Categories
Fréttir

Nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju með sanngirni og heildarsýn að leiðarljósi

Deila grein

15/11/2013

Nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju með sanngirni og heildarsýn að leiðarljósi

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir frumvarpi á Alþingi í vikunni um að settar verði nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju. Er það gert vegna þeirrar ákvörðunar þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála, Jóns Bjarnasonar, að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar frá og með fiskveiðiárinu 2010–2011. Sigurður Ingi fór yfir að það sé engin launung að styr stóð um þá ákvörðun á sínum tíma að gefa veiðarnar frjálsar. Því var haldið fram að aðrir kostir hefðu verið nærtækari til að bregðast við þeim aðstæðum eða þeirri gagnrýni sem á þeim tíma lá fyrir um veiðarnar. Sagði hann jafnframt að því hafi einnig verið haldið fram að ákvörðunin hafi verið á gráu svæði lagalega.
Sigurður Ingi sagði Alþingi verði að líta með sanngirni og af heildarsýn á þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi við veiðarnar og leysa úr þeim veruleika sem þarna skapaðist. Hér er um algjörlega einstaka stöðu að ræða innan fiskveiðistjórnarkerfisins og einangrað úrlausnarefni.
Endurtökum ekki fyrri mistök
„Frjálsar veiðar hafa leitt til of mikils sóknarþunga, offjárfestinga nýrra aðila í ótryggu umhverfi og er þá ekki tekið tillit til þeirra fjárfestinga sem um leið standa vannýttar hjá þeim útgerðum sem fyrr höfðu lagt í þær fjármuni. … Þeirri staðreynd verður þó ekki breytt að eins og staðan er núna mun rækjustofninn, sem því miður er í lægð, ekki standa undir fjölbreyttri atvinnu víðs vegar um landið, sama hvaða leið væri farin. Við þurfum að leita annarra leiða í þeim efnum og er það verðugt og mikilvægt verkefni.“
Með frumvarpinu er lagt til að „með hliðsjón af markmiðum laga um stjórn fiskveiða þykir eðlilegt að taka annars vegar ríkt tillit til þeirra sem ráða yfir fyrri hlutdeildum í úthafsrækju, ekki síst í því ljósi að ella væri grafið mjög undan þeirra langtímahugsun sem er aðalsmerki hlutdeildarkerfisins. Hins vegar þykir rétt að horfa til þess að það umhverfi sem varð til með frjálsum veiðum á úthafsrækju hefur laðað nýja aðila til veiðanna sem gefið hafa kröftum sínum viðnám við að byggja upp framleiðslutæki og aðstöðu,“ sagði Sigurður Ingi ennfremur.
Laugarvatnsyfirlýsingin kveður á um að grundvöllur fiskveiðistjórnar verði aflamarkskerfið
Í frumvarpinu er málamiðlun um hvernig verði náð því marki að tryggja að veiðarnar komi aftur undir aflamarksstýringu samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Það er í samræmi við Laugarvatnsyfirlýsinguna, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að grundvöllur fiskveiðistjórnar verði aflamarkskerfið. Það horfir til farsældar að þetta frumvarp verði afgreitt af Alþingi áður en við tökumst á við næsta skref í þeirri vinnu að efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar með boðuðu frumvarpi um innleiðingu svonefndrar samningaleiðar í sjávarútvegi sem nú er unnið að í ráðuneyti sjávarútvegsmála.
Rækjustofninn við Snæfellsnes verði sjálfstæður veiðistofn
Mikilvægt er að horfa til þess að með frumvarpinu er lagt til að rækjustofninn við Snæfellsnes, þ.e. í Kolluál, Jökuldjúpi og sunnanverðum Breiðafirði, verði hlutdeildarsettur sérstaklega og þannig meðhöndlaður sem sjálfstæður veiðistofn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Er það að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem um árabil hefur veitt sérstaka ráðgjöf um þennan stofn sem þó hefur verið veiddur undir aflamarki úthafsrækju. Það er mikilvægt vegna þess að þótt Kolluáll og Jökuldjúp heyri til úthafsrækjuveiðisvæða telst rækjan þar ekki líffræðilega til úthafsrækju heldur er hún af sama stofni og rækjan í sunnanverðum Breiðafirði. Af þeim ástæðum er eðlilegt að hún verði meðhöndluð sem sjálfstæður veiðistofn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.