Hver hefði trúað því fyrir aðeins nokkrum misserum að orkuöryggi almennings á Íslandi yrði mál málanna? En þannig er staðan á Íslandi í dag.
Hinn 13. mars sl. lagði ég fram tillögu til þingsályktunar um að tryggja orkuöryggi almennings. Orkuöryggi almennings verður að vera eitt af forgangsmálum Alþingis. Það er fátt sem skiptir meira máli fyrir lífsgæði landsmanna en öruggt aðgengi að raforku á hagkvæmu verði.
Við höfum nú orðið vitni að mestu hækkunum á raforkuverði til almennings í áratugi, og þessar hækkanir eru alls ekki vegna skorts á raforku. Skýringin liggur í regluverki sem verndar ekki venjulega notendur, okkur almenning. Hér áður fyrr var þessi lagalega vörn skýr og Landsvirkjun gegndi því hlutverki að tryggja orkuöryggi heimila. Með nýrri orkulöggjöf var þessi forgangur felldur niður, án þess að koma í stað annarra úrræða sem styðja við okkur sem notum innan við fimmtung raforkuframleiðslunnar.
Heimilin, einstaklingar í rekstri og minni fyrirtæki mega ekki lenda í samkeppni við stórnotendur sem eru með trausta langtímasamninga, á sama tíma og við hin, almenningur og minni fyrirtæki, erum varnarlaus fyrir hækkunum.
Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku eykst stöðugt bæði hérlendis og erlendis, og í dag er ekkert sem kemur í veg fyrir að stærri aðilar bjóði einfaldlega hærra verð í orkuna en almenningur getur staðið undir. Þetta er óásættanleg staða fyrir heimili, bændur og minni fyrirtæki sem eru uppspretta fjölbreytileika í atvinnulífi og mikilvægt mótvægi gegn samþjöppun valds á markaðnum. Hagsmunir þessara hópa eru um leið hagsmunir landsbyggðarinnar; fólk sem býr á köldum svæðum og sem þarf raforku til upphitunar húsnæðis býr við tvöfalda áhættu.
Ég trúi því og treysti að Alþingi lagfæri þetta óréttlæti. Því bind ég vonir við að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirbúi lagabreytingar sem tryggi stöðu og hagsmuni almennings. Við þurfum að tryggja forgang heimila og viðhalda hagkvæmu raforkuverði sem hefur verið grundvallarhluti af lífskjörum landsmanna.
Á sama tíma þurfum við einnig að taka upplýstar og ábyrgar ákvarðanir um nýjar virkjanir til að styðja við fjölbreyttan iðnað og vöxt samfélagsins. Það er efni í aðra grein.
Tryggjum örugga raforku til allra landsmanna.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2025.