Categories
Fréttir

Rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna

Deila grein

28/11/2023

Rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna

„Ég er foreldri fatlaðs barns og ég held ég geti fullyrt að það hefur ekkert kennt mér meira í lífinu heldur en að fá það hlutverk upp í hendurnar,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

Sagði hann það vera margvíslegar áskoranir sem biðu foreldra og kallaði hann eftir að kerfið gripi aðstandendur eilítið betur. Það væru til leiðbeiningar hvernig eigi að takast á við þetta nýja hlutverk.

„Ég ætla því að fagna sérstaklega, og ég hef rætt það á öðrum vígstöðvum, samningi sem undirritaður var í síðustu viku á milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Landssamtakanna Þroskahjálpar um að setja á fót rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Hér er um að ræða þriggja ára tilraunaverkefni — 18 milljónir yfir þriggja ára tímabil, um 6 milljónir á ári — og ég fagna þessu mjög og ég fagna því líka að þarna sé lögð sérstök áhersla á upplýsingar fyrir foreldra með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Ég held að við hér á Alþingi hljótum að fagna verkefnum sem þessum,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Ég er foreldri fatlaðs barns og ég held ég geti fullyrt að það hefur ekkert kennt mér meira í lífinu heldur en að fá það hlutverk upp í hendurnar. Ég sagði það í viðtali sem tekið var við mig í sumar í Klifri, blaði Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, að það væru margvíslegar áskoranir sem biðu þeirra sem fengju þetta hlutverk í hendurnar. Það væri óskandi oft og tíðum að kerfið gripi aðstandendur eilítið betur, því að erum við öll tilbúin í þetta hlutverk? Nei. Þurfum við hjálp? Já, við þurfum oft aðstoð og leiðbeiningar um það hvernig við eigum að takast á við þetta nýja hlutverk í okkar lífi.

Ég ætla því að fagna sérstaklega, og ég hef rætt það á öðrum vígstöðvum, samningi sem undirritaður var í síðustu viku á milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Landssamtakanna Þroskahjálpar um að setja á fót rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna, þar sem verða upplýsingar um alla þá þjónustu og þann stuðning sem stendur foreldrum fatlaðra barna til boða. Hér er um að ræða þriggja ára tilraunaverkefni — 18 milljónir yfir þriggja ára tímabil, um 6 milljónir á ári — og ég fagna þessu mjög og ég fagna því líka að þarna sé lögð sérstök áhersla á upplýsingar fyrir foreldra með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Ég held að við hér á Alþingi hljótum að fagna verkefnum sem þessum.“