Categories
Fréttir

„Mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa“

Deila grein

21/10/2015

„Mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa“

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Nú hafa borist þær fréttir að kröfuhafar Glitnis hyggist bjóða ríkinu Íslandsbanka til að uppfylla stöðugleikaskilyrði. Þessari breytingu á afstöðu kröfuhafa ber að fagna. Þessi niðurstaða að ríkið taki Íslandsbanka yfir virðist betri en það sem áður var boðið. Fyrri tillaga þeirra fól í sér möguleika á að erlendir aðilar mundu eignast bankann. Þá hefði stór hluti af söluvirði bankans og arðgreiðslur úr honum væntanlega farið úr landinu og skapað meiri þrýsting á greiðslujöfnuð til langs tíma. Ef þetta gengur eftir þýðir það væntanlega að greiðslujafnaðaráhrif af mögulegum arðgreiðslum næstu árin hverfa og þessar mögulegu arðgreiðslur falla þá í staðinn til ríkissjóðs á þeim tíma sem ríkið á bankann. Það þýðir einnig að mögulegt framtíðarsöluvirði bankans rennur til ríkisins en ekki til kröfuhafa. Það er ávinningur af hvoru tveggja fyrir ríkið. Að sjálfsögðu á eftir að fara betur yfir þessa tillögu, en við fyrstu sýn virðist hér vera betri kostur á borðinu en kom fram í sumar.
Ef þetta verður raunin er mikilvægt að faglega verði staðið að öllu sem tengist rekstri og framtíðarsöluferli bankans. Stjórnvöld hafa hvergi hvikað frá þeim markmiðum sem kynnt voru í vor þegar haftaafnámsáætlunin var gerð opinber. Tilgangur þessarar áætlunar er að losa um höft án þess að stefna efnahagslegum stöðugleika í hættu, sem sé að taka á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins sem til kominn er vegna slitameðferðar þrotabúanna. Þannig er það ekki markmið í sjálfu sér að skapa tekjur fyrir ríkissjóð eða refsa slitabúunum fyrir þátt sinn í bankahruninu.“
Karl Garðarsson — í störfum þingsins  20. október 2015.