Categories
Greinar

Notandi eða skapandi

Deila grein

14/03/2017

Notandi eða skapandi

Staðan er þessi: Við erum á barmi nýrrar iðnbyltingar. Við vitum að atvinnulíf framtíðarinnar verður ólíkt því sem það er í dag, þ.e. aukin áhersla á róbótavæðingu í ýmsum geirum atvinnulífsins og á gervigreind. Þess vegna verðum við að velta vandlega fyrir okkur og taka ákvarðanir sem fyrst, þ.e. hvaða hlutverk við ætlum að spila í framtíðinni. Ætlum við einungis að vera notendur nýrrar tækni eða ætlum við að skapa hana og byggja upp lífvænleg nýsköpunarfyrirtæki á þeim grunni?

Með því að skapa nýja tækni þá búum við til tekjur fyrir Ísland til framtíðar. Ekki bara með tekjuskatti vegna þeirra starfa sem skapast, heldur líka tekjur af vörunum sem við seljum á alþjóðlegum mörkuðum. Hér á landi eru fjölmörg sprotafyrirtæki sem og stærri nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP, Marel og Össur, sem eru stöðugt að þróa framúrstefnuleg verkefni á heimsmælikvarða. Jarðvegurinn hér er frjór, flóran er til staðar en garðyrkjumaðurinn verður að vinna vinnuna og rækta garðinn sinn. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna.

Lög um nýsköpunarfyrirtæki sem voru sett í apríl á síðasta ári voru afar jákvætt skref en þau eru takmörkuð þar sem skattaívilnandi þakið er of lágt, en í Bretlandi t.d. er ekkert þak á skattaívilnanir til þróunarverkefna. Nú er staðan þessi að stærri nýsköpunarfyrirtæki þurfa sum hver að færa þróunarverkefni sín til annarra landa, ef þau hafa tækifæri til þess, þar sem það er mun hagkvæmara fyrir þau. Ef við ætlum að verða samkeppnishæf þá verðum við að beita sértækum aðgerðum og stuðningi þar sem gengissveiflur eru íslenskum fyrirtækjum erfiðar, við erum langt frá mörkuðum og það er oft erfitt að fá hæft starfsfólk í þau störf sem um ræðir.

Lagaumhverfið í dag hamlar vexti nýsköpunarfyrirtækja, bæði stórra og smárra, og við það verður ekki búið. Að mínu mati eigum ekki að líta á skattaívilnanir sem kostnað heldur leið til að auka tekjur okkar til framtíðar. Það er mín skoðun, að ef við förum ekki þá leið, þá verði róðurinn of þungur fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki og þau MUNU sitja eftir í alþjóðlegri samkeppni og ríkissjóður verður af miklum tekjum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. mars 2017.