Categories
Fréttir

Lækka skatta og tryggingagjald á landsbyggðinni.

Deila grein

06/10/2016

Lækka skatta og tryggingagjald á landsbyggðinni.

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem nokkrir hv. þingmenn hafa talað um hér og fagna því að samkomulag sé að takast milli formanna stjórnarflokkanna. Ég tel það mjög mikilvægt upp á ásýnd þingsins. Þó eru þarna mál sem er mjög mikilvægt að klára og nefni ég t.d. almannatryggingar og að einhver skref verði stigin, helst sem stærst, í breytingum á útreikningi vísitölu.
Það er samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Mig langar að ræða þá byggðastefnu sem við framsóknarmenn leggjum áherslu á í þeirri kosningabaráttu sem nú er hafin. Við viljum nýta skattkerfið á ívilnandi hátt fyrir íbúa landsins. Má þar helst nefna afslátt af ferðakostnaði til og frá vinnu, að þeir sem þurfa að sækja vinnu um langan veg fái skattafslátt á móti ferðakostnaði. Þetta fyrirkomulag þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. á Norðurlöndunum, og því er tilvalið fyrir okkur Íslendinga að skoða hvað gefist hefur vel og taka upp þær aðgerðir. Þessi aðgerð mun án efa styrkja hin ýmsu atvinnusvæði landsins.
Auk þess viljum við skoða hvort hægt sé að hafa lægra tryggingagjald fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni sem hvata fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir til að færa starfsemi út á land. Auk þessa viljum við nýta skattkerfið á ívilnandi hátt fyrir íbúa landsins. Má þar helst nefna það að nýta námslánakerfið á ívilnandi hátt fyrir landsmenn. Það væri hægt að gera þannig að þeir sem fastráði sig til starfa, t.d. á heilbrigðisstofnunum þar sem skortur er á læknum eða öðrum sérfræðingum, fái afslátt af námslánum sínum. Þetta væri stórt skref í þá átt að auka aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu.
Það er gaman að segja frá því að þetta var eitt af fyrstu verkum hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, Gunnars Braga Sveinssonar, hjá Byggðastofnun eftir að hann tók við sem ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála í vor. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 6. október 2016.