Categories
Fréttir

Opnun Dýrafjarðarganga – ræða Sigurðar Inga

Dýrafjarðargöng er enn einn áfanginn í þeirri vegferð að koma Vestfjörðum öllum í almennilegt heilsársvegasamband og sumir myndu segja við umheiminn. Ferðaþjónustan mun styrkjast þegar greið leið liggur allt árið að náttúruperlum Vestfjarða. Ég er þess fullviss að menning og afþreying mun styrkjast með tilkomu heilsárstengingar milli Suðurfjarða og norður um. Nú opnast til dæmis möguleikar fyrir krakkana á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði og víðar að bregða sér t.d. til Ísafjarðar á skíði. Og á sama verður auðveldara fyrir þá sem koma norðan frá, að skreppa til þessara staða, nú eða fara suður til Reykjavíkur. En síðast og ekki síst þá munu Dýrafjarðargöng auka umferðaröryggi íbúa á svæðinu.

Deila grein

26/10/2020

Opnun Dýrafjarðarganga – ræða Sigurðar Inga

Ég fagna því að vera með ykkur á öldum ljósvakans – hvar sem þið eruð stödd í dag – og fá að opna Dýrafjarðargöng. Þetta eru mikil og langþráð tímamót í samgöngum á Vestfjörðum og skipta sköpum fyrir byggðir þar. Gögnin koma í stað fjallvegarins um Hrafnseyrarheiði sem  hingað til hefur aðeins verið fær á sumrin. Þetta eru mikil tímamót.  Með göngunum og framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á Dynjandisheiði opnast ný heilsársleið – hringtenging um Vestfirði.

Eitt fyrsta embættisverk nýkjörins forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, var að fara í opinbera heimsókn til sunnanverðra Vestfjarða í september 1996. Hann sá tækifæri til að bæta lífskjör á svæðinu ekki síst á sviði ferðaþjónustu. Hann kvaðst sannfærður um að Vestfirðir yrðu næsta framtíðarland í ferðaþjónustu á Íslandi. Það yrði þó aðeins að veruleika ef vegakerfið stæðist samanburð við aðra landshluta. Enn fremur sagði hann:

„Það kemst enginn hjá því sem um Barðaströnd fer að kynnast því að því miður er verulegur munur á vegakerfinu í Barðastrandasýslu og öðrum landshlutum. Það er greinilegt að það þarf að gera verulegt átak á næstu árum til að Barðastrandasýsla haldi jöfnuði á við aðra landshluta.“          

Síðan eru liðin 24 ár. Unnið hefur verið að verkefninu með mismiklum hraða síðan en stórar og umfangsmiklar framkvæmdir hafa fengið að bíða. Í þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram og samþykkt á Alþingi í sumar er með sanni hægt að segja að Vestfirðingar muni loks sjá smiðshöggið rekið á þetta risavaxna verkefni.

Í dag opnum við eitt þessara stóru verka, sjálf Dýrafjarðargöng, en framkvæmdir hófust árið 2017. Göngin eru ein umfangsmesta einstaka framkvæmd í vegakerfinu og munu leysa erfiðan farartálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. Göngin munu bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.

Í framhaldi af Dýrafjarðargöngum er eðlilegt að vegurinn yfir Dynjandisheiði verði endurbyggður. Nýverið var fyrsti áfangi þess verkefnis boðinn út af Vegagerðinni þar sem gert er ráð fyrir verklokum næsta haust. Heildarverkið á svo að klárast á fyrsta tímabili samgönguáætlunar eða fyrir árið 2024.

Annað risastórt samgönguverkefni hér á svæðinu er Vestfjarðavegur um Gufudalssveit. Hluti þess vegstæðis liggur eins og þjóðkunnugt er um Teigsskóg. Sú framkvæmd hefur hangið í lausu lofti um árabil vegna kærumála. Með úrskurði umhverfis- og auðlindamála fyrr í haust gefst nú loks kostur á að ýta þessari nauðsynlegu samgöngubót úr vör. Hún mun stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi mikið. Strax í haust stefnir Vegagerðin að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar en  heildarverkið á að klárast fyrir árið 2024, rétt eins og með Dynjandisheiði.

Á samgönguáætlun er einnig þriðja risaverkefnið í landshlutanum, nýr Bíldudalsvegur frá flugvellinum á Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Þetta verkefni er á á öðru tímabili  samgönguáætlunar, og ætti því að vera lokið á tímabilinu 2025-2029.

Í þessum þremur verkefnum ásamt Dýrafjarðargöngum munu alls um 105 km af nýjum, greiðum og öruggum vegum bætast við vegakerfið hér á Vestfjörðum og koma í stað erfiðustu og hættulegustu vegkafla á svæðinu.

Þetta er þó ekki það eina sem við ætlum að bæta í samgöngukerfi Vestfjarða á næstu árum. Á undanförnum misserum hafa staðið yfir endurbætur á 7 km kafla af Djúpvegi milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Á Ströndum eru komin á áætlun framkvæmdir á Veiðileysuhálsi og Innstrandavegi, alls 17 km. Einnig mætti telja til framkvæmdir um Hattardalsá í Álftafirði, Örlygshafnarveg um Hvallátur auk þess sem við erum að breikka brýrnar yfir Botnsá í Tálknafirði og Bjarnardalsá í Önundarfirði.

Þar fyrir utan höfum við aukið umtalsvert framlög í uppbyggingu á tengivegum, en það nýtist ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Að lokum er rétt að benda á að á síðustu árum höfum við tekið viðhald vega föstum tökum og stóraukið framlög til þess, en það tryggir að vegakerfið, verðmætasta einstaka eign ríkisins, hér og annars staðar haldist öruggt og áreiðanlegt.

Í almenningssamgöngum höfum við tekið það mikilvæga skref að opna Loftbrú, sem veitir 40% afslátt af flugfargjöldum fyrir íbúa sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu, svo sem hér á Vestfjörðum. Þetta tel ég vera mikið jafnréttismál. Þetta breytir öllu fyrir íbúana sjálfa sem nú greiða talsvert lægra verð til að sótt sækja þjónustu, menningu eða bara gert það sem þá langar til á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur einnig gríðarlega mikla þýðingu fyrir flugreksturinn sjálfan. Hagfræðin og heilbrigð skynsemi segir okkur að verð skiptir máli þegar kemur að eftirspurn. Það að hér um vil helminga verð til almennings á þessari mikilvægu samgönguleið ætti að skila sér í bættum lífskjörum almennings á Vestfjörðum auk þess að skjóta styrkari stoðum undir flugsamgöngur sem vonandi leiðir til aukinnar tíðni áætlunarflugs. 

Dýrafjarðargöng er enn einn áfanginn í þeirri vegferð að koma Vestfjörðum öllum í almennilegt heilsársvegasamband og sumir myndu segja við umheiminn. Ferðaþjónustan mun styrkjast þegar greið leið liggur allt árið að náttúruperlum Vestfjarða. Ég er þess fullviss að menning og afþreying mun styrkjast með tilkomu heilsárstengingar milli Suðurfjarða og norður um. Nú opnast til dæmis möguleikar fyrir krakkana á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði og víðar að bregða sér t.d. til Ísafjarðar á skíði. Og á sama verður auðveldara fyrir þá sem koma norðan frá, að skreppa til þessara staða, nú eða fara suður til Reykjavíkur. En síðast og ekki síst þá munu Dýrafjarðargöng auka umferðaröryggi íbúa á svæðinu.

Það er ekki nokkur spurning í mínum huga að allar þessar framkvæmdir muni skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Það var hárrétt hjá hinum nýkjörna forseta á sínum tíma að góðir samgönguinnviðir eru grunnforsenda þess að atvinnulíf geti haldið áfram að þróast og eflast. Samfélagslegur ábati verður ekki til vegna efnahagslegra umsvifa heldur ekki síst ef okkur tekst að fækka slysum.

Við sjáum skýr merki um það í slysatölum að við erum að ná árangri í fækkun alvarlegra slysa á Vestfjörðum (sjá graf) og miðað við metnaðarfull uppbyggingaráform okkar ættum við að geta gert okkur vonir um að svo haldi áfram.

Fyrir mig sem ráðherra samgöngumála er ánægjulegt að sjá að allt hefur gengið að óskum við þessa framkvæmd. Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn síðastliðin ár svo göngin gætu orðið að veruleika. Það eru liðin rétt rúm þrjú ár frá því að vinna hófst við göngin. Það er ekki á hverjum degi sem risaframkvæmd eins og þessi opnar samkvæmt áætlun.

Síðasta haftið var sprengt fyrir rúmu ári síðan, haustið 2019, og hér stöndum við svo í dag með þessa mikilvægu samgöngubót. Allt er klárt, og það þrátt fyrir Covid sem setti strik í reikninginn, þökk sé snurðulausri samvinnu hins íslenska Suðurverks og hins tékkneska fyrirtækis Metrostav.

Góðir gestir – ég endurtek hamingjuóskir – til Vestfirðinga sérstaklega – í tilefni dagsins og megi þetta verða upphaf að lokaáföngum í Vestfjarðahringnum.

Líkast til er enginn hópur sem á eftir að njóta Dýrafjarðarganga jafn vel og lengi og börnin. Enda voru það börnin, nánar tiltekið nemendur við Grunnskólann á Þingeyri, sem að eigin frumkvæði tóku fyrstu skóflustunguna fyrir svo löngu síðan, heilum áratug, að þau sem það gerðu eru orðin fullorðin. Það er því viðeigandi að það séu vestfirsk börn sem fara fyrst í gegnum göngin í sannkallaðri vígsluferð. Það er einnig gaman að segja frá því að í þessari fyrstu ferð um Dýrafjarðargöng verður hann Gunnar Gísli Sigurðsson, með nemendum Grunnskólans á Þingeyri. Hann hefur hátt í hálfa öld haldið Hrafnseyrarheiðinni opinni, alltaf þegar það var hægt.

En áður en ég hringi vestur til að biðja um að slárnar við gangamunnana verði reistar fyrir almennri umferð, gef ég Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar orðið.

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, við vígslu Dýrafjarðarganga laugardaginn 25. október í húsnæði Vegagerðinnar í Reykjavík.