Categories
Fréttir Greinar

Lausnir í stað loforða

Deila grein

14/10/2025

Lausnir í stað loforða

Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar ritar undarlega grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. október síðastliðinn. Þar gagnrýnir hann tillögu Framsóknar um að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Það er á mörkunum að grein Sigmars, sem virðist ekki mjög vandlega ígrunduð, sé svaraverð en þar er sleginn kunnuglegur tónn. Enda hafa þingmenn Viðreisnar og raunar fjármálaráðherra fremstur í flokki keppst við að misskilja inntak tillögunnar og markmið. Það er einkennileg pólitík Viðreisnar að vilja ekki ræða lausnir til að leysa vanda íslenskra heimila í því skjóli að það henti ekki pólitískri draumsýn, sem í núverandi ástandi ESB er svo gersamlega úr sér gengin að það er pínlegt á að horfa.

Vandinn

Íslensk heimili hafa of lengi búið við sveiflukenndan lánamarkað. Þegar stýrivextir hækka víkja óverðtryggð lán og verðtryggingin tekur yfir. Í dag eru um 2/3 nýrra íbúðalána verðtryggðir, sem þýðir að skuldir heimila með slík lán hækka í takt við verðbólgu.

Þetta er ekki sjálfbært kerfi og heldur ekki sanngjarnt gagnvart fólki sem vill einfaldlega öruggt og fyrirsjáanlegt húsnæðislán. Þessi veruleiki gerir enn fremur peningastefnu Seðlabankans bitlausa og tefur fyrir lækkun verðbólgu.

Í flestum löndum geta heimili valið löng fasteignalán á föstum vöxtum, og vita fyrir fram hvað þau greiða næstu 20-30 árin. Hér á landi er slíkur kostur ekki fyrir hendi – ekki vegna krónunnar, heldur vegna úrelts regluverks og ónógrar þróunar fjármálamarkaðarins.

Tillaga Framsóknar í hnotskurn

Tillaga Framsóknar gengur út á að skapa skilyrði fyrir óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma – svipuð og þekkjast víða á Norðurlöndum. Nýleg skýrsla dr. Jóns Helga Egilssonar, sem kynnt var í janúar, sýnir að þetta er fýsilegur og framkvæmanlegur kostur, ef stjórnvöld og markaðsaðilar vinna saman að breytingum.

Helstu lykilatriði eru þessi:

Endurskoða þarf reglur um uppgreiðslugjöld. Núverandi reglur letja bankana frá því að bjóða löng föst lán. Með einfaldri breytingu þar má auka fjölbreytni og samkeppni án þess að ríkið taki á sig áhættu.

Þróa markað fyrir vaxtaskiptasamninga. Með slíkum samningum geta bankar tryggt sér fasta fjármögnun til langs tíma – eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum – og þannig boðið neytendum stöðugri vexti.

Nýta styrk lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir geta fjárfest í sértryggðum skuldabréfum sem tengjast húsnæðislánum. Það lækkar fjármögnunarkostnað bankanna og skilar lægra vaxtastigi til heimilanna.

Heimatilbúinn vandi – og lausnir fyrir hendi

Þeir sem telja að krónan sé rót alls ills gleyma því að jafnvel innan evrusvæðisins eru vaxtakjör á húsnæðislánum mjög mismunandi milli landa. Þýskaland og Portúgal deila sama gjaldmiðli – en hafa gjörólík vaxtakjör. Það sýnir að gjaldmiðillinn einn ræður ekki úrslitum; regluverk, traust og hagstjórn skipta meira máli.

Við þurfum ekki að afsala okkur stjórn peningamála til að auka stöðugleika. Við þurfum einfaldlega að laga og bæta okkar eigið kerfi. Með markvissum lagabreytingum og aukinni samvinnu við lífeyrissjóði og fjármálageirann getum við byggt upp stöðugt, sanngjarnt og sjálfbært lánakerfi – í íslenskum krónum.

Lausnir í stað loforða

Við í Framsókn trúum á raunhæf skref sem bæta stöðu íslenskra heimila – núna, ekki eftir áratug í bið eftir aðildarviðræðum við ESB.

Evran leysir ekki sjálfkrafa húsnæðisvanda íslenskra fjölskyldna. Hún myndi taka frá okkur stjórn á vöxtum og gengisstefnu, án þess að tryggja betri kjör. Raunhæfar umbætur á innlendum fjármálamarkaði gera það hins vegar.

Við höfum öll tækin til að tryggja stöðugri greiðslubyrði, minnka vægi verðtryggingar og bjóða upp á lægri vexti fyrir íslensk heimili. Það krefst pólitísks vilja sem því miður ríkir ekki hjá núverandi ríkisstjórn.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.