Categories
Fréttir

Rakarastofuráðstefna – fyrir jafnrétti kynjanna

Deila grein

09/01/2015

Rakarastofuráðstefna – fyrir jafnrétti kynjanna

Gunnar Bragi SveinssonRáðstefna þar sem karlar eru virkjaðir í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna, verður haldin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í næstu viku, 14.-15. janúar. Ísland og Súrinam standa saman að ráðstefnunni sem kallast Rakarastofuráðstefna en ætlunin með henni er að fá karla að borðinu til að fjalla um jafnrétti og hafa áhrif á umræðuna um kynjajafnrétti. Háttsettir erlendir ráðamenn, baráttufólk fyrir jafnrétti og þekktir einstaklingar taka þátt í ráðstefnunni sem verður að hluta til send beint út á vefnum www.barbershopconference.org
„Við verðum að fá karla að borðinu þegar verið að er að ræða um jafnrétti. „Hvar eru karlarnir?“, spurði Vigdís Finnbogadóttir á jafnréttisráðstefnu fyrir áratug og spurning hennar er því miður enn réttmæt,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, sem opnar ráðstefnuna. „Við viljum brýna karla til að stefna að raunverulegu jafnrétti, að breyta staðalímyndum og gera sér grein fyrir því að jafnréttismál eru fyrst og fremst mikilvægt mannréttindamál.“
Rakarastofuráðstefna hópurÁ ráðstefnunni, sem að hluta til verður opin, munu ráðherrar, sérfræðingar og fulltrúar ríkja og félagasamtaka ræða leiðir til að fá karla til að taka þátt í jafnréttisbaráttunni og hvernig unnt sé að fá karla til að beita sér frekar fyrir kynjajafnrétti. Á meðal þeirra sem munu ávarpa ráðstefnugesti, eru Jan Eliasson, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Donald McPherson, fyrrverandi atvinnumaður í bandarískum fótbolta, Gabriel Wikström, heilbrigðis- og velferðarráðherra Svíþjóðar, rapparinn Kyle “Guante” Tran Myhre, Todd Minerson, framkvæmdastjóra Hvíta borðans, sem eru baráttusamtök til að binda endi á ofbeldi gegn konum og Magnús Scheving. Frú Vigdís Finnbogadóttir, ástralski hershöfðinginn David Morrison og fleiri munu flytja ávörp af myndbandi. Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, lokar ráðstefnunni.
Rakarastofan er framlag Íslands til #HeforShe átaksins sem var hleypt af stokkunum með áhrifaríkum hætti af leikkonunni Emmu Watson, þar sem meginhugsunin er sú að það þurfi að breyta staðalmyndinni um karla.
Rakarastofan (Barbershop) er í mörgum löndum og menningarheimum ímynd fyrir staði þar sem karlar koma saman og ræða m.a. samskipti sín við konur. Þannig verða umræður á rakarastofum, búningsklefum eða öðrum samkomustöðum karla ein af ástæðum þess að staðalmyndir ef hlutverkum kvenna og karla festast í sessi. Hugmyndin á bak við þetta framlag Íslands og Súrinam er að nýta vettvang „rakarastofunnar“ til að breyta umræðunni á rakarastofum um allan heim þar sem kynjajafnrétti og virðing fyrir konum er fest í sessi og ofbeldi gegn konum hafnað.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
 [/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]