Categories
Fréttir

„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“

Deila grein

12/02/2014

„Leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er“

Þingmenn Framsóknar slógu ekki slöku við í ræðustól Alþingis í gær þriðjudag og tóku upp hin ýmsu mál til umfjöllunar líkt og sjá má hér að neðan. Flutti m.a. Fjóla Hrund Björnsdóttir jómfrúarræðu sína og ræddi hugmynd um að leyft sé þegar tækifæri gefst að beygja til hægri þegar rautt ljós er, enda hafi það reynst vel í þeim löndum þar sem það sé leyfilegt.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: „Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um sýklalyf og áhrif þess á menn og dýr. Þetta er þörf umræða og ég hef lengi haft áhyggjur af því í hvað stefnir í þessum málum. Í Bændablaðinu fyrir um þremur vikum var góð samantekt á samspili sýklalyfja og matvæla. Það er áhugavert að skoða þessa umfjöllun um notkun sýklalyfja í samhengi við vaxandi kröfur hagsmunaaðila í verslunum á Íslandi sem eru að stórauka innflutning og losa um skilyrði er varða bæði frosið og ferskt kjöt frá Evrópu.“

 
Silja Dögg Gunnarsdóttir: „Atvinnuleysisdraugurinn hefur gert Suðurnesjamönnum lífið leitt um langa hríð. Nú hillir undir jákvæðar breytingar í þeim efnum. Ýmis atvinnuverkefni eru í undirbúningi og önnur eru nú þegar farin af stað. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði til dæmis fyrir skömmu fjárfestingarsamning við forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Algalíf. Algalíf er staðsett í Reykjanesbæ og framleiðir örþörunga. Úr þeim er unnið virka efnið astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur auk þess að vera neytt sérstaklega í hylkjaformi.“

 
Willum Þór Þórsson: „Samtökin Regnbogabörn hafa verið lögð niður. Það hefur ekki farið fram hjá okkur. Það hefur verið greint frá því í flestum miðlum undanfarna daga. Ástæðan er hefðbundin: Peningaskortur og enginn opinber stuðningur. Viðbrögðin eru sterk. Fólk tjáir sig meðal annars á fésbókarsíðu samtakanna og finnst fréttirnar hræðilegar og sorglegar. Viðbrögðin eru kannski ekki víðtæk en þau eru sterk. Einstaklingar þakka samtökunum bætt líf, hjálp við að komast út úr sálrænni áþján þunglyndis og hryllilegum afleiðingum eineltis.“

 
Þorsteinn Sæmundsson: „Fyrir um það bil þremur vikum fór fram hér í þingsal mjög góð umræða, sérstök umræða, um verslun og viðskipti í landinu og vöruverð og þar á meðal þá staðreynd að þrátt fyrir verulega styrkingu krónunnar undanfarin ár hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað. Umræðan var mjög góð og þörf en svo vill til að hennar var hvergi getið í nokkrum einasta fjölmiðli á Íslandi, það heyrðist ekki tíst um þessa umræðu. Ég velti fyrir mér af hverju. Meira að segja á RÚV, sem kallar sig fjölmiðil í almannaþágu, var ekki bofs um þetta mál. Ég velti fyrir mér hvort Ríkisútvarpið telji að umræða um hátt verð á innfluttum vörum, og það að þær lækki ekki þegar krónan styrkist, sé ekki frétt sem eigi erindi við almenning.“

 
Karl Garðarsson: „Flokksráðsfundur vinstri grænna um helgina sendi frá sér merkilega ályktun sem ég held að eigi erindi við alla. Með leyfi forseta, langar mig að lesa hana og er þetta ekki löng lesning.“

 
Fjóla Hrund Björnsdóttir: „Mikilvægt er að halda umferðinni gangandi og að umferðarmannvirki standist tímans tönn. Nú til dags þegar aukning á bílum á götum borgarinnar fer sífellt vaxandi og umferðin verður sífellt þyngri er rétt að leita leiða til að láta umferðina ganga betur en hún gerir.“

 
Haraldur Einarsson: „Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Fjólu Hrund Björnsdóttur sem sagði í jómfrúrræðu sinni áðan að leyfa ætti hægri beygjur á rauðu ljósi. Ég hef velt þessu fyrir mér í talsverðan tíma og komist að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður. Efasemdaraddir geta að sjálfsögðu vaknað og eru skiljanlegar.“