Categories
Fréttir

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að verkefni fjölskyldna hafi breyst mikið samfara breyttum lífsháttum, en að heimilislífið hafi leitast við að aðlaga sig að flóknu samfélagi. Langur vinnudagur foreldra hafi orðið til þess að skólarnir taki orðið við auknu hlutverki í uppeldi barnanna. En Ásmundur Einar minnti á að fjölskyldan sé enn mikilvægasti aðilinn er kemur að umönnun og uppeldi barna.
„Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterk og heilbrigð fjölskyldueining myndar sterkt íslenskt samfélag.“
„Núverandi ríkisstjórn er að vinna að mörgum aðgerðum og kerfisbreytingum til að styrkja stöðu fjölskyldna á Íslandi. Við erum að vinna að því að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því m.a. að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Þessi aðgerð ein og sér mun þýða 10 milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Við erum líka að vinna að mjög róttækum breytingum í málefnum barna sem miða að því að grípa unga einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Þar vinnum við í góðu samstarfi þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnmálaflokka,“ sagði Ásmundur Einar.

***

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

„Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Mig langar að ræða um grunneiningu og mikilvægustu einingu samfélagsins, fjölskylduna. Verkefni fjölskyldna hafa breyst mikið samfara breyttum lífsháttum, ekki síst á síðustu árum. Samfélagið er orðið flóknara og heimilislífið hefur leitast við að aðlaga sig að þessum breytingum. Breytt verkefni fjölskyldna stafa m.a. af löngum vinnudegi beggja foreldra utan heimilis. Því hafa skólarnir orðið að taka við auknu hlutverki í uppeldi barnanna. Þrátt fyrir þetta er umönnun og uppeldi barna enn í dag mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu.
Kæru landsmenn. Staða íslensku fjölskyldunnar í dag er að mörgu leyti mjög góð en því miður berast okkur fregnir og við sjáum tölur um að staða fjölskyldunnar sé að verða erfiðari vegna hraðra og breyttra þjóðfélagshátta. Verkefni stjórnvalda á hverjum tíma eiga og þurfa að lúta í meira mæli að því að bæta aðbúnað og hag fjölskyldna í landinu. Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterk og heilbrigð fjölskyldueining myndar sterkt íslenskt samfélag.
Núverandi ríkisstjórn er að vinna að mörgum aðgerðum og kerfisbreytingum til að styrkja stöðu fjölskyldna á Íslandi. Við erum að vinna að því að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því m.a. að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Þessi aðgerð ein og sér mun þýða 10 milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Við erum líka að vinna að mjög róttækum breytingum í málefnum barna sem miða að því að grípa unga einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Þar vinnum við í góðu samstarfi þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnmálaflokka.
Eitt af grundvallaratriðum hvers samfélags er húsnæðismál. Það á að vera sjálfsögð krafa, eins og krafan sem við gerum um aðgengi í mennta- og heilbrigðismálum, að hver og einn geti komið sér þaki yfir höfuðið. Þarna er ríkisstjórnin að vinna að margvíslegum aðgerðum og m.a. munu á næsta ári 3,7 milljarðar renna til þess að fjölga almennum íbúðum á leigumarkaði, m.a. í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Virðulegur forseti. Við erum að stíga gríðarlega stór skref þegar kemur að afnámi verðtryggingar í íslensku samfélagi. Það er svo sannarlega kerfisbreyting sem er í undirbúningi og mun frumvarp koma fram á þessu þingi. Við erum líka að vinna að kerfisbreytingum sem miða að því að styðja ungt fólk, tekjulágt fólk og fólk sem missti eignir sínar í hruninu, við það að geta keypt sér íbúð á nýjan leik.
Virðulegur forseti. Við erum að vinna að aðgerðum í húsnæðismálum gagnvart landsbyggðinni. Nýlega undirritaði ég reglugerð sem setur af stað nýjan lánaflokk til handa landsbyggðinni, til kaldra markaðssvæða, en kallað hefur verið eftir slíkri kerfisbreytingu í mjög langan tíma.
Góðir landsmenn. Við getum rifist og stundað málþóf út í hið óendanlega í þessum sal, t.d. um þriðja orkupakkann, en tölum um það sem raunverulega skiptir máli. Hvenær hefur verið málþóf um stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi? Ég er tilbúinn til að taka þátt í slíku málþófi með þeim sem hafa verið í því.
En, virðulegi forseti, þeir sem stunda slíkt málþóf koma síðan hér og gagnrýna það að við séum að auka fjármagn til fæðingarorlofs til fjölskyldna í landinu og kalla það óeðlilegan vöxt eða að báknið sé að vaxa.
Virðulegur forseti. Ef það er raunin þá er ég mjög stoltur af því að báknið sé að vaxa. Ég mun í vetur leggja mig allan fram við að ýta fyrrnefndum verkefnum úr vör vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkar samfélag að við stöndum vel við bakið á fjölskyldum þessa lands. Þær eru grunneining samfélagsins. — Góðar stundir.“

***