Categories
Fréttir

Loftslagsmarkmið Íslands – markmið, vilji, ábyrgð og aðgerðir!

Deila grein

27/04/2023

Loftslagsmarkmið Íslands – markmið, vilji, ábyrgð og aðgerðir!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir það miður að á sama tíma og stjórnvöld hafi sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og um að verða kolefnishlutlaus sé verið að nota milljón tonn af jarðefnaeldsneyti og aukin heldur sé raforkuöryggi ekki tryggt um land allt.

„Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess eigum við að vera orðin óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Til að markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast á árarnar með stjórnvöldum auk þess sem óumflýjanlegt er að huga að frekari orkuöflun með grænni orku. Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum, sagði Halla Signý.

Segir hún að umtalsverðar fjárfestingar verði að eiga sér stað, í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo að áskilnaði sé ná. Bendir hún á að ábyrgð allra verði að koma til, tími aðgerða sé runninn upp.

„Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að auka raforkuframleiðsluna,“ sagði Halla Signý.

Halla Signý kom einnig inn á kolefnislosun frá landbúnaði. Kallar hún eftir að farið verði í rannsóknir og kortlagningu á kolefnislosun í framræstu ræktarlandi. Losun í landbúnaði er metin töluverð, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna.

„Það þarf samtakamátt margra þátta til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er ekki til ein lausn en fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal,“ sagði Halla Signý að lokum.

***

Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær var haldinn opinn fundur hjá umhverfis- og samgöngunefnd um loftslagsmarkmið Íslands. Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess eigum við að vera orðin óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050. Til að markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast á árarnar með stjórnvöldum auk þess sem óumflýjanlegt er að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.

Virðulegi forseti. Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Ljóst er að það þarf umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo að þetta markmið náist. Við erum líka sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra á þessum markmiðum. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljón tonn af jarðefnaeldsneyti og raforkuöryggi er ekki tryggt um allt land. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að auka raforkuframleiðsluna.

Þá vil ég að lokum nýta tækifærið og minnast á kolefnislosun frá landbúnaði sem er metin töluverð en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Þessa losun þarf að rannsaka og kortleggja, sér í lagi kolefnislosun í framræstu ræktarlandi. Það þarf samtakamátt margra þátta til að ná árangri í loftslagsmálum. Það er ekki til ein lausn en fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal.“