Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Díana Hilmarsdóttir

Deila grein

16/09/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Díana Hilmarsdóttir

Í Reykjanesbæ var Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður og bæjarfulltrúi, í öðru sæti á framboðslista Framsóknar í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Díana er fædd á Skaganum, bjó fyrstu níu árin í Ólafsvík á Snæfellsnesi og lauk síðustu grunnskólaárunum í Garðabæ. Hún gekk í Kvennaskólann í Reykjavík en skellti sér svo til Bandaríkjanna í ár sem au pair. Díana bjó í höfuðborginni þegar hún kynntist manninum sínum, þau fluttu saman til Keflavíkur árið 2000. Díana er gift Önundi Jónassyni, véltæknifræðingi og Keflvíkingi og á þrjú börn, fædd 1997, 2003 og 2005. „Sá yngsti er í Heiðarskóla, dóttir mín fædd 2003 byrjaði í framhaldsskóla í haust og valdi Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Elsti sonur minn er í námi í sálfræði við Delta State University í Cleveland í Missisippi í Bandaríkjunum auk þess að spila fótbolta og er hann á þriðja ári.“
Díana er forstöðumaður Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja. Þau hjónin skelltu sér í nám í Danmörku árin 2005 til 2009 þar sem Díana hóf nám í félagsráðgjöf og lauk því svo hér heima og er með BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Díana lauk námi, vorið 2018, í fjármálum og rekstri frá endurmenntun Háskóla Íslands. Hún er í dag í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu í fjarnámi við HÍ.

Hvers vegna stjórnmál?

Díana brennur fyrir velferðarmálum og þá sérstaklega geðheilbrigðismálum og vill þar sjá bætta þjónustu og auknar forvarnir. Hún vill einnig sjá gagngera endurskoðun á rekstri HSS og aðkomu heimamanna að starfseminni. Málefni aldraðra skipta Díönu miklu máli, fjölgun hjúkrunarrýma og að hjón geti verið saman út ævikvöldið þrátt fyrir mismunandi heilsufar. Díana er fjárhaldsmaður fyrir sjö einstaklinga skipuð af sýslumanni og hefur sinnt því frá árinu 2015.
„Ég hef alltaf talið mig ópólitíska en áttaði mig svo á því að ég væri mjög pólitísk, ég var með skoðanir á hinu og þessu og sérstaklega velferðarmálum, en taldi mér trú um að mitt álit skipti ekki máli og að ég gæti ekki haft áhrif á eitt eða neitt enda bara ein manneskja og hver ætti svo sem að hlusta? Svo er það – ég veit ekki hvað nákvæmlega gerðist en ég áttaði mig einn daginn: „Af hverju ekki ég, frekar en einhver annar?“ Ég er með reynslu og þekkingu á velferðarmálum og hef unnið í þeim málaflokki frá árinu 2010 – „teningunum er kastað“.“

„Tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf“

„Ég er dugleg og brenn fyrir því sem ég geri. Ég er baráttumanneskja og ég er þrjósk en líka diplómatísk og réttsýn. Ég er ekki mikið fyrir rifrildi og leðjuslagi, ég vil að fólk og ólíkir hópar geti unnið saman með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi. Ég er ný í pólitík og tel það mikinn kost þar sem ég er ómörkuð, ef svo má að orði komast. Mér þykir vænt um bæinn minn og ég vil taka þátt í að byggja hann upp og gera hann blómlegan og tel mig hafa þá þekkingu og reynslu sem þarf til þess. Við Framsóknarfólk erum trú okkur, fylgjum hjartanu og vinnum af heilindum. Við erum raunsæ og lofum ekki upp í ermina á okkur. Við komum til dyranna eins og við erum klædd.“
Díana vill einnig sjá sem best haldið utan um aðlögun íbúa af erlendum uppruna svo að þeir komist vel og örugglega inn í samfélagið.
Díana hefur endurvakið þverfaglegt teymi fagaðila í velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Með því að hafa sameiginlegan vettvang til umræðna geta þessir aðilar sinnt skjólstæðingum sínum betur. Meðal þeirra sem að teyminu koma eru félagsþjónusturnar á svæðinu, félagsleg heimaþjónusta, Björgin, geðteymi og fleiri deildir innan HSS.
Ásamt aðila frá Rauða krossinum er Díana að vonast til að geta hafist handa von bráðar hér á Suðurnesjum með „Frú Ragnheiði“ verkefni, líkt og starfrækt er í Reykjavík. Frú Ragnheiður er verkefni sem hefur skaðaminnkun að leiðarljósi og nær til jaðarhópa í samfélaginu eins og heimilislausra og vímuefnaneytenda. Ungu fólki í harðri neyslu fer því miður fjölgandi á Suðurnesjum en meðal þess sem Frú Ragnheiður gerir er að veita heilbrigðisráðgjöf, nálaskiptaþjónustu og skaðaminnkandi ráðgjöf um öruggari leiðir í sprautunotkun og smitleiðir á HIV og lifrarbólgu.

Áherslumál Framsóknar í Reykjanesbæ

Stjórnsýslan er lykilatriði til árangurs á öllum sviðum. B-listinn vill sérstaklega sjá meira samtal við bæjarbúa, meira gegnsæi og meiri samvinnu. • Við þurfum að tryggja að íbúar okkar njóti góðs af nálægð við alþjóðaflugvöllinn. • Við ætlum að efla ímynd svæðisins og laða að okkur fjölbreyttari atvinnurekstur, ekki síst sem veitir góð störf fyrir fólk með menntun. • Við viljum sjá stóreflingu ferðaþjónustu á Reykjanesinu öllu en ekki síst tryggja hagsmuni Reykjanesbæjar í þessum málaflokki. • Gildi íþrótta þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga er margsannað, auk þess sem öflugt íþróttastarf veitir öllum bæjarbúum innblástur til heilsueflingar og heilbrigðs lífsstíls. • Reykjanesbær er menningarbær og við getum verið stolt af frábærum verkefnum, hátíðum og árlegum viðburðum í þeim málaflokki. Við viljum efla það góða menningarstarf enn frekar. • Reykjanesbær hefur náð góðum árangri í menntamálum og mjög mikilvægt að það góða starf festi sig í sessi. Í Reykjanesbæ starfa hæfir og áhugasamir kennarar, sú auðlind verður seint metin til fjár. • Líkamlegt og andlegt heilbrigði er undirstaða hamingjuríks lífs og við megum ekki gleyma til hvers allt þetta er: svo við getum notið lífsins með þeim sem okkur þykir vænt um.

Fréttir og greinar

„Fátt skemmtilegra en að ferðast“

Díana segist vera þessi klassíski dugnaðarforkur og alltaf að. „Ég veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hann Önundur minn er ættaður úr Dölunum og förum við árlega í leitir og réttir með stórfjölskyldunni sem er alveg dásamlegt. Ég æfði einnig fótbolta á yngri árum og finnst gaman að fylgjast með fótbolta í dag, fer á leiki og held með Liverpool í enska boltanum. Það hefur verið draumur hjá mér í mörg ár að fara út í sjálfboðastarf sem hefur smitast yfir til dóttur minnar og stefnum við að því  að láta þann draum rætast og fara í lágmark 6 vikur þegar hún útskrifast út framhaldsskóla.
Sá litli frítími sem gefst fer í að lesa góðar bækur, ræktina og sund en fyrst og fremst í að njóta tíma með fjölskyldunni heima fyrir. Svo er ég nammigrís og finnst fátt betra en snakk, bland í poka og góð mynd á laugardagskvöldi.
Hreindýrakjöt og humar er uppáhaldsmaturinn minn.“