Categories
Fréttir

Metfjöldi á Mannamótum ferðaþjónustunnar

Deila grein

08/02/2023

Metfjöldi á Mannamótum ferðaþjónustunnar

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti Mannamót, ferðakaupstefnu Markaðsstofa landshlutanna, sem haldið var í Kórnum í Kópavogi á dögunum. Viðburðurinn er sá stærsti sem haldinn er í íslenskri ferðaþjónustu en á annað þúsund manns sótti kaupstefnuna í ár, sem er metfjöldi.

Mannamót markaðsstofanna eru hugsuð sem kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og veitir landsbyggðarfyrirtækjum færi á að kynna starfsemi sína fyrir ferðaþjónustuaðilum sem eru staðsettir víðs vegar um landið. Um 250 fyrirtæki frá öllum landshlutum kynntu starfsemi sína á Mannamótum í ár.

„Það er ánægjulegt að sjá hve margir voru mættir á Mannamót ferðaþjónustunnar í ár og ljóst að það er mikill hugur í fólki. Ísland hefur upp á mikið að bjóða um allt land, allt árið um kring og gaman að sjá hve spennandi og fjölbreyttar leiðir hafa skapast í vetrarferðaþjónustu um allt land síðustu misseri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Clea Braun viðskiptastjóri hjá Condor og Arnfríður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. - mynd

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Clea Braun viðskiptastjóri hjá Condor og Arnfríður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Á viðburðinum hitti Lilja meðal annars Cleu Braun, viðskiptastjóra hjá þýska flugfélaginu Condor sem er fyrsta erlenda flugfélagið sem hefur tilkynnt um reglubundið beint flug frá Frankfurt til bæði Egilsstaða og Akureyrar. Flugþróunarsjóður hefur gert samning um að styrkja Condor í því verkefni en markmið sjóðsins er að byggja nýjar flugleiðir til Íslands í gegn um aðra flugvelli en Leifsstöð. Condor mun fljúga beint til Egilsstaða og Akureyrar frá maí til október 2023.

Þá mun svissneska flugfélagið Edelweiss Air fljúga beint til Akureyrar frá Zurich í sumar og hyggur á aukið flug þangað í framtíðinni. Félögin bætast við þau sem fljúga þangað fyrir en hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur verið með leiguflug frá Hollandi til Akureyrar frá árinu 2019 og þá hóf flugfélagið Niceair beint áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife sumarið 2022.

Markaðsstofur landshlutanna eru sex talsins, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Reykjanesi og á Suðurlandi. Hlutverk þeirra er að samræma markaðs- og kynningarmál í ferðaþjónustu og sinna vinnu við vöruþróun í ferðaþjónustu. Þær starfa með um 900 fyrirtækjum og sveitarfélögum um land allt.

Heimild: stjr.is