Categories
Greinar

Afnám verðtryggingar – hvað er að frétta?

Deila grein

12/01/2015

Afnám verðtryggingar – hvað er að frétta?

Silja-Dogg-mynd01-vefEitt af stóru kosningamálunum vorið 2013 var afnám verðtryggingarinnar af neytendalánum. Þingmenn Framsóknar töluðu fyrir afnáminu og lofuðu að beita sér fyrir því ef þeir fengju umboð kjósenda. Flokkurinn vann stórsigur og nú er komið að efndum. Von er á frumvörpum þess efnis á komandi vorþingi.

Beltin, axlaböndin og beri karlinn

Flestir eru sammála um að verðtryggð neytendalán séu ekki sanngjörn viðskiptaaðferð. Það er ekki fullkomlega siðlegt að „meðal Jón“, með enga sérþekkingu á sviði viðskipta, geti tekið slíkt lán þar sem ómögulegt er að átta sig á áhættunni sem í slíkri lántöku felst. Slíkar lánveitingar ættu aðeins að vera í boði fyrir atvinnufjárfesta en ekki fyrir venjulegt launafólk sem einungis er að koma sér þaki yfir höfuðið.

Systurnar; verðtryggingin og verðbólgan

Verðtryggingin hefur einnig neikvæð áhrif á verðbólgumyndun; ýtir undir verðbólguna. Þannig að þeir sem segja að verðtryggingin skipti ekki máli, réttast væri að „afnema“ verðbólgu, hafa rangt fyrir sér því verðbólga og verðtryggingin eru sitt hvor hliðin á sama peningnum. Það er ástæða fyrir því að önnur lönd hafa ekki tekið upp verðtryggð kerfi. Verðtrygging neytendalána er mein sem nauðsynlegt er að uppræta með það að markmiði að skapa heilbrigðara efnahagsumhverfi hér á landi.

Sögulegt samhengi

Rétt er að halda til haga að það var fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins sem verðtryggingu var komið á árið 1979. En á þeim tíma voru bæði laun og lán verðtryggð. Fáum árum síðar voru launin tekin út fyrir sviga þannig að myndin skekktist allverulega, lántakendum í óhag. Ekki þarf að fjölyrða um hversu miklum breytingum íslenskt fjármálakerfið hefur tekið síðustu þrjá áratugina. Fjármálakerfið okkar er enn talsvert óþroskað eins og Hrunið sýndi okkur glögglega. Verðtryggingin er svo sannarlega ein af stóru göllunum og enn erum við að læra á viðskiptasiðferðið sem er heldur skammt á veg komið hjá okkur Íslendingum. Ég vil trúa því að efnhagshrunið og afleiðingar þess hafi kennt okkur eitthvað og aukið vilja til að gera stórtækar breytingar á núverandi lagaumhverfi og hugsunarhætti.

Ferð sem verður að fara

Skýrsla sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar 2014. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016. Mikil vinna hefur farið fram í ráðuneytunum þar sem tillögur minni- og meirihluta séfræðingahópsins eru hafðar til grundvallar.

Breytingar til batnaðar

Nú stendur til að leggja fram frumvarp á vorþingi sem felur í sér að óheimilt verði að bjóða verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. Fjármálaráðherra hefur umsjón með þessum hluta verkefnisins. Húsnæðismálaráðherra er falið að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána og forsætisráðherra mun skipa starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. Að auki mun ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna mun skipa Verðtryggingarvakt sem hefur það hlutverk að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Verðtryggð húsnæðislán hafa verið leiðrétt, mikil vinna hefur farið fram í Velferðarráðuneytinu varðandi breytingar á húsnæðiskerfinu og frumvörp þess efnis verða kynnt á vorþingi. Var einhver að tala um nefndir og engar efndir?

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 9. janúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]