Categories
Fréttir

Mikilvægt er að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum grunnskólabörnum

Deila grein

13/10/2015

Mikilvægt er að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum grunnskólabörnum

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Talið er að um 15–20% barna eigi í geðrænum vanda á hverjum tíma og að um 5% þurfi sérfræðiþjónustu. Á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar, BUGL, eru nú rúmlega 770 börn til meðferðar á aldrinum 4–17 ára. Þrátt fyrir þennan fjölda eru 120 til viðbótar á biðlista.
Þetta kemur fram í fyrsta hluta greinaflokks um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Í fyrra voru bráðakomur á BUGL nánast ein á dag alla daga ársins og hér er ég bara að tala um bráðakomur. Undir það flokkast til dæmis sjálfsvígshugsanir og depurð. Heildarkomur á deildina í fyrra voru um 6.500.
Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að stefnuáætlun í geðheilbrigðismálum. Síðastliðin tvö ár hefur undirritaður verið í hópi þingmanna sem hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum börnum og að þau sem þurfi aðstoð fái hana.
Velferðarnefnd þingsins vísaði málinu til ráðuneytisins í sumar þar sem ráðherra og starfsmenn hafa brugðist við af ábyrgð. Því má búast við að í nýrri geðheilbrigðisáætlun verði gert ráð fyrir að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum grunnskólabörnum. Þetta eru afar góð tíðindi því að algengt er að börn einangrist vegna kvíða og þunglyndis, flosni upp úr skóla, einangrist félagslega og verði jafnvel óvinnufær til framtíðar. Það eru líka mörg dæmi um sjálfsvíg. Andleg veikindi eru ein helsta ástæða brotthvarfs úr framhaldsskóla.
Þeim fjármunum sem fara í þetta verkefni er vel varið. Sparnaður í þessum málaflokki er dýr, ekki bara fyrir einstaklinga heldur samfélagið í heild sinni. Því ber að fagna hvernig tekið er á málinu, auk þess sem Morgunblaðið á hrós skilið fyrir að vekja athygli á því.“
Karl Garðarssoní störfum þingsins 6. október 2015.