Categories
Fréttir

Lilja opnaði nýtt menningarhús á Austurlandi

Deila grein

27/09/2022

Lilja opnaði nýtt menningarhús á Austurlandi

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra opnaði Sláturhúsið formlega, nýtt menningarhús á Egilsstöðum í sveitarfélaginu Múlaþingi, en hún skrifaði undir samkomulag um framkvæmdina árið 2018.
Með tilkomu hússins batnar sviðlistaaðstaða og aðstaða til listsýninga til muna á svæðinu en nýr 247 fermetra svartur kassi (e. Black box) var meðal annars tekinn í gagnið sem mun nýtast listafólki til góðs bæði til sýninga og æfinga.

,,Ég er glöð og stolt að sjá þetta glæsilega menningarhús verða að veruleika. Það verður sannkölluð lyftistöng fyrir allt menningarlíf á Austurlandi og mun gera fjórðunginn betur í stakk búinn til þess að taka á móti fjölbreyttari menningarviðburðum, til að mynda frá Þjóðleikhúsinu. Við eigum að stuðla að fjölbreyttu menningarlífi um allt land og innviðir sem þessir skipta þar miklu máli. Ég óska íbúum Múlaþings og Austfirðingum öllum innilega til hamingju með nýja menningarhúsið,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Menningarhús hafa þegar risið eða verið stofnsett á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum en áform um uppbyggingu þeirra voru fyrst kynnt af þáverandi ríkisstjórn árið 1999. Ráðgert var í upphaflegum áformum um byggingu menningarhúsa að slík starfsemi yrði einnig á Norðvesturlandi og á Austurlandi. Samkvæmt samkomulaginu um byggingu hússins nam kostnaðarþátttaka ríkisins 60% á móti 40% hlut sveitarfélags líkt og við byggingu annarra menningarhúsa á landsbyggðinni. Þá kom Landsvirkjun einnig að framkvæmdinni en fyrirtækið mun standa fyrir sýningu í Sláturhúsinu um samspil samfélags og vistvænnar orku.

Á formlegri opnun hússins notaði ráðherra tækifærið og hrósaði Landsvirkjun fyrir aðkomu þess að eflingu menningar í landinu og talaði um mikilvægi þess að atvinnulíf styddi við menningarlíf.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 27. september 2022.

Mynd: Gunnar Gunnarsson/Austurfrétt