Categories
Fréttir

Lögbundnar tímaviðmiðanir ekki virtar?

Deila grein

05/05/2020

Lögbundnar tímaviðmiðanir ekki virtar?

„Þegar kemur að leyfum í fiskeldismálum er oft tiltekið að bíða þurfi lengi eftir afgreiðslu á málum hjá Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í óundirbúnum fyrirspurn á Alþingi í gær.

„Það að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis gæti á þessu ári og til framtíðar haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningar á fleira fólki til starfa og það er það sem við þurfum á þessum tímum.“

Nýlega hefur sjávarútvegsráðherra gert átak til að stytta málsmeðferðartíma í útgáfu rekstrarleyfa fyrir fiskeldi og vildi Halla Signý fá svar við í framhaldi til hvaða ráðstafana umhverfis- og auðlindaráðherra megi grípa svo að lögbundnar tímaviðmiðanir séu virtar?

„Til að geta starfrækt fiskeldi þarf álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum að liggja fyrir og auk rekstrarleyfis frá MAST þarf starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvort hann hafi skoðað tímalengd leyfisveitinga í þessum stofnunum sem heyra undir hann, þ.e. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun, með tilliti til þessara aðgerða sem stjórnvöld vilja fara í. Til hvaða ráðstafanir má grípa til svo lögbundnar tímaviðmiðanir séu virtar.“

Umhverfis- og auðlindaráðherra viðurkenndi að „að í sumum tilfellum gætu ferlar verið of flóknir og í öðrum tilfellum taki það hreinlega langan tíma að afgreiða málin hjá stofnunum okkar sem er oft og tíðum vegna þess að þar er mannekla“. Bætti hann svo við að gæta verði þess að aðkoma umhverfisverndarsamtaka og almennings sé tryggð.

„En það er alveg skýrt að við viljum ekki ganga á rétt eins né neins heldur bara að hraða ferlinu til þess að við getum komið þessari vinnu af stað sem skiptir gríðarlega miklu máli hvað varðar að fá aukin útflutningsverðmæti og koma fleira fólki að til að vinna við þetta,“ sagði Halla Signý.