Categories
Fréttir

Mikil stækkun á núverandi friðlandi Þjórsárvera

Deila grein

15/01/2014

Mikil stækkun á núverandi friðlandi Þjórsárvera

Sigurður Ingi Jóhannsson
Stefnt er að mikilli stækkun friðlands í Þjórsárverum. Núverandi friðland er 358 km² en tillagan gerir ráð fyrir að friðlandssvæðið verði 1558 km². Náttúruverndarlögin kveða á um að Umhverfisstofnun annast undirbúning friðlýsingar og gerð draga að friðlýsingarskilmálum og leggur fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Tillaga um þessi nýju mörk friðlandsins, sem unnið hefur verið að undanfarna mánuði, var send í desember 2013 til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásahrepps.
Ferill málsins
Árið 2007 náðist sameiginleg niðurstaða sveitarfélagana um talsvert minna friðland en síðari útfærslur sem komu fram í náttúruverndaráætlun 2009-2013. Til að rekja málið áfram þá samþykkti fyrrverandi ríkisstjórn í ágúst 2009 að hefja undirbúning að stækkun friðlandsins í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd.
Endanleg tillaga náttúruverndaráætlunar 2009-2013 var samþykkt í nóvember 2009 og var lagt til að friðlandsmörkin nái nokkuð sunnar en sameiginlega niðurstaðan með fulltrúum sveitarfélaga og Umhverfisstofnunnar kvað á um frá 2007.
Eftir að niðurstaða rammaáætlunar lá fyrir í janúar 2013 var ákveðið að mörkin skuli ná suður fyrir fyrirhugað Norðlingaölduveitulón. Ljóst var þá að ekki næðist sameiginleg niðurstaða hjá viðkomandi sveitarfélögum, að mörk til suðurs yrðu ekki samþykkt nema sérstakt rekstrarfé fylgdi með. Fallist var á stækkun til suðurs nokkrum dögum fyrir kosningar sl. vor og þáverandi umhverfisráðherra lýsti yfir vilja að leggja fram 28 m.kr. til uppbyggingar fyrir utan friðlandið. Auk þess hafði verið ákveðið áður að setja 40 m.kr. í rekstur og uppbyggingu á friðlandssvæðinu.
Umhverfisstofnun, að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið, sendi breytta friðlýsingartillögu til áðurnefnda sveitarfélaga til skoðunar í desember 2013.  Ástæðan var sú að í kjölfar ábendinga sem fram komu í sumar við lokafrágang um afmörkun svæðisins var gegnið lengra en næmi Norðlingaöldukosti sem settur var í verndarflokki í 2. áfanga. Mörkin hefðu þannig útilokað aðra hugsanlega kosti fyrir utan friðlandið sem á eftir að skilgreina, meta og flokka og komu upp álitamál varðandi lögmæti slíks gjörnings. Hins vegar er ekki gengið lengra en svo samkvæmt lögum um vernd og orkunýtingu að virkjunaraðili getur skilgreint nýjan orkukost utan friðlýsta svæðisins til mats í rammaáætlun í framtíðinni. Til hvers það mat mun leiða mun framtíðin leiða í ljós.
Sveitarfélögin hafa tekið málið fyrir og er ákvarðanatöku í öðru sveitarfélaginu frestað þar til fyrir liggur nákvæm afmörkun Norðlingaölduveitu 566-567,5 m.y.s. sem er í verndarflokki og í hinu var hún samþykkt með fyrirvörum um að  með fylgi rekstrarfé.
Næstu skref
Til að komast hjá því að mál af þessu tagi komi upp þá hefði verið hentugra ef nákvæm afmörkun hvers virkjunarkosts í verndarflokki kæmi fram í þingsályktun um áætlun um vernd- og orkunýtingu landsvæða. Gera má umbætur sem má skýra með reglugerð og munu vonandi verða til þess að styrkja rammaáætlun svo sátt megi nást um hana til þess að takast á við þessi máli til framtíðar. Það getur verið umdeilanlegt en þannig er það. Jafnframt þarf að skoða hvort heppilegt sé, líkt og unnið hefur verið með stækkað friðland, að blanda saman ákvörðunum á grundvelli náttúruverndaráætlunar og rammaáætlunar.
Friðlýsing á grundvelli náttúruverndaráætlunar kallar á miklu fleiri og víðtækari sjónarmið og samráð til að friðlýsing nái fram að ganga meðan heimild til rammaáætlunar snýst um vernd gegn orkunýtingu. Þetta hef ég áhuga á að láta skoða og er að skoða innan umhverfisráðuneytisins.
Ég vona að um þessa friðlýsingu geti náðst góð sátt við sveitarstjórnina á svæðinu svo að hægt verði að ganga frá þessari miklu stækkun á friðlandi Þjórsárvera og stofnun þessa glæsilega friðlands.
 
***
Kort af Þjórsárverum.