Categories
Fréttir

Peningar eru ekki tíndir af trjánum og þá byrja vandræðin

Deila grein

16/12/2015

Peningar eru ekki tíndir af trjánum og þá byrja vandræðin

sigurdur.pall„Hæstv. forseti. Allir eru sammála um að heilbrigðismál og þar af leiðandi heilbrigðisþjónusta skuli vera eins góð og kostur er. Höfum við Íslendingar státað af því. Tækniframfarir og þekking hafa tekið gríðarlegum framförum auk þróunar lyfjamála sem alltaf eru að koma virkari inn við lækningar. En allt kostar þetta peninga sem ekki eru allir tíndir af trjánum og þá byrja vandræðin.
Hvernig er hægt að spara í þessum efnum þegar heilbrigðisþjónustu vantar alltaf meiri pening, eðlilega? Ein er sú aðferð sem ekki fær mikla athygli, og þó. Það eru forvarnir þar sem þær eiga við. Þær geta sparað gríðarlega peninga og hafa verið gerðar rannsóknir á því gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum. Sá sem hér stendur vitnaði í slíkar forvarnir gegn áfengis- og vímuefnavörnum hér í ræðustól fyrir nokkru síðan. Fyrir utan betra heilsufar, hvað er þjóðhagslega hagkvæmara en að efla forvarnir frekar en ekki? Heilsa mæld í peningum er líka staðreynd.
Á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi er starfrækt bakdeild fyrir baksjúklinga þar sem fólki er í raun kennt með æfingum ýmiss konar hvernig það getur læknað sig sjálft eða haldið niðri bakverknum og þannig borið ábyrgð á bakvandamálum sínum. Í haust voru 600 manns á biðlista inn á bakdeildina í Stykkishólmi. Segir sá biðlisti meira en mörg orð um þann árangur sem þar hefur náðst í baklækningum. Það má flokka þessa læknisaðferð sem forvörn eða sjálfshjálparlækningu. Á þessu hafa verið gerðar peningalegar hagkvæmnisrannsóknir sem ekki er tími til að rekja hér.“
Sigurður Páll Jónsson — í störfum þingsins 9. desember 2015.