Categories
Fréttir

„Orkuöryggi er þjóðaröryggismál“

Deila grein

13/10/2022

„Orkuöryggi er þjóðaröryggismál“

„Ég þreytist seint á að koma hingað upp og ræða um orkuöryggi sem er þjóðaröryggismál hér í landinu. Þrátt fyrir að veður spili inn í getum við ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Á landsbyggðinni starfa stór fyrirtæki sem eru háð góðu afhendingaröryggi raforku. Um síðustu helgi var álverið á Reyðarfirði hætt komið vegna rafmagnsleysis. Ef álver er án rafmagns í meira en fjórar klukkustundir fer að harðna í kerjunum með þeim afleiðingum að þau eyðileggjast.“

Fór Ingbjörg yfir að Landsnet vinni nú að endurnýjun byggðalínunnar en að mörg ljón séu í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar.

„Það er ekki boðlegt að fyrirtæki með milljarða fjárfestingar búi við slíkt rekstraróöryggi og það sama á við um minni fyrirtæki sem og búrekstur.“

Sagði Ingibjörg mikilvægt að byggja upp öruggt og skilvirkt kerfi og að smávirkjanir muni gegna þar lykilhlutverki, raforkukerfinu til stuðnings.

„Þegar Laxárlína sló út um síðustu helgi fylgdi ekki straumleysi í kjölfarið þar sem Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun sáu svæðinu fyrir rafmagni. Þannig var fyrirtækjum og fjölskyldum séð fyrir rafmagni sem annars hefðu búið við straumleysi.“

Smávirkjanir gegna lykilhlutverki á landsbyggðinni og styðja m.a. við byggðaþróun þar sem annars skortir raforku benti Ingibjörg á.

„Smávirkjanir stuðla ekki einungis að auknu orkuöryggi í landinu heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Við þurfum að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi orkuöryggi landsins en samhliða uppbyggingu smávirkjana er þó mikilvægt að gleyma því aldrei að vera í góðu samtali við samfélögin og mestu skiptir að uppbygging verði gerð af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins,“ sagði Ingibjörg í lok ræðu sinnar.

Ræða Ingibjargar á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Ég þreytist seint á að koma hingað upp og ræða um orkuöryggi sem er þjóðaröryggismál hér í landinu. Þrátt fyrir að veður spili inn í getum við ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum. Á landsbyggðinni starfa stór fyrirtæki sem eru háð góðu afhendingaröryggi raforku. Um síðustu helgi var álverið á Reyðarfirði hætt komið vegna rafmagnsleysis. Ef álver er án rafmagns í meira en fjórar klukkustundir fer að harðna í kerjunum með þeim afleiðingum að þau eyðileggjast.

Sem betur fer vinnur Landsnet nú að endurnýjun byggðalínunnar og nýgangsettar flutningslínur á Norðausturlandi sönnuðu rækilega gildi sitt og komu í veg fyrir ófremdarástand í óveðrinu um síðustu helgi. En betur má ef duga skal enda mörg ljón í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar. Það er ekki boðlegt að fyrirtæki með milljarða fjárfestingar búi við slíkt rekstraróöryggi og það sama á við um minni fyrirtæki sem og búrekstur. Mikilvægt er að ráðast í þau verkefni sem þörf er á til þess að byggja upp öruggt og skilvirkt kerfi hér á landi. Smávirkjanir gegna þar lykilhlutverki en þær geta komið inn á raforkukerfi til stuðnings. Staðbundnar virkjanir geta skipt gríðarlegu máli. Þegar Laxárlína sló út um síðustu helgi fylgdi ekki straumleysi í kjölfarið þar sem Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun sáu svæðinu fyrir rafmagni. Þannig var fyrirtækjum og fjölskyldum séð fyrir rafmagni sem annars hefðu búið við straumleysi. Smávirkjanir gegna einnig lykilhlutverki á landsbyggðinni og styðja m.a. við byggðaþróun þar sem annars skortir raforku.

Smávirkjanir stuðla ekki einungis að auknu orkuöryggi í landinu heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Við þurfum að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi orkuöryggi landsins en samhliða uppbyggingu smávirkjana er þó mikilvægt að gleyma því aldrei að vera í góðu samtali við samfélögin og mestu skiptir að uppbygging verði gerð af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins.“