hve oft skyldi þessu nú hafa verið lofað í „Bláu bókunum“

— ekki fyrir síðustu kosningar

— eða kosningarnar þar á undan — nei heldur þeim, sem þar voru á undan?

Kjósendur eru fljótir að gleyma, hugsar borgarstjórinn. Víst má lofa þessu í einni Blárri bók enn.

En það er ekki nóg með, að borgarstjórinn sé hugmyndaríkur, hann er einnig gamansamur. — í sérstökum kafla, sem heitir „Vaxandi borg” segir á þessa leið: — „Það eru ekki aðeins brýnustu nauðsynjar, sem hugsa verður fyrir í borgarhverfum nútímans. Í fjölmennum byggðum verður að gera kröfur til félagslegrar þjónustu. Reykjavíkurborg hefur því kappkostað að hraða byggingu þjónustustofnana eins og skóla og dagvistunarstofnana.“

Þarna er borgarstjórinn sjálfsagt að tala um Breiðholtshverfi. — Skólarnir þar eru ekki nema tvi- þrí eða fjórsetnir. — Og það eru ekki nema nokkur hundruð börn á biðlistum eftir að komast á dagheimili.

Já, það er einkar fróðlegt að fletta „Bláu bókinni” í ár, ekki aðeins vegna þess að hún sé fróðleg og skemmtileg, heldur veitir hún einnig innsýn í næstu framtíð.

Til að mynda er sagt frá því, að frumtillögur liggi nú fyrir um aðalskipulag svonefnds Úlfarsfellssvæðis, en á þessu svæði er m.a. Geldinganes, Keldnaholt og Korpúlfsstaðir.

— Þarna er næsta byggingarsvæði, og látið er í veðri vaka, að það sé síður en svo, að Reykjavík þurfi að hafa neinar áhyggjur af byggingarlandi.

Sennilega hefur hann fallið niður kaflinn um það, að ýmsir annmarkar eru á því að byggja á þessu svæði m.a. vegna Áburðarverksmiðjunnar og Gufunesradiós — auk þess, sem þetta er síðasta byggingarlandið, sem Reykjavík hefur yfir að ráða.

En hvað varðar borgarstjórann í Reykjavík 1974 um það, þó að allt byggingarland sé þorrið eftir 10 ár. — Sjálfsagt hugsar hann sem svo, að bezt sé að láta hverjum degi nægja sína þjáningar“.

***

TÍMINN, miðvikudagur 8. janúar 1975:

Íbúar Breiðholts eru hættir að trúa loforðum Sjálfstæðisflokksins um íþróttaaðstöðu

Þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 1975 var afgreidd á síðari fundi borgarstjórnar í desember, fluttu borgarfulltrúar minnihlutaflokkanna nokkrar sameiginlegar ályktunartillögur, m.a. um íþróttaaðstöðu í Breiðholtshverfum. Gerði Alfreð Þorsteinsson (F.) grein fyrir þeirri tillögu í ræðu sinni og sagði Alfreð m.a.:

„Eins og sakir standa er nú ekki um aðra íþróttaaðstöðu í Breiðholtshverfum að ræða en þá íþróttaaðstöðu, sem fyrir hendi er í íþróttahúsi í Breiðholtsskóla, og enn fremur er um einn ófullkominn knattspyrnuvöll að ræða í Breiðholtshverfi I. Af þessu sést, að borgaryfirvöld hafa ekki af miklu að státa í þessum efnum í þessum stærstu hverfum borgarinnar, þar sem barnafjöldi er jafnframt mestur. Ég hygg, að menn hafi almennt gert sér grein fyrir því, að við svo búið má ekki standa, og þess vegna voru talsverðar vonir bundnar við það, þegar ákveðið var, við byggingu nýrra skóla í Breiðholtshverfi III, að haga framkvæmdum þannig, að íþróttamannvirki yrðu tekin þar í fyrri áfanga. Þannig var með nokkurri framsýni ákveðið, að annar áfangi Fellaskóla yrði bygging íþróttahúss, og 1. áfangi Fjölbrautaskólans yrði bygging íþróttamannvirkja, knattspyrnuvallar og sundlaugar, ásamt tilheyrandi búningsaðstöðu.

Sundlaugarbyggingu frestað

Þrátt fyrir þessi góðu fyrirheit, þá hefur ekki verið staðið við þessi áform. Það þekkja allir sorgarsöguna um íþróttahús Fellaskóla, sem frestað hefur verið hvað eftir annað, og nú siðast er því lofað, að íþróttahúsið verði tilbúið í febrúar nk., þó að þeir, sem fylgzt hafa með framkvæmdum þar, leyfi sér að efast um að við það verði staðið. Þess ber að geta, að unnið hefur verið við gerð knattspyrnuvallar í Breiðholti III, og má ætla, að hann verði tekinn í notkun næsta sumar, þó að sá galli sé á gjöf Njarðar, að alla búningsaðstöðu vantar við þann völl.

En síðasta reiðarslagið í Breiðholtshverfum er, að nú virðist horfið frá því að byggja sundlaug í hverfinu í bili. Þ.e., að þetta verkefni hefur verið sett til hliðar, og aðeins mjög lítil fjárhæð virðist ætluð til verksins á þeirri fjárhagsáætlun, sem hér liggur frammi, en áður hafði verið stefnt að því, að þessi sundlaug yrði tekin í notkun á næsta ári.

Sérstaða Breiðholts

Það má vel vera, að einhverjum finnist að það skipti kannski ekki svo miklu máli, hvort íþróttaaðstaða rísi í hverfum eins og Breiðholtshverfum tveimur til þremur árum síðar, allt hafi sinn meðgöngutíma, og þannig hafi önnur hverfi orðið að biða eftir sinni aðstöðu í sambandi við íþróttir og æskulýðsstarfsemi. Það er rétt, að mörg önnur hverfi hafa orðið að bíða kannski miklu lengur en Breiðholtshverfi eftir íþróttaaðstöðu, en það hefur svo oft verið bent á sérstöðu Breiðholtshverfa, að óþarft ætti að vera að endurtaka þau rök nú. Og það má minna á það, að í umræðum hér í borgarstjórninni, þegar þessi mál hafa verið rædd, þ.e.a.s. aðstaða til æskulýðsstarfsemi og íþróttastarfsemi, hafa menn yfirleitt verið sammála um, að þetta væru brýn verkefni, sem vinna bæri að eins fljótt og kostur væri. Og ég leyfi mér að minna á það, að á borgarstjórnarfundi í janúar 1973 var m.a. samþykkt eftirfarandi: „Þá lýsir borgarstjórn yfir vilja sinum til að bæta aðstöðu til ýmiss konar félagsaðstöðu í Breiðholtshverfum, t.d. íþróttaaðstöðu og aðstöðu fyrir æskulýðsstarfsemi.“

Hættir að trúa loforðunum

Þrátt fyrir það, að menn hafi verið sammála um nauðsyn þess að byggja upp aðstöðu í Breiðholtshverfum hvað viðvíkur íþróttaaðstöðu, þá hefur, eins og ég hef greint frá, harla litið gerzt, eða okkur hefur orðið harla litið ágengt. Satt beztað segja eru íbúar Breiðholtshverfa orðnir mjög langeygir eftir framkvæmdum, og mér liggur við að segja, að þeir séu beinlínis hættir að trúa því, að staðið verði við þau loforð, sem gefin hafa verið, og í því sambandi leyfi ég mér að vitna til bréfs, sem íbúar í Breiðholtshverfi III sendu til borgarráðs nú fyrir nokkrum dögum, en það er undirritað af formönnum Framfarafélags Breiðholts III, íþróttafélags í hverfinu og kvenfélagsins í hverfinu. Í þessu bréfi segir m.a.:

„Bréf þetta er sent vegna þess alvarlega ástands, sem ríkir í sundkennslumálum barna í Breiðholtshverfi. Í skipulaginu er gert ráð fyrir stórri sundlaug fyrir væntanlegan fjölbrautaskóla í Breiðholti III, en þess er ekki að vænta, að sú laug komist í notkun á næstu árum”. Þá segir enn fremur síðar í þessu bréfi: „Til þess að ráða bót á þessu neyðarástandi, leggja stjórnir undirritaðra félaga til, að byggð verði strax í vor einföld og ódýr sundlaug við Fellaskóla, þannig að hægt sé að nota búningsherbergin þar fyrir sundlaugina líka“.

Skóla úr skóla, án íþróttakennslu

Þarna benda sem sé þessir aðilar, sem þekkja málið bezt og gerzt, á það alvarlega ástand, sem ríkir í þessum málum, og þetta kemur eiginlega enn betur fram í öðru bréfi frá Framfarafélaginu, þar sem sett eru upp á lista þau brýnustu verkefni, sem vinna þarf að í Breiðholti III, en þar eru skólar, ásamt íþrótta- og sundaðstöðu efst á blaði. Þar segir í bréfi, með leyfi forseta: „Þau börn, sem fluttu fyrst í hverfið, voru fyrst í Breiðholtsskóla, sem þá var án allrar leikfimiaðstöðu, þau eru nú í Fellaskóla án leikfimishúss og mörg þeirra fara nú í vetur í Hólabrekkuskóla, sem verður án allrar leikfimiaðstöðu fyrst um sinn, og munu sennilega ekki fá afnot af húsinu við Fellaskóla, þar sem það verður fullnýtt svo til strax“.

Neyðaróp íbúa Breiðholts

Varðandi það er kemur fram í fyrra bréfinu, sem ég las, er það alvarlegast, að íbúarnir eru beinlínis hættir að trúa því, að staðið verði við fyrirheit, sem gefin hafa verið. Þeir óska eftir bráðabirgðasundlaug, af því að þeir reikna alls ekki með því, að framkvæmdir hefjist í bráð við aðalsundlaugina. Ég vil ekki leggja dóm á það, hvort rétt sé að koma upp þessari bráðabirgðaaðstöðu, því að sú hætta er ávallt fyrir hendi, þegar gerð er bráðabirgðaaðstaða, að aðalverkefnið tefjist lengur en nauðsynlegt er. Og ég vil ekki trúa því, að Reykjavíkurborg treysti sér ekki til að byggja umrædda sundlaug á næstu 2 árum, en það er rétt að vekja athygli á því, að þetta er neyðaróp frá íbúum Breiðholtshverfa, Fella- og Hólahverfis.

Koðnar íþróttafélagið niður?

Sá vandi, sem aðstöðuleysið í sambandi við íþróttamannvirki veldur, er tvíþættur í Breiðholtshverfum. Annars vegar er um það að ræða, að öll íþróttakennsla í skólunum er stórskert, og þá kennslu, sem veitt er á þessu sviði, þarf að sækja út fyrir hverfið, sbr. lýsingu forráðamanna þessara félagasamtaka í bréfi til borgarráðs. Hinn vandinn er sá, sem snýr að íþróttafélaginu í hverfinu. Það er staðreynd, að meðan þetta nýja íþróttafélag, sem hefur haslað sér völl í Breiðholtshverfi III, getur ekki boðið upp á neina íþróttaaðstöðu, eru vaxtarskilyrði þess næsta lítil, og sjálfir hafa forystumenn þess félags bent á, að verði ekki gerð einhver bragarbót í þessum efnum, muni fara svo, að börn og unglingar í hverfinu muni í vaxandi mæli leita úr fyrir hverfið til annarra íþróttafélaga, og gæti það þá orðið þessu nýja íþróttafélagi næstum óbætanlegt tjón ef svo yrði.

Vanrækslusyndir íhaldsins

Sú ályktunartillaga, sem ég hef fjallað hér um er hófsamleg. — Lögð er á það áherzla, að leitazt verði við að halda framkvæmdum áfram við sundlaugarbygginguna og allt verði gert til þess að ljúka byggingu íþróttahúss við Fellaskóla sem fyrst. Bæði ég og aðrir gerum okkur grein fyrir því, að það er kannski erfiðara nú en oft áður að standa myndarlega að framkvæmdum. Það held ég að allir geri sér ljóst. En á það ber að líta, að hér er um vanrækslusyndir af hálfu borgaryfirvalda að ræða, sem bæta verður úr. Þetta er vandi, sem borgaryfirvöld hafa velt á undan sér.

Samstaða til æskulýðsstarfsemi í svokölluðum Fellahelli er út af fyrir sig gott framtak og til mikilla hagsbóta fyrir unglingana í Breiðholti, en það er enn brýnna, að íþróttaaðstaða í hverfinu verði bætt hið fyrsta. Það er þess vegna, sem við borgarfulltrúar minnihlutans höfðum lagt fram þá ályktunartillögu, sem ég hef gert grein fyrir”.

„Þrátt fyrir eindregnar óskir íbúa Breiðholtshverfa um íþróttaaðstöðu, hefur framkvæmdum á því sviði miðað mjög hægt áfram, og hefur t.d. ekki tekizt að ljúka neinu íþróttamannvirki í Fella- og Hólahverfi. Fyrir jafnstór hverfi er það mjög alvarlegt, að ekki skuli vera fyrir hendi íþróttaaðstaða af neinu tagi, hvorki fyrir skólabörn né starfandi íþróttafélag í hverfunum. Leiðir þetta af sér, að börn og unglingar búa við mjög skerta íþróttakennslu og þurfa auk þess að sækja íþróttatíma í önnur hverfi borgarinnar. Má í því sambandi nefna sérstaklega sundkennslu. Vegna þess alvarlega ástands, sem ríkir í þessum málum, samþykkir borgarstjórn að leitazt verði við að fylgja upphaflegri áætlun um byggingu sundlaugar við væntanlegan fjölbrautaskóla, en samkvæmt henni er gert ráð fyrir, að framkvæmdum ljúki á næsta ári (1975). Jafnframt leggur borgarstjórn áherzlu á það, að framkvæmdum við íþróttahús Fellaskóla verði hraðað svo, að unnt verði að taka húsið í notkun hið fyrsta.”

***

TÍMINN, laugardagur 15. marz 1975:

Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri, skrifar leiðara:

Lista- og menningarráð Reykjavíkurborgar

Á síðasta fundi borgarstjórnar báru borgarfulltrúar Framsóknarflokksins, þeir Kristján Benediktsson og Alfreð Þorsteinsson, fram tillögu um stofnun Lista- og menningarráðs Reykjavíkurborgar. Hlaut þessi tillaga góðar undirtektir, og var ákveðið að vísa henni til borgarráðs, og hafa síðan um hana aðra umræðu í borgarstjórn.

Í framsöguræðu með þessari tillögu sagði Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, að eðlilegt væri, þegar á það væri litið, að Reykjavíkurborg hygðist verja á annað hundrað millj. króna til lista- og menningarmála á þessu ári, að það væri hugleitt, hvernig samræma mætti stjórn þessara mála, þar sem lista- og menningarstarfsemi Reykjavíkurborgar væri orðin margþætt og viðamikil.

Í ítarlegri greinargerð, sem fylgir tillögunni, er vikið að nokkrum þáttum, sem eðlilegt þykir, að heyri undir Lista- og menningarráð Reykjavíkurborgar. Þar er getið um stjórn og rekstur Kjarvalsstaða, sem miklar deilur hafa orðið um að undanförnu, undirbúning og framkvæmd listahátíðar, aðild að stjórn væntanlegs borgarleikhúss, kaup á listaverkum fyrir Reykjavíkurborg, og ákvörðun um staðsetningu þeirra. Einnig er gert ráð fyrir að ráðið hafi umsjón með listskreytingum opinberra bygginga í eigu borgarinnar, svo sem skóla, barnaheimila, sjúkrastofnana og íþróttamannvirkja, sjái um að málverkum í eigu borgarinnar sé komið fyrir á þeim stöðum, þar sem fólk á þess kost að sjá þau, t.d. í opinberum byggingum, og beiti sér fyrir listkynningum á vegum borgarinnar, og þá gjarna úti í hverfum borgarinnar. Enn fremur að það veiti umsagnir um styrkbeiðnir varðandi lista- og menningarmál, hafi með höndum stjórn á safni Ríkarðs Jónssonar, þegar gengið hefur verið frá samningum við listamanninn um það mál, og loks að það verði borgaryfirvöldum til ráðuneytis um allt, sem varðar lista- og menningarmál, og stuðli á allan hátt að sem fjölbreyttustu lista- og menningarlífi í borginni.

Í lok greinargerðar sinnar segja borgarfulltrúar Framsóknarflokksins: „Þótt hér sé drepið á nokkur atriði, sem eðlilegt væri að heyrðu undir lista- og menningarráðið, er sú upptalning hvergi nærri tæmandi. Mörg verkefni eru nærtæk og koma í ljós, þegar farið er að hugleiða þessi mál. Flutningsmenn tillögunnar telja t.d., að listasafn Ásmundar Sveinssonar þurfi að varðveita til frambúðar á þeim stað, þar sem það er nú. Vart verður komið auga á aðila, sem stæði nær að beita sér fyrir slíku en Reykjavíkurborg“.

Þessi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins er þörf og gagnleg. Flutningsmenn benda á í greinargerð sinni, að stofnun lista- og menningarráðs hafi ekki kostnaðarauka í för með sér. Um það sé að ræða að samræma stjórn þessara mála.

***

TÍMINN, laugardagur 19. apríl 1975:

Um það að tefla að framkvæma samþykkt borgarstjórnar eða leyfa hundahald með skilyrðum

— sagði Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í umræðum um hundamál í borgarstjórn í fyrradag.

Á fundi borgarstjórnar í fyrradag svaraði Birgir Ísl. Gunnarsson borgarstjóri fyrirspurn frá Alfreð Þorsteinssyni varðandi framkvæmd banns við hundahaldi í Reykjavík í svari borgarstjóra kom fram, en hann vitnaði í skýrslu lögregluyfirvalda, að lögreglan hefur haft talsverð afskipti af þessum málum, og greinilegt er, að hundahald er vaxandi í Reykjavík.

Alfreð Þorsteinsson gagnrýndi dómsyfirvöld fyrir seinagang í afgreiðslu mála, sem lögreglan hefur sent þeim, og sagði, að þetta mál væri að komast á það stig, að um það væri að tefla, að framkvæma samþykkt borgarstjórnar um bann við hundahaldi frá 1970, að öðrum kosti yrði að leyfa hundahald með ströngum skilyrðum, því að hér væri um mikið tilfinningamál að ræða, sem erfitt yrði að fást við, ef frekari dráttur yrði á því að framfylgja hundabanninu.

Alfreð Þorsteinsson sagði m.a.: „Málið er tvíþætt — annars vegar er um að ræða forsendurnar fyrir banni við hundahaldi. Og hins vegar sú alvarlega staðreynd, að samþykkt borgarstjórnar frá 1970 hefur ekki verið virt, en samkvæmt henni fengu hundaeigendur frest til 1. sept. 1971 til að losa sig við hunda sína — eða 9 til 10 mánaða frest.

Það liggur fyrir, að þessi frestur var ekki notaður, og ekki aðeins það, heldur er það staðreynd, að hundahald hefur stóraukizt í borginni og heldur áfram að vaxa. Ég vil í því sambandi vitna til viðtals við formann hundavinafélagsins, sem birtist í einu dagblaðanna í nóvember 1973, en þá sagði hann, að hundum hefði farið ört fjölgandi og hann gizkaði á, að þeir væru um 2 þúsund talsins.

Ástæðulaust er að rengja þá tölu, tæplega hefur hún verið of há. Síðan er liðið eitt og hálft ár og á þeim tíma hefur hundum fjölgað ört.

Þáttur lögreglu og dómsyfirvalda

Þetta þýðir það, að samþykkt borgarstjórnar hefur verið virt að vettugi. Lögregluyfirvöld og dómsvöld hafa ekki framfylgt ákvörðun borgarstjórnar í þessum efnum.

Ég vil aðeins staldra við þann þátt málsins, því að í raun og veru er sá þáttur sérstaks eðlis og gæti út af fyrir sigverið tengdur hvaða máli öðru sem er. Við getum hugsað okkur algerlega óskylt mál, t.d. í sambandi við umferð. -“- Við ætlumst til þess, að lögregluyfirvöld og dómstólar, ef með þarf, annist framkvæmd slíkra mála.

Hér er um það að ræða, að ákvarðanir, teknar af kjörnum fulltrúum, séu virtar. — En í þessu tiltekna máli er það ekki gert. Lögregluyfirvöld vísa málum til sakadóms og sakadómur — að sögn — visar málum til saksóknara, en einhvers staðar á þessari löngu leið týnast eða hverfa þau.

Það eina, sem sjáanlegt er í sambandi við þetta mál, er vaxandi hundafjöldi á götum borgarinnar. Og það virðist ekki vera neitt feimnismál að sýna þá — fólk gengur jafnvel inn í verzlanir með þá og opinberar stofnanir.

Hundafjöldinn í Reykjavík 3-4 þúsund?

Enginn veit með vissu um hundafjöldann í Reykjavík í dag, en lýklega er hann á bilinu 3-4 þúsund, — og fjölgar ört. Svo virðist, sem fólk láti ekki lóga hvolpum, heldur gefi eða selji þá, sbr. auglýsingar um hvolpa, sem stundum birtast á síðum dagblaðanna.

Í New York er nú talin vera 1/2 milljón hunda, en spáð, að þeir muni verða 2 millj. eftir 15 ár. Ef við hugsum okkur, að hér séu nú 3-4 þúsund hundar — og svipuð þróun eigi sér stað, getur hundafjöldinn í Reykjavík hæglega aukizt í 10-15 þúsund á næstu 15 árum.

Viljum við það?

Ég hef eins og borgarstjóri haft undir höndum skýrslur frá lögreglunni í Reykjavík. Lögreglustjóri hefur vaxandi áhyggjur af þróun mála. Það, sem kemur fram í skýrslum lögreglunnar um hunda, er ekki nema brot af vandamálinu. Fólk veigrar sér við að kæra út af ónæði vegna hunda af þeirri ástæðu, að það vill forðast nágrannaerjur.

En það, sem mér finnst einna mest sláandi í skýrslu lögreglunnar, er umsögn Bjarka Elíassonar, þar sem hann segir, að búast megi við, að einhverjir lögreglumenn kunni að veigra sér við afskiptum af þessum málum, þar sem engin kærumál varðandi hundahald í Reykjavík hafi fengið afgreiðslu í sakadómi Reykjavíkur svo árum skiptir.

Þessi þáttur snýr beint að dómsyfirvöldum. Það er leitt að segja það, en þar er einhver brotalöm.

Heilbrigðisyfirvöld uggandi

Ég vil þá með nokkrum orðum snúa mér að hinni hlið málsins, forsendunum fyrir því, að hundahald er ekki talið æskilegt í Reykjavík.

Fyrir því eru margar ástæður, en kannski einkum sú, að heilbrigðisyfirvöld leggjast mjög gegn því — og eru um þessar mundir mjög uggandi vegna þróunar þessara mála.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, að hundahald sé mjög alvarlegt vandamál í Reykjavík í dag, en er uggandi um framtíðina. Þessi mál hafa nýlega verið rædd í heilbrigðismálaráði og verða tekin þar upp aftur á næstunni. Yfirmaður heilbrigðiseftirlitsins, Þórhallur Halldórsson, hefur viðað að sér ýmsum gögnum varðandi þetta mál m.a. frá Bandaríkjunum, sem ég vil leyfa mér að vitna til, en það er könnun, sem fram hefur farið á vegum tímarits, sem gefið er út af bandarískum sveitar- og borgarstjórnarmönnum.

Hundavandamálið efst á blaði

Samkvæmt niðurstöðu einhverrar yfirgripsmestu skoðanakönnunar, sem nokkru sinni hefur verið framkvæmd meðal sveitarstjórnarmanna í Bandaríkjunum, er „hundavandamálið“ efst á lista yfir þau vandamál, sem borgarar hafa fram að færa við sína umbjóðendur.

Í Bandaríkjunum er einn hundur á hverja 6 íbúa og hundsbit fara þar vaxandi. Árið 1971 voru tæplega 40.000 hundsbit tilkynnt í New York borg einni, en ekki eru skráð nærri öll hundsbit (samsvarandi tala fyrir Reykjavík væri 400). Rannsókn í St. Louis leiddi í ljós, að 2% allra barna á aldrinum 5-9 ára urðu fyrir hundsbiti árlega. Þá er talið, að a.m.k. 2% innlagna á slysadeildir í New York borg séu vegna hundsbita.

Hundurinn er í þéttbýli ekki lengur „Mans best friend“, heldur félagslegt, læknisfræðilegt og stjórnmálalegt áhyggjuefni. Í New York borg skilja hundar eftir sig 150 tonn af saur daglega (sambærileg tala fyrir Reykjavík væri 1.5 tonn).

„Offjölgun hunda og katta í þéttbýli er nú viðurkennd sem ógnun við heilbrigðishætti, árás fegurð, umhverfismengunarvaldur og hættuberi. Enn fremur er hér um að ræða stóran útgjaldalið bæja og borga. Gera verður íbúum og stjórnendum ljóst, hve alvarlegt vandamálið er.“

Tilfinningamál

Ástæðan til þess, að ég vek athygli á þessu máli nú, er sú, að bæði lögreglu- og heilbrigðisyfirvöld hafa vaxandi áhyggjur vegna aukins hundahalds í borginni, sem þróast svo að segja stjórnlaust.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að hér er um mikið tilfinningamál að ræða fyrir fjölda fólks, sem nú á hunda og hefur þá í leyfisleysi. Málið er það, að ef þetta fær að þróast miklu lengur með sama hætti og verið hefur, munu borgaryfirvöld standa andspænis þeirri staðreynd, að ekki verður hægt með góðu móti að láta koma til framkvæmda bann við hundahaldi. Fjöldinn verður orðinn það mikill eftir eitt eða tvö ár.

Það er því aðeins um tvennt að velja — að láta samþykkt borgarstjórnar um bann við hundahaldi koma fljótlega til fullrar framkvæmdar — eða hreinlega leyfa hundahald í Reykjavík með ströngum skilyrðum, þó að ég sé á móti þeirri lausn. Ekki er um það að ræða að fara milliveg, eins og sum nágrannasveitarfélögin hafa farið, eins og t.d. Hafnarfjörður — þ.e. að leyfa þeim hundum, sem nú lifa, að vera áfram í umsjá eigenda — en banna frekara hundahald. Reynsla Hafnfirðinga af því er slæm.

Óæskilegt ástand

Ég held, að það ástand, sem nú ríkir hér í Reykjavík í þessum málum, sé mjög óæskilegt, jafnvel verra en ef við leyfðum hundahald með ströngum skilyrðum. Lítið sem ekkert eftirlit er með þessum hundum, 3-4 þúsund talsins.

Það er þess vegna um það að tefla að gera gangskör að því að framfylgja banninu eða leyfa hundahald. Það er í höndum borgarstjóra og borgarráðs að sjá til þess að samþykktum borgarstjórnar sé framfylgt í þessum efnum í samráði við lögreglu- og dómsyfirvöld.

Ég vil lýsa því yfir, að verði ekki gerð gangskör að því að framfylgja hundabanninu á næsta misseri, mun ég beita mér fyrir því, að hundahald verði leyft í Reykjavík gegn mjög ströngum skilyrðum og háum skatti til að standa undir eftirliti og hreinsun.

Auk Alfreðs Þorsteinssonar tóku til máls þeir Ólafur B. Thors og úlfar Þórðarson, og tóku þeir undirflestsjónarmiðin, sem fram komu í ræðu hans.

***

TÍMINN, föstudagur 4. júli 1975:

Alfreð Þorsteinsson í borgarstjórn:

Órökstuddar dylgjur um Breiðholtsbúa

Á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur í gær kvaddi Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi (F.) sér hljóðs og gerði að umtalsefni skýrslu félagsráðgjafa um Breiðhortshverfið í Reykjavík. Taldi borgarfulltrúinn að í skýrslunni kæmi fram mjög furðuleg afstaða til Breiðholtshverfis, þar eð íbúum hverfisins eru gefnar einkunnir, sem virðast ekki í neinu samræmi við neitt sem áður hefur verið talið um almenn íbúðahverfi í höfuðborginni.

Ræðumaður mælti m.a. á þessa leið:

„Ástæðan til þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er sú, að mig langar til að vekja athygli á skýrslu, sem ísl. félagsráðgjafar lögðu fram á norrænu þingi félagsráðgjafa, sem hér var haldið fyrir skemmstu. Þessi skýrsla fjallar um Breiðholtshverfi og íbúa þar.

Enda þótt ýmislegt megi til sanns vegar færa í þessari skýrslu þá er ég vist ekki einn um að vera undrandi á þeirri neikvæðu afstöðu til Breiðholtshverfis og íbúa þess, sem þarna kemur fram. Sérstaklega á þetta við um íbúa Fella- og Hólahverfis.

Til að mynda er eftirfarandi tekið upp úr skýrslu félagsráðgjafanna:

„Meðal húsmæðra í hverfinu, sem eru heima allan daginn, er áfengisnotkun og notkun lyfja — en átt er við fíknilyf — meiri en búizt hafði verið við, sérstaklega á þetta við í suðurhluta hverfisins.“

Þessi skýrsla er samin af félagsráðgjöfum, sem eru starfandi hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, a.m.k. einhverjir þeirra. — Mér vitanlega hefur aldrei farið fram könnun á þessum málum í hverfinu. Ég verð því að segja — og er ekki einn um það — að ég lít á þetta framlag íslenzku félagsráðgjafanna sem órökstuddar dylgjur um íbúa hverfisins. Enn þá alvarlegri eru þessi ummæli fyrir þá sök að þau koma frá félagsráðgjöfum, sem treysta verður að viðhafi heiðarleg vinnubrögð.

Það eru mörg önnur atriði í þessari skýrslu, sem fróðlegt væri að ræða um, — til að mynda staðhæfingar um, að fólk vilji ekki búa í Breiðholtshverfi III, og að fólk, sem nú býr þar, vilji flytja sem skjótast í burtu.

Ég átta mig ekki almennilega á því, hvaða tilgangi staðhæfingar eins og þessar þjóna. Það er jú staðreynd, að margt er ógert af hálfu Reykjavíkurborgar í Breiðholti. Um ástæðuna þarf ekki að fjölyrða. Borgarfulltrúar minnihlutaflokkanna hafa lagt áherzlu á að framkvæmdum verði hraðað, en vitaskuld verður ekki meira framkvæmt en efni leyfa hverju sinni.

Það er ekkert nýtt, að framkvæmdir af hálfu opinberra aðila séu á eftir í nýjum hverfum. Þannig hefur það alltaf verið. Og það er erfitt að átta sig á því, hvers vegna fólki í Breiðholtshverfum er hættara við því að verða áfengissjúklingar eða fíknilyfjaneytendur en t.d. íbúum Kópavogs, Garðahrepps og Norðurbæjarins í Hafnarfirði. Allir þessir staðir hafa byggzt upp með lágmarksþjónustu af hálfu viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga. Mér vitanlega eiga íbúar þessara hverfa ekki við nein þau vandamál að stríða, sem sagt er að hrjái Breiðholtsbúa. Ekki þar fyrir: oft hefur verið talað í fremur niðrandi tón um ný hverfi, sem eru að byggjast. Slíkt gerðist t.d., þegar Árbæjarhverfið var að byggjast upp.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa skýrslu, en vildi vekja athygli á þessu hér, sökum þess að það eru félagsráðgjafar starfandi hjá Reykjavíkurborg, sem standa að þessari skýrslu, og birtur hefur verið útdráttur úr henni í fjölmiðlum.

Ég mun óska eftir skýringum félagsmálastjóra á þessari skýrslugerð: M.a. á því, hvort hún hafi verið unnin að beiðni hans eða félagsmálaráðs. Enn fremur mun ég óska eftir því, að viðkomandi félagsráðgjafar leggi fram gögn í málinu.

En almennt hef ég það að segja um þetta mál, að ég harma, að órökstuddar dylgjur um íbúa fjölmenns hverfis skuli birtast með þessum hætti. Ef um félagsleg vandamál er að ræða í Breiðholtshverfum, þá hygg ég, að þau verði sízt af öllu leyst með framlagi af þessu tagi.

Miklar umræður urðu um málið. Til máls tóku Þorbjörn Broddason (Ab), Markús Örn Antonsson (S), Albert Guðmundsson (S), Elín Pálmadóttir (S) og Magnús L. Sveinsson (S). Tóku allir þessir borgarfulltrúar undir gagnrýni Alfreðs Þorsteinssonar.

***

TÍMINN, laugardagur 5. júli 1975:

Tillaga Alfreðs Þorsteinssonar í borgarstjórn samþykkt:

ÍÞRÓTTARÁÐ GERIR KOSTNAÐARÁÆTLUN UM GERVIGRASVÖLL

Á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur á fimmtudaginn var samþykkt tillaga frá Alfreð Þorsteinssyni (F.) þess efnis, að íþróttaráð geri kostnaðaráætlun um viðgerð og endurbætur á Laugardalsvellinum. Mun íþróttaráð gera tvenns konar kostnaðaráætlun, önnur verður miðuð við það, að settar verði hitaleiðslur undir völlinn og ræktað nýtt gras á honum. Hin áætlunin miðast við það, að sett verði gervigras á upphitaðan völlinn.

Í umræðum minnti Alfreð Þorsteinsson á það, að Laugardalsvöllurinn hefði verið tekinn í notkun árið 1957. Engin endurnýjun hefði farið fram á vellinum síðan, sem heiti gæti. Sagði hann, að ljóst væri, að endurnýja þyrfti allar lagnir undir vellinum og fljótlega þyrfti að taka ákvörðun um það hvort ráðast ætti í að setja gervigras á völlinn. Sagði Alfreð, að sú lausn væri dýr. Í framhaldi af því sagði hann:

„Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um, að slík lausn er sú allraheppilegasta með tilliti til aðstæðna hérlendis. Hér er leiktímabil knattspyrnumanna styttra en víðast annars staðar vegna lélegra vallaskilyrða. Með gervigrasi á Laugardalsvellinum, væri hægt að leika knattspyrnu allan ársins hring, ekki sízt, ef flóðljósin, sem nú eru á Melavellinum yrðu flutt inn í Laugardal.

Tillagan, sem hér er flutt hefur engar skuldbindingar í för með sér. Aðeins er farið fram á það, að gerð verði kostnaðaráætlun til að fá samanburð, og til að auðvelda borgarfulltrúum að átta sig á kostnaðinum.

Ég vil að lokum ítreka það, að ekki er hægt að biða öllu lengur með viðgerðina á Laugardalsvelli. Þegar þar að kemur vænti ég þess að sjálfsögðu, að haft verði fullt samráð við þá aðila, sem nota völlinn mest, þ.e. Knattspyrnusamband Íslands og Frjálsíþróttasamband Íslands.“

Sveinn Björnsson (S) formaður íþróttaráðs tók næstur til máls og kvaðst styðja tillöguna. Upplýsti Sveinn, að nýr gervigrasvöllur í Svíþjóð hefði kostað 60 millj. ísl. króna.

Tillagan var siðan samþykkt samhljóða.

***

TÍMINN, miðvikudagur 12. nóvember 1975:

„EKKERT MANNLEGT í ÞESSARI BORG ER BORGARFULLTRÚUNUM ÓVIÐKOMANDI“

Rætt við Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúa í Reykjavík.

Alfreð Þorsteinsson er annar tveggja borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hann er í hópi yngstu borgarfulltrúanna, sem nú eiga sæti í borgarstjórn 31 árs að aldri.

SUF-síðan sneri sér til Alfreðs og bað hann að segja í stuttu máli frá því, hvernig störfum borgarfulltrúa í Reykjavík væri háttað.

„Það er rétt að geta um það strax, að störf borgarfulltrúa í Reykjavík eru aukastörf þeirra, sem þar sitja. Ekki þar fyrir, að þetta starf getur stundum verið svo erilsamt, að ekki veitti af öllum deginum til að geta sinnt því. Álagið á borgarfulltrúa er e.t.v. meira fyrir þá sök hversu fáir þeir eru miðað við fólksfjöldann í borginni. Íbúatalan mun vera um 85 þúsund, en borgarfulltrúarnir eru ekki nema 15, eða einn fyrir hverja 5-6 þúsund íbúa.

Störf borgarfulltrúanna eru mörg og margvísleg. Aðalþátturinn er að sjálfsögðu sá, er lýtur að þátttöku þeirra í stjórn borgarinnar. Þar er um að ræða ákvörðunartöku í ólíkum málaflokkum, t.d. á sviði atvinnumála, félagsmála og skipulagsmála, svo eitthvað sé nefnt. Slíkar ákvarðanir eru teknar á borgarstjórnarfundum, sem haldnir eru að meðaltali tvisvar sinnum í mánuði. Auk þess sitja borgarfulltrúar í hinum ýmsu nefndum borgarinnar, sem undirbúa mál til ákvörðunartöku í borgarstjórn.

Hinn aðalþátturinn í störfum borgarfulltrúa, sem er ekki síður mikilvægur, eru samskipti þeirra við borgarbúa. Á hverjum einasta degi er leitað til borgarfulltrúanna með ýmis úrlausnarefni. Oftast er um fyrirspurnir að ræða t.d. um lóðaúthlutanir. Enn fremur leitar fólk oft til borgarfulltrúanna, ef því finnst, að erindi þeirra hjá borgarstofnunum gangi seint. Þar fyrir utan er leitað til borgarfulltrúa vegna persónulegra vandamála, sem stundum tekst að greiða úr með hjálp góðra manna. Í raun má segja, að ekkert mannlegt í þessari borg sé borgarfulltrúunum óviðkomandi.“

— Því hefur verið haldið fram, að störf borgarfulltrúa séu það viðamikil, að um fullt starf sé að ræða?

„Það má til sanns vegar færa. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt fyrir borgarfulltrúa að vera í tengslum við atvinnulífið. Sú hætta er alltaf fyrir hendi, að atvinnustjórnmálamenn — ég á við þá, sem þiggja laun eingöngu fyrir þátttöku í störfum Alþingis eða borgarstjórnar — einangrist um of. En hitt er jafn ljóst, að það er gersamlega vonlaust fyrir borgarfulltrúa að sinna skyldum sínum við umbjóðendur sína, ef hann er í fullu starfi annars staðar. Hér þarf oft að fara bil beggja. Sem blaðamaður Tímans hef ég tækifæri til að haga vinnutíma mínum þannig, að mér gefst færi á að sinna störfum borgarfulltrúa, án þess, að það rekist á.”

— Því er stundum haldið fram, að þeim, sem vafstra í stjórnmálum, séu sum verkefni hugleiknari en önnur. Hvað viltu segja um það?

„Það er rétt. Hvað sjálfan mig áhrærir, þá get ég ekki borið á móti því, að íþrótta- og æskulýðsmál eru mér ofarlega í huga. Í þeim efnum hefur verið unnið ágætt starf að mörgu leyti, þótt alltaf megi gera betur, og fyrir komi, að menn greini á um leiðir að settu marki.

Hagsmunir hinna nýju Breiðholtshverfa eru mér einnig ofarlega í huga. Ég bý sjálfur í einu Breiðholtshverfanna og hef átt ágæta samvinnu við fólk í hverfunum. Eins og af líkum lætur eru mörg óunnin verk í svo stórum bæjarhluta sem Breiðholtshverfi eru. Hverfin eru að byggjast upp smátt og smátt og heillegri mynd að skapast. Ég spái því, að innan 5-6 ára verði þessi hverfi fullbyggð og að mestu leyti frágengin.“

— Að lokum, Alfreð. Tekur ungt fólk mikinn þátt í borgarmálastarfi Framsóknarflokksins?

„Já, margt ungt fólk starfar innan vébanda Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þar á ég við fólk innan FUF. Þetta fólk tekur þátt í störfum okkar með einum og öðrum þætti. Þá vil ég enn fremur nefna Hverfasamtök Framsóknarmanna í Breiðholti. Þar starfar eingöngu ungt fólk. Og í borgarmálaflokki okkar Framsóknarmanna lætur ungt fólk mikið að sér kveða. Auk mín taka Guðmundur G. Þórarinsson, Gerður Steinþórsdóttir, og Páll I Magnússon mikinn þátt í þeim og sitja borgarstjórnarfundi. Ég held, að Framsóknarflokkurinn þurfi engu að kviða með þátttöku unga fólksins í störfum hans í framtíðinni.“

***

TÍMINN, föstudagur 14. nóvember 1975:

Alfreð Þorsteinsson:

Sjónvarpsmenn verða að þola gagnrýni

GETUR VERIÐ, að fréttastjóri sjónvarpsins og sumir undirmanna hans séu orðnir svo óvanir gagnrýni, að þeir hafi afmáð þetta hvimleiða orð úr orðabókum sinum og vilji ekkert með það hafa?

Rembingurinn, sem fram kemur í athugasemd Eiðs Guðnasonar, handhafa móðurmálsverðlauna sællar minningar, er ótrúlega mikill í jafnstuttri grein, en það sýnir einungis, hve „hin nýja stétt“ lítur stórt á sig.

Nóg um það. Greinarhöfundur gerir þrjú atriði að umtalsefni, og verður þeim svarað hér á eftir í stuttu máli.

 1. Umræðuþátturinn um þrýstihópana batnar ekkert við þær upplýsingar, að útvarpsráð hafi mælt svo fyrir, að hann skyldi fara fram með þeim hætti, að þar kæmu ekki fram stjórnmálamenn. Útvarpsráð hefur áreiðanlega ekkiætlazttil þess, að stjórnandi þáttarins léti hann þróast upp í óhróður um stjórnmálamenn. Þarna brást stjórnandinn, viljandi eða óviljandi, hlutverki sínu.
 2. Út af þættinum „um gang og meðferð dómsmála“ vil ég aðeins endurtaka það, aðfulltrúanumfrá sakadómaraembættinu var ekki nema að litlu leyti kunnugt um, hvað fjallað yrði um í þættinum, a.m.k. vissi hann ekki fyrir fram um þau tilteknu mál, er lögreglumennirnir spurðu um. Það kom fram í svörum hans í þættinum.
 3. Sá maður, sem átt er við, þegar rætt er um fréttafalsanir á öðrum vettvangi, er Vilmundur Gylfason. Undanfarna mánuði hefur hann ritað vikulegar greinarídagblaðið Vísi. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að nær öllum greinunum hafi verið svarað og ósannindin rekin ofan í greinahöfund.

Að lokum þetta: Það eru gerðar sérstakar kröfur til sjónvarpsins um vandaðan og heiðarlegan fréttaflutning, þar sem hér er um ríkisfjölmiðil að ræða. Sjónvarpinu hefur á undanförnum árum tekizt að sigla fram hjá hættulegum skerjum, sem ávallt hljóta að verða á leiðinni, þegar gæta þarf hlutleysis. En það þýðir ekki endilega, að sjónvarpið sé hafið yfir gagnrýni.

Eiður Guðnason, og helzti samstarfshópur hans, ætti að manna sig upp í það að taka gagnrýni, þegar hún er borin fram. Að öðrum kosti verður annars flokks blaðamennskan allsráðandi.

***

Alfreð Þorsteinsson:

Svar til sérfræðings

EKKI er að efa, að grein Gunnars Stefánssonar hér að ofan mun hljóma eins og fagurt klukknaspil í hinum kölkuðu hvelfingum menningarpáfanna við Skólavörðustíg, sem nú geta glatt sig við það að eiga sérlegan fulltrúa á Tímanum, sem tekur þátt í að breiða út fagnaðarerindi þeirra. Og óneitanlega finnur maður til vanmáttarkenndar, þegar tveir sérfræðingar í bókmenntum leggja saman og lýsa sterku ljósi sínu úr vita menningarinnar út í náttmyrkrið, þar sem sauðsvartur almúginn hýrist og biður þess með mikilli eftirvæntingu í hvert skipti, sem kviknar á vitanum góða.

Ósjálfrátt reikar hugurinn austur í Garðaríki, þar sem Jósef frændi, Krjúseff og Brjésneff hafa annazt vitavarðarstarfið. Þessir fyrirmyndar vitaverðir vöruðu við lýðskrumi og sögðu fólki hvað væri list og hvað ekki. Og þegar  einhverjir kapítalískir lýðskrumarar í Svíþjóð dæmdu Pasternak og Solsínitsjin bókmenntaverðlaun Nóbels, þá aðeins magnaðist ljósið fyrir austan á hina einu „sönnu” list.

Sá, sem þessar línur skrifar, getur ekki gert að því, þótt Gunnar Stefánsson fyrirlíti almenning, en á það má minna, að fornbókmenntir þjóðarinnar urðu til, án afskipta Gunnars Stefánssonar og Þjóðviljans og þær bækur voru ekki ritaðar af prófessorum eða bókmenntafræðingum, heldur bændum og alþýðufólki. Og á nú á tímanum leggja alþýðumenn þessum bókmenntum ekki minna lið en hinir lærðu. Má þar nefna Helga á Hrafnkelsstöðum og Benedikt frá Hofteigi.

Sama má segja um nútímabókmenntir. Eina umtalsverðaframlagið í bókmenntarannsóknum um langt skeið kemur ekki frá menningarvitum á sviði bókmennta, heldur reikningskennara, sem ritað hefur stórmerkar greinar um „Föng Halldórs Laxness“. Svona mætti lengi telja. Skynsamlegustu skrif um bókmenntir í Tímann skrifar óumdeilanlega íslenzkur bóndi, Halldór á Kirkjubóli. Vil ég þó ekki vanmeta ýmsa aðra, sem skrifa um bækur í blaðið.

Varðandi tómlæti menningarvitanna gagnvart bók Snjólaugar Bragadóttur, sem varð kveikjan að þessari umræðu, þá má rekja upphaf þess máls til Gunnars Stefánssonar, „yfirgangrýnanda“ blaðsins. Bók Snjólaugar Bragadóttur barst Tímanum, og tók Gunnar hana undir því yfirskini, að hann myndi fjalla um hana í bókmenntaþætti sínum. Það kom hins vegar í ljós, að ætlun Gunnars var þar með að taka bókina úr umferð og tryggja þögn um hana í Tímanum. Höfðu þó ekki ómerkari gagnrýnendur en Ólafur Jónsson, og Guðmundur G. Hagalín skrifað heldur lofsamlega dóma um bókina annars staðar. Það breytir engu um þann hug, sem Gunnar Stefánsson ber til bókmennta, þótt hann segi nú, að Snjólaug sé áreiðanlega í hópi betri skemmtisagnahöfunda hér á landi.

Gunnar Stefánsson stendur nefnilega ber að því að hafa reynt að leyna bókinni fyrir almenningi. Mér er kunnugt um það, að Jónas Guðmundsson rithöfundur var beðinn af einum ritstjóra blaðsins að rita um bókina, þegar ekkert bólaði á ritdómi Gunnars. Dómur Jónasar hefur vakið verðskuldaða athygli á hinni dugmiklu skáldkonu. Hún, með sitt 5 þúsund eintaka upplag, á ekki síður rétt á því en höfundar 200-500 eintaka bóka að fá umsögn í blaðinu. Og hvað bókmenntalegu gildi viðvíkur, þá hefur einungis verið bent á þann tvískinnung — og mikla þverbrest — í bókmenntagagnrýni sérfræðing.

Annað í grein Gunnars Stefánssonar læt ég mér í léttu rúmi liggja, en varla telst gagnrýni hans á stjórnmálamenn neitt sérfræðileg. Hins vegar þykir mér það slæmt, að bókmenntagagnrýnandi Tímans skuli skrifa undir handleiðslu Árna Bergmanns og Þjóðviljans. Við því er ekkert að gera. En menn eins og Gunnar Stefánsson, er gefa sig upp sem sérfræðinga, mega ekki falla í þann pytt að vita meira og meira um minna og minna. —

 

***

TÍMINN, þriðjudagur 6. apríl 1976:

Hlutur Æskulýðsráðs verður sífellt stærri meðan framlög til íþróttamála standa í stað

„Vil vara við þeirri þróun,“ sagði Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, sem jafnframt sagði, að íþróttafélögin og önnur félög gætu annað æskulýðsstarfinu í borginni, ef þau fengju fjármagn Æskulýðsráðs.

Á næstsíðasta borgarstjórnarfundi, þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var til afgreiðslu, geri Alfreð Þorsteinsson íþrótta- og æskulýðsmálin að umræðuefni og varaði við þeirri þróun, sem nú á sér stað. Ert hann sagði, að starfsemi Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar væri sífellt að aukast og verða fyrirferðarmeiri á sama tíma og framlög til bygginga íþróttamannvirkja stæðu í stað eða jafnvel dregið úr þeim.

„Þetta sést greinilega með því að gera samanburð á fjárframlögum til þessara málaflokka á undanförnum árum,“ sagði Alfreð. „Það kemur greinilega í ljós, að það stefnir óðfluga í þá átt, að Æskulýðsráð og starfsemi þess verði langfyrirferðarmesti þátturinn í sambandi við æskulýðsstarfsemi í borginni.“

Síðan sagði Alfreð:

Æskulýðsráð að verða að nýrri félagsmálastofnun

„Ef við gerum samanburð á 4 árum og byrjum á 1970, þá er áætlað til eignabreytinga til æskulýðsmála l.Smillj. kr., en til íþróttamála 19.5 millj. kr. 1973 er það þannig, að til æskulýðsmála fara 2.3 millj., en til íþróttamála 50.0 millj., 1974 eru það 16.6 millj., sem fara til æskulýðsmála, en 60.0 millj. til íþróttamála, 1976, þ.e.a.s. í þeirri áætlun, sem hér liggur frammi, þá er gert ráð fyrir að framlag til æskulýðsmála þ.e.a.s. til eignabreytinga, sé tæplega 40.0 millj., en til íþróttamála 50.0 millj. Af þessu sést hvert hin nýja félagsmálastofnun, sem Æskulýðsráð er – óneitanlega að verða, stefnir. Ég óttast, að það muni koma að því áður en langt um liður, að Æskulýðsráð og sú starfsemi, sem fer fram á þess vegum, hreinlega gleypi bróðurpartinn af því fjármagni, sem varið er til æskulýðsmála í boginni. Ég vil spyrja hvort þetta sé nú heppileg þróun. Er það heppileg þróun að byggja upp nýja stofnun af þessu tagi, sem Æskulýðsráð er, með tilheyrandi launuðu starfsfólki, á sama tíma og íþróttahreyfingin og ýmsir aðrir aðilar, sem vinna að æskulýðsmálum eins og skátahreyfing, K.F.U.M., bindindisfélög og ýmsir aðrir aðilar, eiga í miklum erfiðleikum með sinn rekstur og geta ekki vegna fjárskorts sinnt þeim verkefnum, sem þau gætu annars leyst?

Fjármagnið yfir til félaganna

Ég tel þessa þróun ákaflega neikvæða og alvarlega ekki sízt vegna þess, að starfsemi þeirra félaga, sem ég hef, nefnt áður er að mínu mati mun jákvæðari og uppbyggilegri að mörgu leyti en sú starfsemi, sem fer fram á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar, sem ber keim af ríkisrekstri, ef svo má segja. Með tilliti til þess, hversu seint fjárhagsáætlunin er á dagskrá, þá mun ég ekki leggja fram breytingartillögu við fjárhagsáætlunina varðandi þetta atriði, en ég er þeirrar skoðunar, að það ætti að flytja meginhluta þess fjármagns, sem Æskulýðsráð hefur til meðferðar, yfir til hinna félaganna, vegna þess, að þessi félög geta séð yngstu borgurum Reykjavíkur fyrir þeirri starfsemi, sem æskileg er á sviði æskulýðsmála.

Getur ekki staðið við gefin fyrirheit

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, hvað raunverulega verður framkvæmt í íþróttamálum á þessu ári. Borgarstjóri hefur upplýst að nú væri fyrirhugað að hætta við framkvæmd á velli í Laugardal, sem ákveðið var að vinna að í sumar. Það má benda á það, að það eru mörg félög sem eru að vinna að framkvæmdum á sínum félagssvæðum. Það má nefna t.d. K.R., sem er að byggja nýja grasvelli, það má nefna Þrótt, sem er að hefja framkvæmdir við nýtt félagsheimili. Víkingur og Valur eru að byggja sína grasvelli, og það er alveg ljóst, að Reykjavíkurborg mun ekki geta staðið við þau loforð sem hún hafði gefið þessum félögum þannig að það er útilokað að þau geti haldið þessum framkvæmdum áfram eins og þau höfðu óskað.

Lítill kraftur

Það er einnig á öðrum sviðum sem framkvæmdir í íþróttamálum hafa dregizt saman. Sundlaug Vesturbæjar er á dagskrá og mun framkvæmdum við hana loksins ljúka á þessu ári. Fyrirhugað er að byggja nýtt vallarhús í Arbæjarhverfi, og um einhverjar framkvæmdir eða lagfæringar á Laugardalssvæðinu verður að ræða. En það er staðreynd, að það er lítill kraftur í þessum málum og við höfum t.d. aldrei verið eins langt frá því takmarki okkar og nú að byggja skautahöll, sem hefur verið á dagskrá hér í mörg mörg herrans ár. Það er sem sé einsýnt, að fjármagn til íþróttahreyfingarinnar verður í rýrara lagi á sama tíma og ekkert er sparað til að byggja upp þennan ríkisrekna æskulýðsbúskap hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur sem ég vil kalla svo. Ég mun hér á eftir láta bóka svohljóðandi:

„Ég vil vara við þeirri stefnubreytingu í íþrótta- og æskulýðsmálum, sem fram kemur í þessari fjárhagsáætlun: Hlutur Æskulýðsráðs verður sífellt stærri á sama tíma og samdráttur er í framkvæmdum við íþróttamannvirki. Þessi stefna mun leiða til erfiðleika fyrir íþróttafélögin í borginni og ýmis önnur félagasamtök, sem vinna að æskulýðsmálum, t.d. skátahreyfinguna, bindindisfélög, skákfélög og K.F.U.M. þar sem síaukin starfsemi Æskulýðsráðs mun óhjákvæmilega taka til sín bróðurpartinn af því fjármagni, sem hægt er að verja til þessarar starfsemi. Þessi stefna er röng að mínu mati, auk þess sem hún verður miklu kostnaðarsamari fyrir Reykjavíkurborg, þar sem allt starfslið æskulýðsráðs er launað.“

***

TÍMINN, laugardagur 20. nóvember 1976:

Snorra-málið rætt í borgarstjórn

Á fundi borgarstjórnar í fyrradag gerði Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi að umræðuefni þá samþykkt borgarráðs, að fela borgarendurskoðanda að gera úttekt á viðskiptum Borgarspítalans við Snorra hf.

Alfreð sagði, að málið væri þri þætt. Í fyrsta lagi snerist það um óeðlileg viðskiptatengsl milli fyrirtækisins og Borgarspítalans. Í öðru lagi um það, hvort reglur Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar hefðu verið brotnar. Og í þriðja lagi, hvort nægilegs aðhalds og hagsýni væri gætt í tækjakaupum Borgarspítalans.

Einnig sagði Alfreð, að málið snerti þau fyrirtæki, sem verzluðu með þessar vörur. Mikilvægt væri, að öll fyrirtæki sætu við sama borð hvað viðskiptamöguleika við Borgarspítalann og Reykjavíkurborg snerti.

Varðandi fyrsta atriðið sagðist Alfreð hafa undir höndum ný gögn í málinu, sem vörpuðu skýrara ljósi á viðskiptin milli Snorra hf. og Borgarspítalans. Þau gögn yrðu afhent borgarendurskoðanda.

Varðandi annað atriðið sagði borgarfulltrúinn, að ljóst væri, að reglur Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar hefðu verið brotnar með beinum og óbeinum hætti. Keyptar hefðu verið vörur frá fyrirtækinu án vitundar stjórnar Innkaupastofnunarinnar fyrir fram. Auk þess, sem útboðsskilmálum hefði verið breytt eftir á. Í þessu sambandi væri einnig rétt að geta þess, að fyrirtækið hefði aldrei selt vörur til Borgarspítalans eða Reykjavíkurborgar í gegnum útboð. En loks, þegar fyrirtækið væri þátttakandi í útboði kæmi í ljós, að það ætti hæsta tilboðið. Og þá legði Borgarspítalinn til, að því yrði tekið.

Varðandi þriðja atriðið sagði Alfreð Þorsteinsson, að nauðsynlegt væri að gæta fyllsta aðhalds í kaupum á tækjum fyrir spítalann. Sænska fyrirtækið, sem Snorri hf. væri umboðsaðili fyrir, væri með einhverjar dýrustu sjúkravörur, sem á markaðnum væru. Alfreð sagðist hafa fengið nákvæmari upplýsingar um viðskipti Snorra hf. við Borgarspítalann en hann hefði haft áður undir höndum. Sér virtist sem fyrirtækið kæmi inn í myndina sem óeðlilegur og óþarfur milliliður um viðskipti sem Borgarspítalinn hefði haft við erlend fyrirtæki áður. Ætti það bæði við um kaup á sjúkravörum frá sænska fyrirtækinu og eins um viðskipti Borgarspítalans við bandarískt fyrirtæki um úrvinnslu á fixer frá spítalanum.

Alfreð sagðist vænta þess, að borgarendurskoðandi og kjörnir endurskoðendur borgarinnar skoðuðu þetta mál niður í kjölinn. Hann sagði, að gagnrýni sín væri ekki fram komin vegna óvildar í garð framkvæmdastjóra Borgarspítalans heldur væri hér um að ræða, að gætt yrði ítrasta aðhalds í meðferð fjármuna almennings, að hindra óeðlileg  viðskiptaleg tengsl — og tryggja það, að fyrirtæki í borginni sætu við sama borð varðandi viðskipti við Reykjavíkurborg. Borgarstjóri tók einnig til máls og kvaðst ekki vilja tjá sig um málið á þessu stigi, en minnti á, að framkvæmdastjóri Borgarspítalans hefði haft frumkvæði að rannsókninni. Björgvin Guðmundsson borgarfulltrúi Alþýðuflokksins kvað augljóst, hvað sem öðru liði, að reglur innkaupastofnunarinnar hefðu verið brotnar.

***

Ritstjórn mun birta á næstu dögum frekari upprifjun á ferli Alfreðs Þorsteinssonar.