Categories
Fréttir

Mikilvægt að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið

Deila grein

08/11/2013

Mikilvægt að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið

Sigurður Ingi JóhannssonMeginumræðuefni VIII. Umhverfisþings var skipulag lands og hafs, sjálfbær þróun og samþætting verndar og nýtingar.
Þingið hófst með ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem fjallaði m.a. um skipulag sem mikilvægt stjórntæki til að samræma ólíkar kröfur og sjónarmið, meðal annars um auðlindanýtingu, atvinnuþróun og umhverfisvernd. Ríkulegar auðlindir landsins þurfi að nýta af skynsemi ef takast eigi að tryggja velferð og hagsæld í landinu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Benti ráðherra á að brýnt sé orðið að hefjast handa við að ná á heildstæðan hátt yfir einstaka þætti landnotkunar, s.s. landgræðslu, ferðaþjónustu og afþreyingu, friðlýst svæði og náttúruvernd, orlofshúsabyggð, sauðfjár- og hrossabeit, túnrækt, kornrækt, repjurækt, skógrækt og endurheimt votlendis. Því sé stefnt að því að gerði verði landnýtingaráætlun sem verði hluti Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Ráðherra kom einnig inn á skipulagsmál hafsins, vernd og nýtingu sem einnig eru til umfjöllunar á þinginu.
Aðalræðumaður Umhverfisþings var Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sem fjallaði um skipulag í víðu samhengi og sjálfbærar lausnir í því sambandi. Unnið var í tveimur málstofum, þar sem annars vegar verður rætt um sjálfbæra landnýtingu og hins vegar skipulag haf- og strandsvæða.
OSystkynin Birta María og Ágúst Jónsbörn úr Grenivíkurskóla kynntu starf barnanna í Grænfánaverkefninu en Grenivíkurskóli hefur nú hlotið Grænfánann fjórum sinnum. Umhverfissáttmálinn sem börnin í Grenivíkurskóla sömdu fólu í sér samtal við sveitarfélagið og íbúa þess sem skilað hefur miklum árangri.
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands flutti framsögu um framtíðarsýn og skipulag varðandi vernd og nýtingu lands og Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri á Skipulagsstofnun, fór með framsögu um ný tækifæri í skipulagi hafs og stranda. Þessi tvö málefni voru svo meginþemu málstofa eftir hádegi þar sem fjölmörg sjónarmið komu fram í stuttum erindum og umræðum þinggesta.
Erindi og innlegg þinggesta verður mikilvægt veganesti fyrir áframhaldandi vinnu og stefnumótun í þessum málaflokkum.
Vel á fjórða hundrað manns sátu þingið.
Tenglar:
https://www.umhverfisraduneyti.is/umhverfisthing-2013/