Categories
Fréttir

Leiðsöguhundaverkefnið hefur að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra og sjónskertra

Deila grein

06/09/2019

Leiðsöguhundaverkefnið hefur að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra og sjónskertra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að leggja leiðsöguhundaverkefninu til þriggja milljóna króna styrk fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi. Tilefnið er að Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnaði áttatíu ára afmæli þann 19. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í grein hans í Morgunblaðinu á dögunum.
Blindrafélagið hefur frá upphafi unnið að hagsmunamálum blindra og sjónskertra auk þess að veita margvíslega þjónustu og standa fyrir öflugu félagsstarfi, fræðslu og jafningjastuðningi. Félagið hefur jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman með góðum árangri.
Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum leiðsöguhundaverkefnið á síðastliðnum tíu árum og sem stendur eru átta leiðsöguhundar hér á landi. Fimm koma fullþjálfaðir frá Svíþjóð og þrír eru fæddir og þjálfaðir hér á Íslandi.
„Hugmyndin er að flýta þannig fyrir framvindu verkefnisins. Þá hyggst ég stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komið hafa fram.“
„Hundarnir mættu hins vegar vera fleiri enda eru þeir afar mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra og þátttöku í samfélaginu,“ segir Ásmundur Einar, og bætir við „Blindrafélagið hefur alla tíð vakað yfir þörfum félagsmanna og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður þeirra. Leiðsöguhundaverkefnið er skýrt dæmi þess.“