Categories
Fréttir

Sigurður Ingi þakkar viðbragðsaðilum og almenningi fyrir viðbrögðin

Deila grein

11/03/2020

Sigurður Ingi þakkar viðbragðsaðilum og almenningi fyrir viðbrögðin

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í gær að kortlagning sé í gangi um auknar hafnarframkvæmdir til að byggja undir framtíðartekjur og útflutning. „Í fluginu erum við að horfa til öryggissjónarmiða og að opna fleiri gáttir til landsins. Í vegaframkvæmdum eru fjölmörg verkefni tilbúin og hægt að klára á styttri tíma. Á næstunni mun ég leggja fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem getur stuðlað að enn öflugri fjárfestingargetu til framtíðar.“
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær aðgerðir til að bregðast við kólnun í íslensku efnhagslífi og áhrifum af COVID-19 veirunni. Það eru fordæmalausar aðstæður þar sem óvissan er mikil. Ljóst er að forsendur fjármálastefnunnar eru brostnar og ný áætlun væntanleg um miðjan maí. Sigurður Ingi kynnti, ásamt forystumönnum hinna stjórnarflokkanna, tillögur á fundi í Ráðherrabústaðnum. Þær fela það meðal annars í sér að veita á fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
Sigurður Ingi þakkaði viðbragðsaðilum hvernig tekið hefði verið á útbreiðslu COVID-19 veirunnar og almenningi fyrir viðbrögðin. Hann ítrekaði að fólk ætti að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi innan breyttra aðstæðna en taka tillit til regla og leiðbeininga heilbrigðisyfirvalda um smitvarnir og hreinlæti. Hann treysti heilbrigðiskerfinu til að takast á við heilbrigðisvána en aðgerðir ríkisins væru miðaðar að því að taka utan um fyrirtækin í landinu.