,,Hæstv. forseti. Í gærdag var þingsályktunartillaga um verndun og nýtingu virkjunarkosta til umræðu í þessum sal. Umræðan var góð og mér heyrðist að flestir þingmenn sem tóku til máls væru sammála um að aðferðafræði rammaáætlunar væri gott tæki til að meta virkjunarkosti þó svo að hún væri ekki endilega fullkomin. Eflaust mætti sníða af henni nokkra vankanta og auðvitað eru skiptar skoðanir um virkjunarkostina sem slíka, sitt sýnist hverjum.
Í þessari ágætu umræðu var ekki bara komið inn á virkjunarkosti heldur einnig inn á dreifingu raforku, raforkuöryggi og þrífösun rafmagns. Í dag búa nefnilega ekki allir landsmenn svo vel að hafa aðgang að þrífösuðu rafmagni sem stendur atvinnuuppbyggingu verulega fyrir þrifum á ákveðnum landsvæðum. Þeir sem stunda búskap geta t.d. ekki uppfært tækjabúnað sinn í takt við nýjar reglugerðir sem krefjast þess að rafmagn sé þrífasað, þ.e. tækin krefjast þess. Þetta er auðvitað ekki í lagi árið 2017. Við þurfum svo sannarlega að taka til hendinni í þessum málaflokki og gera miklu betur.
Hæstv. forseti. Eftir að hafa lesið frétt Kjarnans í gær um hugmyndir ákveðinna aðila um útflutning á orku stóðst ég ekki mátið að taka umfjöllun um rafmagnsmálin hér í dag. Hvað á það að þýða að eyða orku í slíkt tal þegar dreifing raforku er ekki nægilega vel tryggð um land allt? Framsóknarflokkurinn hafnar öllum hugmyndum um útflutning á raforku og leggur áherslu á að orka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætasköpunar innan lands þar sem öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpunar.
Sú sem hér stendur lagði fram skriflega fyrirspurn nýverið til hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hæstv. ráðherra er spurður um stefnu sína varðandi útflutning á raforku. Það verður áhugavert að sjá hvert svarið verður.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 8. mars 2017.
Categories
Orkan verði nýtt innanlands
09/03/2017
Orkan verði nýtt innanlands