Categories
Greinar

Það er kominn tími til að tengja

Deila grein

09/01/2015

Það er kominn tími til að tengja

Silja-Dogg-mynd01-vefFjarskipta- og samgöngumál eru yfirleitt mál málanna þegar ég ræði við fólk í hinu ægifagra og víðfeðma Suðurkjördæmi. Það er nauðsynlegt að þessum málaflokkum sé vel sinnt þar sem þeir eru grundvöllur atvinnuuppbyggingar, námsmöguleika og að allir landsmenn geti sótt nauðsynlega grunnþjónustu með góðu móti. Framsókn hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi fjarskiptamála á landsbyggðinni.

Fjarskiptin í forgangi

Fjárlagafrumvarpið var samþykkt þann 16. desember síðastliðinn og ég er ánægð með forgangsröðunina sem þar birtist, ekki síst út frá umræddum málaflokkum. Þess má einnig geta að annað árið í röð samþykkir þingið hallalaus fjárlög og að þessu sinni með 3,5 milljarða króna afgangi.

Samþykkt var að veita 300 milljónum í Fjarskiptasjóð til þess að hefja fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. Með fjárveitingunni verður hægt að skipuleggja og kortleggja innviðagrunni ljósleiðara, hefja tengingar á ótengdum svæðum auk þess að hringtengja landsvæði.

Uppbygging innanlandsflugvalla

Innanlandsflug er mikilvægur hluti almenningssamgangna. Samt sem áður hefur viðhaldi innanlandsflugvalla ekki verið sinnt sem skyldi undanfarin ár, ekki frekar en vegakerfinu, og þarna þarf að gera bragabót á. Þingið samþykkti nú að veita 500 milljónum króna til að koma til móts við uppsafnaða viðhaldsþörf á flugvöllum á landsbyggðinni. Þessi liður er fjármagnaður með arðgreiðslum frá ISAVIA sem renna í ríkissjóð.Þar með er komin lausn áralangrar deilu varðandi það hvernig hægt sé að fjármagna viðhald flugvalla á landsbyggðinni. Sumir hafa gagnrýnt þá leið og haldið fram að sú ráðstöfun muni draga úr nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Sú er ekki raunin. Hagnaður ISAVIA er tæpir 3 milljarðar króna og batnar ár frá ári. Styrking innanlandsflugvalla mun ekki hafa áhrif á framkvæmdahraða á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdir munu halda áfram samkvæmt áætlun og þær verða fjármagnaðar með arði og lántökum. Störf munu ekki hverfa frá Suðurnesjum, heldur þvert á móti.

Samgöngumálin í brennidepli

Auk þess að leggja áherslu á uppbyggingu fjarskiptakerfis og bættra flugsamgangna þá var einnig ákveðið að leggja tugi milljóna til nauðsynlegra endurbóta á hafnarmannvirkjum í Þorlákshöfn. Það felast miklir hagsmunir í því fyrir allt Suðurland að eiga góða höfn.

Af þessari upptalningu má sjá hver forgangsröðun fjármuna í kjördæminu var. En betur má ef duga skal. Enn eru fjölmörg verkefni óleyst. Það stærsta er eflaust áframhaldandi uppbygging Landeyjarhafnar og smíði nýs Herjólfs. Það verkefni er mjög aðkallandi. Einnig þarf að fara í stórátak í viðhaldi vega, þá sérstaklega tengivega, að ógleymdri fækkun einbreiðra brúa í Skaftafellssýslum. Af nógu er að taka og mun ég halda áfram að leggja mitt á vogarskálarnar í þeirri vinnu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Sunnlenska 8. janúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.