Categories
Fréttir

Ofanflóðavarnargarður vígður á Bíldudal

Deila grein

12/08/2016

Ofanflóðavarnargarður vígður á Bíldudal

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði formlega snjóflóðamannvirki við Búðargil á Bíldudal í gær.  Þar með er lokið fyrsta áfanga ofanflóðavarna á Bíldudal.
Hættusvæði vegna ofanflóða nær til nokkuð stórs hluta byggðarinnar á Bíldudal.  Enn er ólokið framkvæmdum við varnir við Stekkjargil eða Gilsbakkagil og undir svokölluðum Milligiljum. Þar er unnið að endurskoðun á fyrirkomulagi fyrirhugaðra varna og stefnt að því að þeirri vinnu verði lokið í haustbyrjun. Í framhaldinu verða tillögur kynntar bæjaryfirvöldum og íbúum.
Í ræðu sinni fagnaði ráðherra því að með gerð varnargarðsins hafi öryggi bæjarbúa á Bíldudal gagnvart ofanflóðum verið aukið. Hún sagðist vona að íbúar myndu njóta útivistar á svæðinu en strax í undirbúningi verksins hafi verið lögð áhersla á útlit mannvirkisins, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Þá sagði ráðherra sérstaklega ánægjulegt að vígja ofanflóðamannvirki á Bíldudal, þar sem hún hafi hafið sinn pólítíska feril í sveitarstjórn fyrir tæpri hálfri öld.

""

Vígsluathöfnin fór fram við varnargarðinn þar sem komið hefur verið fyrir upplýsingaskilti um mannvirkið.  Auk ráðherra ávarpaði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, vígslugesti.
Að lokinni vígslu varnargarðsins bauð Vesturbyggð til kaffisamsætis.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is