Categories
Fréttir

„Menntun stuðlar að jöfnuði og er eitt mikilvægasta hreyfiaflið til framfara og betra lífs“

Skólafólk og nemendur í Fellahverfi í Breiðholti munu vinna saman að því að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna í Fellahverfi. Um er að ræða samstarfsverkefni til þriggja ára sem miðar að því að efla málþroska og læsi og breyta starfsháttum í leik- og grunnskólum og frístundaheimili hverfisins. Verkefnið er nú þegar komið á fullt skrið en að verkefninu koma félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsóttu Fellaskóla í gær og kynntu sér áherslur verkefnisins og hittu aðstandendur þess.

Deila grein

13/01/2021

„Menntun stuðlar að jöfnuði og er eitt mikilvægasta hreyfiaflið til framfara og betra lífs“

Skólafólk og nemendur í Fellahverfi í Breiðholti munu vinna saman að því að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna í Fellahverfi. Um er að ræða samstarfsverkefni til þriggja ára sem miðar að því að efla málþroska og læsi og breyta starfsháttum í leik- og grunnskólum og frístundaheimili hverfisins. Verkefnið er nú þegar komið á fullt skrið en að verkefninu koma félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsóttu Fellaskóla í gær og kynntu sér áherslur verkefnisins og hittu aðstandendur þess.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Menntun stuðlar að jöfnuði og er eitt mikilvægasta hreyfiaflið til framfara og betra lífs. Að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar er viðvarandi verkefni, og eitt af leiðarljósum nýrrar menntastefnu. Það öfluga fagfólk sem hefur hrundið verkefninu í Fellahverfi af stað þekkir mátt samvinnu og gagnreyndra aðferða og starfar að skýrum markmiðum. Ég hlakka til að fylgjast með þessu verkefni dafna og bind vonir við að margir munu njóta góðs af því.“

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra:
„Menntun er lykill til betri framtíðar og við viljum að öll börn hafi jöfn tækifæri til þess að mennta sig. Eftir því sem bakgrunnur barna í leik- og grunnskólum verður fjölbreyttari er mikilvægt að við leggjum áherslu á það að öllum nemendum líði vel í skólanum og skilji það sem þar fer fram. Þetta verkefni er gríðarlega spennandi og það verður gaman að fylgjast með framvindu þess.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri:
„Þetta er jákvætt og gott verkefni sem við fórum af stað í með ráðuneytunum til þess að efla enn frekar íslenska málvitund og málþroska hjá krökkunum í Fellaskóla. Við höfum verið með sérstakan fókus á skólann á undanförnum árum og fjöldi góðra verkefna þar í gangi sem lýtur að málþroska, læsi og eflingu móðurmáls og íslenskrar málvitundar. Það er því fagnaðarefni að fá ráðuneytin að borðinu ásamt Menntavísindasviði Háskóla Íslands.“

Starfsfólk leikskólanna Aspar og Holts, Fellaskóla og frístundaheimilisins Vinafells vinna saman að því að bæta námsárangur og líðan nemenda en markmið verkefnisins eru meðal annars:

  • Auka hæfni leik- og grunnskólanemenda í íslensku.
  • Efla læsi, sérstaklega málörvun, málþroska, orðaforða og lesskilning nemenda með annað móðurmál en íslensku.
  • Efla snemmbæran stuðning, samstarf og samfellu milli leik- og grunnskóla og frístundaheimila.
  • Stuðla að bættri líðan nemenda og virkni í námi.
  • Efla þekkingu starfsfólks leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt á þessu sviði.

Til þessa fær starfsfólkið fjölbreyttan stuðning og liðsinni, m.a. frá Menntavísindasviði H.Í. með faglegri ráðgjöf lestrarfræðings og aðkomu að mati á verkefninu.

Verkefninu er ætlað að stuðla að jöfnum tækfærum barna Fellahverfis og annarra barna á Íslandi til menntunar en gert er ráð fyrir að á síðasta ári verkefnis verði haldin starfsþróunarnámskeið fyrir kennara og starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt, sem byggja á niðurstöðum og reynslu af verkefninu.

Heimild: stjornarradid.is