Categories
Fréttir

Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs

Deila grein

31/01/2024

Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Mælti hún fyrir tillögunni í vikunni en tillagan hefur að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg.

TILLÖGUGREININ HLJÓÐAR SVO:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki afturvirkt mögulegt orsakaferli, áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs. Starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024.“

„Það er skoðun flutningsmanna að að lokinni gagnaöflun verði tryggt að hægt sé að skoða reglulega og á aðgengilegan hátt breyturnar sem tilteknar eru í tillögugreininni, þannig megi meta árangur aðgerða. Þá verði starfshópnum að meta hvort setja eigi á laggirnar hóp innan stjórnsýslunnar sem tæki að sér þetta verkefni til framtíðar. Tillaga er lögð fram í kjölfar samtala við heilbrigðisstarfsfólk, m.a. við verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis,“ sagði Ingibjörg.

„Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar,“ segir í greinargerðinni.