Categories
Fréttir

Ræða Ásmundar Einars

Það er okkar hlutverk hér á Alþingi og í ríkisstjórn að standa vörð um fólkið í landinu, þétta möskvana í öryggisnetum og sjá til þess að í sameiningu komumst við í gegnum þetta. Um leið og ég hef fulla trú á því að okkur takist það tel ég mjög mikilvægan þátt í því að tryggja fullnægjandi þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, bæði vegna núverandi aðstæðna og sem hagsmuni okkar til allrar framtíðar.

Deila grein

02/10/2020

Ræða Ásmundar Einars

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi fimmtudaginn 1. október 2020.

***

Góðir landsmenn. Þrátt fyrir þær fjölmörgu áskoranir sem íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir síðustu mánuði og tengjast heimsfaraldri Covid-19 er mikilvægt að gleyma ekki öðrum stórum verkefnum sem kannski einmitt vegna afleiðinga Covid-19 á samfélag okkar eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Ég ætla að koma inn á eitt þessara verkefna. Á haustþingi sem nú er að hefjast mun ég leggja fram stórar kerfisbreytingar er varða börn og fjölskyldur þeirra. Þar vil ég sérstaklega nefna nýja og stóra löggjöf sem á að stuðla að aukinni farsæld barna, grípa fjölskyldur sem þess þurfa og tryggja samtal á milli ólíkra kerfa þegar kemur að þjónustu við börn.

Samhliða þessari stóru kerfisbreytingu verða lagðar til fjölmargar aðrar lagabreytingar sem tengjast þessu. Að undirbúningi þeirra breytinga hefur komið afar stór hópur fólks með breiða og mikla þekkingu á málefnum barna. Þar má m.a. nefna sérfræðinga sem starfa með börnum okkar á hverjum einasta degi og bera kennsl á þau tækifæri sem til staðar eru til að gera betur og einstaklinga sem þekkja þjónustu kerfisins á eigin skinni, annaðhvort frá eigin æsku eða gegnum börnin sín. Og síðast en ekki síst hefur þverpólitísk þingmannanefnd með fulltrúum allra þingflokka gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í þessari vinnu allri og hefur sýnt að við getum unnið saman þvert á flokka. Það er nefnilega svo að þessi mál snerta okkur öll og börn í viðkvæmri stöðu eiga ekki að eiga allt sitt undir flokkspólitískum línum. Við vildum hefja þau yfir þessar flokkspólitísku línur og það hefur tekist vel.

Eins og ég nefndi áðan og kynnt verður nánar á næstu vikum munu þessar kerfisbreytingar umbreyta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra þvert á þjónustukerfi. Ég hef fengið utanaðkomandi sérfræðinga til að meta áhrif af þessum kerfisbreytingum og í því mati kemur skýrlega fram að þær muni hafa mjög jákvæð áhrif á þjónustu við börn, tryggja snemmtæka íhlutun og eftirfylgd auk þess sem yfirsýn yfir velsæld barna verður margfalt betri.

Markmiðið með frumvarpinu er að börnum og fjölskyldum þeirra líði betur og vegni þar af leiðandi betur og tekið verði fyrr en ella á hindrunum sem verða mögulega á vegi þeirra. Allt sem aldrei er mikilvægara en einmitt á tímum sem þessum.

Það sem kemur einnig skýrlega fram í þessari vinnu og úttekt á lagafrumvarpinu er að fjárhagslegur ávinningur af því að koma þessum breytingum í gegn er gífurlegur. Þó að umtalsverða fjárfestingu muni þurfa á næstu árum til að tryggja að breytingarnar skili væntum árangri er ábati af þessum breytingum fyrir samfélagið í heild og þar með talið ríkissjóð ekki talinn í milljörðum heldur tugmilljörðum króna. Raunar yrði þessi fjárfesting, fjárfesting í börnunum okkar, sú allra ábatasamasta í sögu Íslands og það án neikvæðra umhverfisáhrifa eða annars fórnarkostnaðar. Á næstunni mun ráðast hvort við sem samfélag verðum tilbúin í slíka sögulega vegferð.

Góðir Íslendingar. Þessi vetur verður erfiður fyrir marga, við vitum það. Það er okkar hlutverk hér á Alþingi og í ríkisstjórn að standa vörð um fólkið í landinu, þétta möskvana í öryggisnetum og sjá til þess að í sameiningu komumst við í gegnum þetta. Um leið og ég hef fulla trú á því að okkur takist það tel ég mjög mikilvægan þátt í því að tryggja fullnægjandi þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, bæði vegna núverandi aðstæðna og sem hagsmuni okkar til allrar framtíðar. Ég hlakka til að ræða það frekar í þinginu hér á þessu þingi sem nú er að hefjast.

***