Categories
Fréttir

Náttúruverndarlög – endurskoðun

Deila grein

21/10/2013

Náttúruverndarlög – endurskoðun

ege-jokulsarlonid
Í undirbúningi er innan umhverfisráðuneytisins að mynda hóp með sérfræðingum og fagaðilum til að endurskoða náttúruverndarlög nr. 60/2013. Umhverfisráðherra mun leggja frumvarp til endurskoðaðra laga fyrir Alþingi áður en lög nr. 60/2013 taka gildi.
Markmiðið verður að ná sem víðtækastri sátt um lögin og ná lausnamiðari sátt sem yrði til jákvæðra breytinga fyrir okkur öll sem una okkar fallega landi sem og hinna fjöldamarga ferðamanna sem til landsins koma. Lögð verður áhersla á að horfa á málið út frá lausnum, hugsa fram á við og setja sér eftirsóknarverð markmið. Í þeirri vinnu verður tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram um að ekki hafi verið nægjanlegt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila. Það þarf að fara í vinnu með ýmis sjónarmið t.d. skógræktarinnar, sveitarfélaganna, Ferðafrelsis og Landsambands landeigenda.
Tryggja þarf nægilegt samráð við fjölmarga aðila og sérfræðinga við vinnuna. Fara vel yfir athugasemdir sem bárust og ekki var tekið tillit til. Frumvarpið fékk afar knappan tíma til umfjöllunar og á endanum fannst lausn sem enginn var fyllilega sáttur við og var það afgreitt undir lok þingsins undir mikilli tímapressu.
Helstu ágreiningsefni snérust að ákvæðum um almannarétt, umferð um hálendið og óskýrar orðaskilgreiningar. Heildstæðari sýn þarf að vera á umhverfismál í lagaumhverfinu, einnig snerist gagnrýnin um ákvæði um framandi tegundir, heimild til að tjalda, hlutverki einstakra stofnanna við framkvæmd laganna og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þá þarf að stíga viðráðanleg skref, hvað kostnað varðar.
Verður hér gerð grein fyrir nokkrum athugasemdum sem þarf að skoða frekar.

Eignarréttur – almannaréttur.

Vernd eignarréttar og umráðaréttur landeigenda yfir landi sínu er mikilvægur grundvallarréttur sem ber að vernda, en með sama hætti er nauðsynlegt að tryggja eðlilegan rétt almennings og ferðafólks til að njóta náttúru landsins, svo fremi að ekki sé gengið á rétt og hagsmuni landeigenda með spjöllum, ónæði eða öðru slíku. Augljóst er að hér er um að ræða vaxandi vandamál víða um landið, samhliða mikilli fjölgun ferðamanna. Hér er um að ræða viðfangsefni sem leiða þarf til lykta með víðtækara og nánara samráði við landeigendur, útivistarsamtök, ferðaþjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila svo að löggjöfin og breytingar á henni verði ekki uppspretta endalausra deilna á komandi árum.

Umferð hjólreiðamanna.

ege-umferdinÍ lögunum segir: „Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er.“
Sífellt fleiri nýta sér fjallahjól til ferðalaga og útivistar. Hjólin eru orðin mun betri en áður og fleiri geta nú hjólað erfiðar fjallahjólaleiðir. Það má velta því fyrir sér hvort hjólreiðar fara nokkuð verr með stíga, þegar allt er tekið með í reikninginn eða annað í náttúrinni heldur en umferð gangangi fólks. Lítið er um skipulagða reiðhjólastíga á hálendinu og því er búið að útiloka þennan ferðamöguleika. Koma verður til móts við þennan hóp.

Akstur utan vega.

Öllum er ljóst hvaða skaða akstur utan vega getur valdið fyrir náttúru landsins, skýrar reglur þurfa því að vera um akstur utan vega. Útfæra þarf slíkt vel svo það gangi upp bæði lagalega og í framkvæmd. Mikil gagnrýni hefur komið frá útivistarfólki, vönum ferðamönnum og bændum, sem vel þekkja til aðstæðna og bera mikla umhyggju fyrir náttúru landsins.
Margir umsagnaraðilar hafa gagnrýnt það að í lagatexta komi ekki skýr ákvæði um undanþágur vegna aksturs utan vega. Það er mikilvægt að slíkar undanþágur sé skýrar og að þær séu samdar í samráði við þá aðila sem málið varða. Fjölmargir aðilar þurfa starfs síns vegna að aka utan vega og yfirleitt er um að ræða akstur á léttum fjórhjólum sem ekki skemma land sé þeim ekið af skynsemi. Dæmi sem okkur er öllum umhugað um er að björgunarsveitir séu ávallt í stakk búnar til að bjarga öllum í krefjandi aðstæðum, hvar og hvenær sem er. Útköll björgunarsveita á hálendinu hafa margfaldast með tilkomu vaxandi útivistar almennings sem og ferðamanna sem sækja okkur heim. Skv lögum þessum fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. Æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eru mikilvægur þáttur í starfsemi þeirra og getur reynsluleysi við raunverulegar aðstæður verið dýrkeypt. Mikilvægt er að björgunarsveitum sé veitt rýmri heimild til æfinga utan vega.

ege-thjodveginumKortagrunnur um vegi og vegslóða.

Í lögunum segir að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um gerð kortagrunns þar sem merktir skulu vegir og vegslóðar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum um.
Mikil gagnrýni og tortryggni hefur komið fram og snúast áhyggjurnar um hömlur á ferðafrelsi sem eru ekki í samræmi við ferðavenjur um náttúru landsins. Menn hafa farið um hálendið um árabil, til að njóta landsins og náttúrinnar en ekki til að skaða hana. Fara þarf betur yfir hvernig menn ætla að nálgast markmiðið. Hugsa í lausnum. Eins og lagt er upp með í lögunum þá er hættan sú að slóðar sem eru settir inn verða öllum kunnir, það þýðir meiri átroðning og þá er markmiðið fallið um sjálft sig og engin náttúruvernd í því. Einnig hafa menn áhyggjur af því að mat á refsinæmi sé óraunhæft og of þrengjandi að byggja á því að tæmandi séu allir þeir vegir og slóðar sem heimilt er að aka um. Skilja verði eftir svigrúm fyrir þá sem ferðast um landið til að taka tillit til aðstæðna hverju sinni og á hverjum stað um leið og lögð sé á þá almenn kvöð um að virða náttúru landsins og valda ekki skaða á viðkvæmri náttúru.

Óskýrar orðaskilgreiningar.

Ýmsar orðaskilgreiningar eru óljósar, villandi og eða rangar, úr því þarf að bæta. Óskýr lagasetning skilar ekki tilsettum árangri, leiðir til ágreinings og færir dómstólum aukin völd.
Dæmi:

  • 5. töluliður 5. gr.  Ræktað land: Land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Skóglendi telst ræktað land þangað til trén hafa náð þeim þroska að venjuleg umferð sakar ekki. Ýmsar spurningar vakna hér. Hættir skóglendi að vera ræktað land þegar trén hafa náð þroska? Hvað með land sem er nýtt til beitar fyrir búfénað, t.d. hross og nautgripi, og ætti því að flokkast sem „ræktað land“ eða land í notkun? Í þessum lögum væri til dæmis heimild tjöldun almennings til skamms tíma á slíkum landsvæðum enda væri þetta svæði flokkað sem „óræktað land“. Það er mikilvægt að skilgreina hvað er óræktað land. Skynsamlegra væri að nota hugtökin nytjaland og land sem ekki er nytjað í stað orðanna ræktað og óræktað land.
  • 28. töluliður 5. gr. Þéttbýli: Svæði afmarkað með sérstökum merkjum sem tákna þéttbýli. Virðist eingöngu miða að því að skilgreina hvar þéttbýli endar við þjóðvegi en eðli málsins skv. hlýtur það að vera þar sem byggðin endar. Eðlilegra væri að vísa til samþykkts skipulags.
  •  Í kafla IV Almannaréttur, útivist og umgengni. 25. gr. Takmörkun umferðar. „Umhverfisstofnun getur í verndarskyni takmarkað umferð um eða lokað svæðum í óbyggðum ef hætta er á verulegu tjóni af völdum ágangs á svæðið.“ Þegar svona tilvik koma upp þá þarf að hafa samráð við sveitarfélög áður en ákvörðun er tekin.
  • Í VI. kafla um Náttúruminjaskrá. 37. gr. Réttaráhrif skráningar minja á náttúruminjaskrá. „Ráðherra er heimilt að kveða á um tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi náttúruminja sem teknar eru á framkvæmdaáætlun (B-hluta).“ Sama sagan, vantar að tryggja aðkomu sveitarfélaga.
  • Í X. kafla um Vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda. 57. gr. 3. mgr. Sérstök vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Orðalag getur orðið til þess ákvarðanir sveitarfélaga geta verið kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg. Orðalagið má ekki verða til þess að nánast allar ákvarðanir sveitarfélaga um leyfisveitingar verði kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg.

Fleiri greinar skarast á við skipulagsvald sveitarfélaga. Lögin varða þau á margan hátt og sveitarfélögin eru dæmi um aðila sem hefðu átt að koma fyrr að málinu heldur en þau gerðu.