Categories
Fréttir

Ræða Lilju Alfreðsdóttur – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Lilju Alfreðsdóttur – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að öll viljum við Ísland sé í fremstu röð, að unga fólkið hafi aðgang að bestu skólum veraldar og að atvinnulífið nái árangri á heimsvísu með réttum rekstrarskilyrðum. Þetta sé mögulegt með samkeppnishæfu menntakerfi og atvinnulífi.
„Í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Ljóst var að ýmsar áskoranir biðu okkar á því sviði en sú allra stærsta sneri að mikilvægasta starfi samfélagsins, því sem leggur grunninn að öllum öðrum störfum, sjálfu kennarastarfinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við yfirvofandi kennaraþörf. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum og atvinnulífinu unnið að því að mæta þessari áskorun og fyrr á árinu kynntum við tillögur og hrintum þeim í framkvæmd.“
„Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og það er mikið fagnaðarefni. Afar ánægjulegt að umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Gaman er líka frá því að segja fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er frábær þróun, góðir landsmenn,“ sagði Lilja.

***

Ræða Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknar – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Við viljum öll að Ísland sé í fremstu röð og að samkeppnishæfni menntakerfisins og atvinnulífsins sé þannig að unga fólkið okkar hafi aðgengi í bestu skólum veraldar og að atvinnulífið okkar búi við þannig rekstrarskilyrði að það nái árangri á heimsvísu.
Góðir landsmenn. Í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Ljóst var að ýmsar áskoranir biðu okkar á því sviði en sú allra stærsta sneri að mikilvægasta starfi samfélagsins, því sem leggur grunninn að öllum öðrum störfum, sjálfu kennarastarfinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við yfirvofandi kennaraþörf. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum og atvinnulífinu unnið að því að mæta þessari áskorun og fyrr á árinu kynntum við tillögur og hrintum þeim í framkvæmd. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og það er mikið fagnaðarefni. Afar ánægjulegt að umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Gaman er líka frá því að segja fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er frábær þróun, góðir landsmenn. Verkefnin á komandi þingvetri snúa m.a. að því að efla starfsnám í landinu, róttækum kerfisbreytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna, aðgerðum á fjölmiðlamarkaði, því að hrinda í framkvæmd þingsályktun um að efla íslensku á öllum sviðum samfélagsins og mótun nýrrar menntastefnu. Markmið nýrrar menntastefnu er einfalt, það er að íslenska menntakerfið verði framúrskarandi.
Í fjárlagafrumvarpinu er 36 milljörðum varið til framhaldsskólastigsins og sérstakt áherslumál verður að efla starfsnám í landinu. Því erum við að forgangsraða tíma og fjármunum í það verðuga verkefni. Við höfum séð aukningu í tækni- og starfsnám og sérstaklega ánægjulegt var að sjá aukningu hjá Tækniskóla Íslands um 32%.
Fyrirhugaðar eru róttækar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem fela í sér 30% niðurfellingu á lánum ásamt sérstökum stuðningi fyrir barnafólk. Um er að ræða mestu breytingar sem hafa verið gerðar á lánasjóðnum í 30 ár. Tímamót eru að eiga sér stað, ágætu landsmenn. Ég vil taka fram að að þessari vinnu kemur fjöldi fólks og vil ég þakka stúdentum sérstaklega afar gott og uppbyggilegt samstarf.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að styðja eigi betur við rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ég hef unnið að metnaðarfullu frumvarpi í þá veru ásamt því að vinna að því með fjármála- og efnahagsráðherra að samræma skattlagningu á auglýsingum milli innlendra aðila og alþjóðlegra efnisveita eins og Google og Facebook. Ljóst er að rekstrarumhverfið er erfitt og við viljum öll hafa öfluga fjölmiðla á Íslandi, bæði ríkisútvarp og einkarekna fjölmiðla.
Góðir landsmenn. Á vorþingi var samþykkt þingsályktun í 22 liðum um að efla stöðu íslenskunnar á öllum sviðum samfélagsins. Sumarið hefur farið í að útfæra aðgerðaáætlunina og verður sérstaklega ánægjulegt að kynna hana á degi íslenskrar tungu 16. nóvember nk. Tungumálið forsenda hugsunar og án þess verður engin hugsun til. Án góðrar þekkingar á tungumálinu komum við hugmyndum okkar ekki í orð, hættum að fá nýjar hugmyndir og drögum úr færni okkar til að hafa áhrif. Af því má leiða að lestur sé ein mikilvægasta breytan í skapandi hugsun. Þess vegna eigum við að gera allt sem við getum til að tryggja læsi allra barna sem grundvallarforsendu fyrir jöfnum tækifærum. Við erum stöðugt að vinna að framgangi íslenskunnar og erum að ráðast í framkvæmdir við Hús íslenskunnar og vinna að því að fá handritin heim sem eru ein merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar.
Góðir landsmenn. Við berum öll ábyrgð á því að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar og sem mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins. Þess vegna erum við að fjárfesta í fólki og færni þess.
Mig langar að lokum, góðir landsmenn, að vitna í John Stuart Mill heimspeking og brýna okkur öll í því að sinna þessari speki en þar segir:
„Öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði því að menntunin selur alla undir sömu áhrif og veitir þeim aðgang að sama sjóði þekkingar og skoðana.“
Ég þakka áheyrnina. — Góðar stundir.“

***