Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í gær að rétt viðbrögð ráði mestu um áhrif áfalla. „Yfirvofandi hættu þarf að mæta með mikilli röggsemi, en einnig er mikilvægt er að horfa á samhengi hlutanna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í baráttunni við kórónaveiruna sem orsakar COVID-19 snýr að heilsuvernd, enda nauðsynlegt að hefta útbreiðslu hennar.“
Menntakerfið: Kennsla heldur áfram
„Eitt mikilvægasta samfélagsverkefnið á þessum tímapunkti er að tryggja að skólastarf raskist sem minnst. Skólastjórnendur og kennarar hafa sýnt mikla yfirvegun við þessar óvenjulegu aðstæður, þar sem markmiðið er að halda uppi starfseminni eins lengi og unnt er. Í uppfærðum áætlunum skólanna er gert ráð fyrir ýmsum aðstæðum; hlutverki kennara í fjarkennslu og heimanámi ef samkomubann tekur gildi, líðan nemenda og stuðningi við þá sem mest þurfa á að halda. Vonandi þarf ekki að grípa til þeirra aðgerða sem hafa verið undirbúnar, en það er mjög traustvekjandi að vita af þeirri undirbúningsvinnu sem þegar hefur verið unnin,“ segir Lilja Dögg í grein í Morgunblaðinu í gær.
Veturinn er að hopa og fram undan eru jafndægur að vori. Ég er sannfærð um að í sameiningu náum við tökum á COVID-19. Við verðum að forgangsraða í þágu samfélagsins, því eins og John Stuart Mill sagði: „Þegar til lengdar lætur, veltur gildi ríkisins á manngildum þegnanna.“