Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti góða yfirlitsræðu á vorfundi miðstjórnar í dag í Reykjavík. Ræða Sigurðar Inga er í heild sinni hér að neðan:
Kæru félagar.
Mikið er gaman að sjá ykkur hér í dag. Yfir mann hellist þakklæti fyrir að geta aftur hitt vini og félaga, eitthvað sem maður hefði ekki hugsað út í fyrir einu og hálfu ári síðan að gæti verið vandamál. Það sem var sjálfsagt fyrir heimsfaraldur er það ekki lengur. Og það verður eitt af stóru verkefnum okkar sem samfélags að sleppa takinu, segja skilið við óttann sem hefur staðið okkur svo nærri síðustu mánuðina. Óttinn er ekki góður förunautur í lífinu. Óttinn nagar sundur tryggðaböndin milli okkar og traustið. Faraldurinn hefur þó fyrst og fremst sýnt fram á styrk samfélagsins okkar, hvað það er gott og hvað það er sterkt. Af því megum við vera mjög stolt.
Við sjáum til lands. Að baki eru fimmtán erfiðir mánuðir í baráttu við heimsfaraldur. Við höfum unnið saman, staðið saman sem flokkur, staðið saman sem þjóð, og þannig leyst erfið verkefni. Fram undan er tími þar sem við þurfum að vinna saman úr þeim áföllum sem gengu yfir okkur árið 2020. Við þurfum að skapa atvinnu, skapa tækifæri, skapa samstöðu um framtíðina.
Það líður að kosningum. Þær bíða okkar handan sumarsins. Við mætum þeim bjartsýn með árangur í farangrinum. Okkur hefur tekist það, okkur í Framsókn, að vinna stefnu okkar brautargengi og það sem meira er við höfum náð stórkostlegum árangri í því að láta stefnuna verða að veruleika, raungerast í mikilvægum framfaramálum. Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Við höfum fundið fyrir því á ferðum okkar um landið að það er alls staðar verið að byggja upp. Alls staðar. Og í þessum orðum, „alls staðar á landinu“, felst líklega ein helsta sérstaða okkar sem stjórnmálaafls. Við hugsum um landið allt. Við erum sannkallað hreyfiafl í stjórnmálum. Ég get tekið tvö dæmi úr mínu ráðuneyti, tvö dæmi um verkefni sem sýna fram á það hvernig við náum sem flokkur, Framsókn, að rjúfa kyrrstöðu, að hreyfa við málum. Fyrra dæmið sem ég vil nefna er samgöngusáttmálinn. Í alltof langan tíma hefur ríkt kyrrstaða í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það ríkti frost í samskiptum ríkisins og höfuðborgarinnar þegar kom að samgöngumálum. Og við vitum það sem eigum rætur okkar í sveitunum að langvarandi frost getur verið okkur dýrkeypt. Ég ákvað að höggva á þennan hnút og leiða saman ríkið og sveitarfélögin öll á höfuðborgarsvæðinu: við skyldum finna sameiginlega fleti, við skyldum skapa sameiginlega framtíðarsýn í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það tókst – og af því er ég stoltur.
Annað dæmi sem ég vil nefna um áratuga kyrrstöðu er ástand samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum sem eiga birtingarmynd sína í Teigsskógi. Vegavinnufólk er komið á staðinn, kyrrstaðan hefur verið rofin og við sjáum fram á stórkostlegar samgöngubætur fyrir Vestfirðinga alla.
Loftbrúin. Loftbrúin hóf sig til flugs síðasta haust og markar tímamót í jöfnun á aðstöðumun landsmanna. Afsláttur af flugfargjöldum til þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu er orðinn að veruleika. Aðgerðin er mikilvæg, nánast byltingarkennd, og viðtökur við henni hafa verið einstaklega góðar. Og það sem meira er, þá hafa gagnrýnisraddirnar verið fáar og lágværar sem er ólíkt því sem áður hefur verið þegar afgerandi byggðaaðgerðir verða að veruleika. Ég held að ég viti ástæðuna fyrir því hvers vegna viðtökurnar voru svo góðar. Ég held að árið 2020 hafi Íslendingar kynnst landinu sínu aftur þegar þeir ferðuðust innanlands. Flestir voru að endurnýja kynnin og sumir að kynnast einstakri náttúru og kraftmikilli íslenskri ferðaþjónustu í fyrsta sinn. Við öðluðumst öll meiri skilning á landinu okkar og þjóðinni, tækifærunum sem við eigum og verkefnunum sem við þurfum að vinna – saman.
Ísland ljóstengt, verkefnið sem á rætur sínar í lítilli grein í Mogganum árið 2013, grein sem bar yfirskriftina „Ljós í fjós“; þessu verkefni er lokið. Engin þjóð í heiminum er betur tengd en við og næsta verkefni tekur við: Ísland fulltengt.
Ég ætla ekki að telja upp fleiri verkefni úr ráðuneyti mínu, það væri of langt mál.
Hinum megin við götuna sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er stendur við er myndarleg bygging sem einu sinni hýsti Samband íslenskra samvinnufélaga. Í þessari byggingu er mennta- og menningarmálaráðuneytið sem Lilja Dögg hefur leitt af krafti á kjörtímabilinu.
Í mennta- og menningarmálum hafa kerfis- og réttindabætur verið áberandi. Faglegt sjálfstæði kennara hefur verið aukið, starfstækifæri kennara hafa aukist með einföldun leyfisbréfakerfis, kennaranemum hefur fjölgað og ráðherrann okkar hefur sýnt kennarastéttinni þá virðingu sem hún á skilið. Loksins, loksins myndi einhver segja.
Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á verknámskerfinu. Iðnmenntaðir hafa nú sama rétt og bókmenntaðir til háskólanáms og skipulagi vinnustaðanáms hefur verið breytt. Nýr Menntasjóður er stórvirki sem stuðlar enn frekar að jafnrétti til náms. Fyrstu sviðslistalögin eru orðin að veruleika og ný miðstöð sviðslista er að komast á laggirnar. Að lokum vil ég sérstaklega nefna lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku sem hafa nú þegar skilað því að fjöldi íslenskra titla hefur aukist um tugi prósenta.
Í öllum þessum aðgerðum sjáum við framsýni og djúpan skilning á mikilvægi menntunar og lista.
Í gær, föstudag, var stór dagur. Fyrir þjóðina og fyrir okkar kæra stjórnamálaafl: Framsókn. Þá voru á Alþingi Íslendinga samþykkt lög sem gjörbreyta kerfinu í kringum framtíðina, börnin okkar og barnabörn. Ásmundur Einar er fyrsti barnamálaráðherra íslensku þjóðarinnar og hefur sýnt það í störfum sínum að þessi titill er engin skrautfjöður í hans hatti heldur slær hjarta hans í þessum málaflokki. Og ekki má gleyma því mikla framfaraskrefi að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Framsókn sýnir enn og aftur að við erum flokkur fjölskyldunnar.
Hlutdeildarlánin sem urðu að veruleika á haustmánuðum hafa nú þegar borið ávöxt sem sést best í því að hlutfall fyrstu kaupenda á fyrstu mánuðum ársins var þriðjungur af íbúðakaupum landsmanna. Tryggð byggð er magnað hreyfiafl í uppbyggingu nýrra íbúðanna á landsbyggðunum en líklega hefur aldrei í seinni tíð verið byggt upp meira íbúðarhúsnæði út um landið en á síðustu mánuðum. Það er hafin ný framsókn fyrir landið allt.
Þessi verkefni sem ég hef talið upp eru einungis dæmi um það sem við sjáum í baksýnisspeglinum. Af árangri okkar á þessu kjörtímabili getum við verið stolt. Árangur okkar leggur grunninn að því sem er framundan í mikilvægum kosningum í haust.
Fyrir að verða fjórum árum, þegar boðað var til kosninga, fundum við öll fyrir þreytu, bæði okkar sjálfra og fólks í kringum okkur, þreytu á óróleikanum í stjórnmálunum, ójafnvæginu. Við tókum þátt í því að mynda ríkisstjórn sem á ekki marga sína líka. Það er mín skoðun að það hafi verið styrkur fyrir þjóðina að ríkisstjórnin sem hefur leitt þjóðina í gegnum heimsfaraldurinn sé breið samvinnustjórn þriggja flokka sem hver og einn endurspeglar ólíka þætti í litrófi stjórnmálanna, vinstri, hægri og miðju. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegla þessa litríku samsetningu.
Við lögðum af stað með stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna þriggja, með um 100 aðgerðir og áherslumál. Sjaldan eða aldrei hefur árangurinn verið eins góður á einu kjörtímabili. Við getum litið með ánægju um öxl og verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð, verið stolt af þeim árangri og því fjármagni sem hefur farið í samgöngur, sveitarstjórnarmál og byggðamál, verið stolt af þeirri sátt og samstöðu sem hefur náðst á milli ólíkra sjónarmiða, verið stolt að búa yfir seiglu og halda áfram með mál sem hefðu svo auðveldlega getað dagað uppi ef ekki væri fyrir þá trú sem við í Framsókn höfum þegar sækja þarf fram í málum sem færa okkur jöfnuð, öryggi og betri lífsgæði. Öflugir og öruggir innviðir er grunnurinn að lífsgæðum.
Ríkisstjórnin sýnir ábyrgð og tekur ábyrgð. Ábyrgð á því að koma þjóðinni út úr þessum tímabundnu erfiðleikum. Ábyrgð sem felst í því skapa ný störf og standa vörð um þau sem fyrir eru efla fjárfestingar og nýsköpun. Ábyrgð á því að styrkja stöðu þeirra sem misst hafa vinnuna um stund. Ábyrgð á því að styrkja stöðu atvinnulífsins og sveitarfélaga. Rétti tíminni til að fjárfesta í innviðum ríkisins er núna, slíkt skapar atvinnu og heldur hjólum efnahagslífsins gangandi. Á dögunum kom út úttekt sem sýndi að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar í fyrra vor hefði skilað sér í 1.000 störfum. Áætla má að um 8000 störf verði til ef allar samgönguframkvæmdir eru lagðar saman næstu 5 árin. Sundabraut skapar ein og sér um 2000 störf. Störfin eiga sér ekki aðeins upphaf og endi á meðan á þeim stendur heldur vara óbeinu áhrifin af þeim til lengri tíma. Þannig benda rannsóknir OECD til þess að varanleg aukning opinberrar fjárfestingar um 0,5% af vergri landsframleiðslu á ári, auki landsframleiðslu eftir 10 um 1,5%.
Þessi árangur okkar í ríkisstjórnarsamstarfinu og sá árangur sem við sjáum í störfum Framsóknar í sveitarfélögum um allt land sýnir erindi okkar í stjórnmálum. Við erum hreyfiafl góðra hluta.
Framsókn er stjórnmálaafl sem setur fjölskylduna og velsæld hennar í fyrsta sæti. Fjölskyldan er grundvallareining í samfélaginu. Fjölskyldurnar eru fjölbreyttar, allskonar, og saga Framsóknar hefur hverfst um hagsmuni hennar. Mjúkt mál gæti einhver sagt en mælikvarðinn á gott samfélag er við morgunverðarborðið: Jafnrétti, velsæld, efnahagur, umhverfismálin, öryggi, atvinna, atvinna, atvinna.
Ísland er á flestum mælikvörðum fyrirmyndarríki. Jafnrétti, velsæld, öryggi og síðast en ekki síst félagslegur hreyfanleiki, það að geta unnið sig upp úr fátækt til bjargálna, það að einstaklingur geti búið börnum sínum betra líf en það sem hann sjálfur byrjaði með. Í því felst sjálfstæði og valdefling. Grundvallarþáttur í því er að skapa öllum jafnrétti til náms því menntunin er hreyfiafl samfélagsins, hreyfiafl einstaklingsins, hreyfiafl framfara og lífsgæða.
Við höfum síðasta rúma áratuginn sem liðinn er frá hruni upplifað miklar breytingar á íslenskum stjórnmálum. Á þingi sitja fulltrúar átta flokka. Enn eimir eftir af reiði hrunsins og lítið þarf til að kynda undir henni til að vekja á sér athygli. Við slíkar aðstæður er hætt við því að skemmtanagildi sé tekið fram fyrir málefnanlegar umræður, að allt kapp sé lagt á að etja saman andstæðum pólum ysta hægrisins, frjálshyggjunnar þar sem allir eru eyland, og ysta vinstrisins, sósíalismans þar sem enginn má hafa það betra en næsti maður. Báðar þessar stefnur einkennast af trúarlegri sýn á stjórnmálin, forystumenn þeirra hafa fundið stóra sannleikann og reyna að selja hann sem hina fullkomnu sýn á samfélagið. Gleymist þá raunveruleikinn sjálfur. Tvisvar á síðustu rúmu 12 árum hefur heimsmynd frjálshyggjunnar og hins óhefta markaðar hrunið og almenningur þurft að tína upp brotin. Um sósíalismann þarf heldur ekki að hafa mörg orð því síðasta öld er ekki síst hörmungarsaga þeirrar stefnu ofstækis og kúgunar.
Stjórnmál eru ekki trúarbrögð. Stjórnmál eru tæki til að bæta heiminn.
Viðbrögð stjórnvalda á Íslandi við heimsfaraldri kórónuveirunnar voru þau að treysta vísindunum fyrir sóttvörnum og nýta það afl sem býr í samvinnunni til að mæta efnahagslegum áföllum og undirbúa öfluga viðspyrnu til að samfélagið rísi hratt á fætur eftir erfiða tíma. Hagsmunir fjölskyldunnar eru að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu til að skjóta sterkum stoðum undir lífsgæði á Íslandi. Það verður helst gert með því að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eru mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja. Það verður meginviðfangsefni stjórnmálanna næstu mánuði og ár að vinna úr þessum áföllum. Og líkt og raunin er með viðbragðið við farsóttinni þá munum við vinna okkur út úr efnahagsþrengingum með samvinnu, með því að nýta krafta samstöðunnar sem einkennir íslenskt samfélag við erfiðar aðstæður til að byggja upp og bæta, nýta samúð og samlíðan til að hjálpa þeim sem ganga í gegnum erfiðan tíma vegna tekjumissis á fætur að nýju.
Viðhorf okkar til þess sem kallað hefur verið stærsta verkefni samtímans, loftlagsbreytinganna, er smá saman að breytast – og verður að breytast til að við getum tekist á við það með sama krafti og við tókumst á við veiruna. Eins og valdamesti núlifandi Framsóknarmaðurinn, Joe Biden, hefur boðað vestanhafs, er lykillinn að því að berjast gegn hamfarahlýnun sá að fjárfesta í fólki og þekkingu og skapa tækifæri og störf í grænum geirum. Við þekkjum þessa geira, þeir hafa verið burðarás íslensks efnahags í áratugi: Sjávarútvegur, orkuframleiðsla, landbúnaður, skapandi greinar, ferðaþjónusta, hugverkaiðnaður.
Þeir sem sjá fyrir sér að leiðin til þess að mæta loftlagsvánni sé að kippa öllum meginkerfum heimsins úr sambandi, að við hættum að ferðast, að við á Vesturlöndum sættum okkur við lakari lífsgæði, að þau sem búa í þróunarlöndunum sætti sig við hægari lífsgæðaaukningu, þeir sem telja að dómsdagsspár séu lykillinn að almennri breytingu á viðhorfum og hegðun, þeir munu ekki leiða heiminn í lausn þessa vanda. Í þessu verkefni eins og öðrum þarf samvinnu, þekkingu og framsýni til að leysa málin.
Kæru félagar. Það er til lítils hafa fallega stefnuskrá ef engu er komið í framkvæmd. Íslenskt samfélag þarf stjórnmálaafl sem framkvæmir stefnumál sín, stendur fyrir umbætur fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Öfgaöflin til hægri og til vinstri geta talað sig blá í framan í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en eina framlag þeirra til samfélagsins er og verður að róta upp moldviðri meðan við, hófsama fólkið á miðjunni vinnur að umbótum fyrir samfélagið allt.
Næstu kosningar snúast um við komum saman út úr þessum faraldri. Okkur hefur tekist að mæta faraldrinum saman, ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á standa vörð um líf, heilsu og afkomu fólks. Nú er viðspyrnan hafin, við sjáum landið rísa. Verkefni næstu ára er að skapa atvinnu, atvinnu og græna atvinnu og tryggja þannig aukin lífsgæði. Málefni aldraðra þarf að nálgast á svipaðan hátt og Ásmundur Einar hefur nálgast málefni barna. Það er verkefni sem þarf að leysa með samvinnu.
Stjórnmál snúast nefnilega ekki bara um stefnu, þau snúast um hugarfar og vinnubrögð. Samvinnan er bæði hugsjón og aðferð. Í því liggur ekki síst styrkur okkar sem stjórnmálaafls.
Næstu kosningar verða þær mikilvægustu á lýðveldistímanum. Þau stjórnmálaöfl sem eiga fulltrúa í næstu ríkisstjórn munu þurfa að taka örlagaríkar ákvarðanir varðandi uppbyggingu íslensks samfélags. Þá er mikilvægt að hófsamur og skynsamur miðjuflokkur, flokkur sem skilur að hagsmunir fjölskyldunnar séu hagsmunir þjóðarinnar fái góða kosningu. Ísland þarf nýja framsókn í atvinnumálum, nýja framsókn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, nýja framsókn fyrir fjölskylduna, nýja framsókn fyrir landið allt.
Við sjáum til lands. Að baki eru fimmtán erfiðir mánuðir í baráttu við heimsfaraldur. Við höfum unnið saman, staðið saman sem flokkur, staðið saman sem þjóð, og þannig leyst erfið verkefni. Fram undan er tími þar sem við þurfum að vinna saman úr þeim áföllum sem gengu yfir okkur árið 2020. Við þurfum að skapa atvinnu, skapa tækifæri, skapa samstöðu um framtíðina.
Ég er þakklátur að sjá ykkur öll hér í dag. Ég er þakklátur fyrir alla þá vinnu sem þið leggið á ykkur til að afla hugsjónum okkar og stefnu fylgist. Ég er þakklátur að sjá gömul andlit og ný mætast hér í dag til að leggja grunninn að öflugri kosningabaráttu.