Categories
Fréttir

Mengunin sem eftir er í Kolgrafafirði er af mannavöldum

Deila grein

23/05/2017

Mengunin sem eftir er í Kolgrafafirði er af mannavöldum

,,Hæstv. forseti. Þegar náttúruvernd ber á góma eru allir sammála um að virðing og umgengni skuli vera í hávegum höfð. Gott og vel. Náttúran skal njóta vafans, sem algengt er að heyra. Þegar ég flutti mína jómfrúrræðu hér á Alþingi á haustdögum 2013 hafði ári áður gengið mikið af síld á fjörur í Kolgrafafirði, svo um munaði. Mín ræða snerist um hvað sagan segði okkur, en til eru heimildir aftur til fyrri hluta síðustu aldar um slíkan síldardauða með nokkuð reglulegu millibili, og hvernig brugðist var við veturinn 2011–2012.
Eitt af því sem ráðist var í og kostaði mikla fjármuni var að urða síldina eða hluta af henni í gryfjum við sjávarmálið. Á síðasta ári var gefin út niðurstaða athugunar á lífríkinu í firðinum frá þessum atburði. Sagði þar að lífríkið væri komið í eðlilegt horf nema hvað grútarmengun væri töluverð úr þessum gryfjum þar sem síldin var urðuð. Af þessu dæmi má ráða að náttúran sér um sig og ekki er alltaf gott að grípa þar inn í. Þessi mengun sem eftir er í Kolgrafafirði er af mannavöldum.
Eyjarnar á Breiðafirði eru margar og var búið á þeim mörgum í gegnum tíðina. Lifði fólkið í friði og sátt af því sem náttúran gaf. Það má segja að eyjunum hafi liðið vel í þeirri sambúð. Í dag eru flestar eyjar komnar í eyði. Á þeim eyjum sem ekki er sinnt er ástandið ekki gott. Mikil hvönn, njóli og annað illgresi auk uppfoks og ágangs sjávar. Einhverjar eyjar eru friðaðar og segja þeir sem til þekkja að þær séu illa farnar. Nokkrir frístundabændur eru farnir að láta fé í eyjar og þá hverfur illgresið og eyjar grænka á ný. Samspil mannsins við náttúruna með nýtingu og virðingu og þekkingu er það sem gefur lífinu gildi. Öfgar eru eitthvað sem náttúrunni gengur betur að höndla en okkur mannfólkinu.”
Sigurður Páll Jónsson í störfum þingsins, 23. maí 2017