Categories
Fréttir

Mannréttindayfirlýsingin

Deila grein

12/12/2018

Mannréttindayfirlýsingin

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir, í störfum þingsins á Alþingi í gær, þau tímamót að að liðin séu 70 ár frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var undirrituð. „Heimsstyrjöldin síðari var nýlokið og heimurinn vildi gera betur. Helsti hvatamaður hennar var Eleanor Roosevelt stjórnmálakona og forsetafrú Bandaríkjanna. Hún var hvatamaður að stofnun Sameinuðu þjóðanna og hún var einnig fulltrúi sendinefndar Bandaríkjanna þar inni. Innan Sameinuðu þjóðanna barðist hún fyrir mannréttindum og réttindum flóttafólks sem hraktist frá heimkynnum sínum í styrjöldinni. Já, það er annar hljómur sem berst nú frá Hvíta húsinu,“ sagði Halla Signý.
Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, frá störfum þingsins 11. desember 2018.

„Mannréttindayfirlýsingin lýsir markmiðum og er ekki lagalega bindandi. Hún kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana o.s.frv. Sameinuðu þjóðirnar eru nú að vinna að tveimur mannréttindasamþykktum sem snúa að annars vegar að málefnum flóttafólks og hins vegar að málefnum farenda. Við erum svo heppin hér á Íslandi að stjórnvöld geta tekið þátt í og samþykkt slíkar yfirlýsingar þar sem þær fara saman við yfirlýsta stefnu núverandi stjórnvalda og stór hluti þjóðarinnar getur í hjarta sínu kvittað upp á þau mannréttindi.
Því er það beinlínis sorglegt að hlýða á þann málflutning sem er hér í boði Miðflokksins. Hann elur á tortryggni, andúð og beinlínis hroka. Nú skal blása lífi í skoðanakannanir og tala til atkvæða sem eru á flökti, það er líklega sama hvaðan gott kemur. Ég vil ganga svo langt að kalla þetta sparðatínslu.
Með aðkomu að samþykktum SÞ um málefni flóttafólks tökum við þátt í alþjóðlegum mannréttindaviðurkenningum og getum fylgt okkar sjálfdæmi um eigin innflytjendalöggjöf og stefnu í málefnum innflytjenda. Um þá gagnrýni sem snýr að því að umræða um þessi mál séu kæfð eða þokukennd og stjórnvöld vilji ekki ræða þessi mál, vil ég segja að við getum litið svo á að þetta sé einmitt sá grunnur sem umræðan á að byggja á,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir.