„Hæstv. forseti. Ég ætlaði að ræða fjórfrelsið og fullveldið og þegar reglur verða yfirsterkari þeim markmiðum sem við viljum ná fram. Von er á frumvarpi frá hæstv. landbúnaðarráðherra þar sem við bregðumst við og hlítum dómi um að íslensk stjórnvöld hafi ekki mátt setja strangar reglur um það að koma í veg fyrir innflutning á fersku, ófrosnu kjöti hingað til lands, að krafan um innflutningsleyfi og 30 daga frystiskyldu sé óheimil og brjóti í bága við EES-samninginn,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns, í störfum þingsins 28. febrúar 2019.
„Ég get sýnt því skilning að hæstv. ráðherra bregðist við af ábyrgð eins og honum ber skylda til. Ég get sýnt því skilning að tollar og ýmis höft og hamlanir á viðskiptum milli þjóða skerði hagræði utanríkisviðskipta og að slíkir samningar eins og EES-samningurinn séu til þess fallnir að auka hagræði slíkra viðskipta, að fjórfrelsið, frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks, miði að því. Ég get sýnt því skilning að slíkt geti falið í sér ábata fyrir neytendur, í þágu viðskiptanna og sé til þess fallið að bæta lífskjör.
En það er auðvitað önnur hliðin á málinu þegar við metum lífskjör þjóðar og framtíðarhagsmuni, sú hlið sem snýr að sérstöðu Íslands í hreinleika matvæla, búfjárstofna, sjálfbærni landbúnaðarframleiðslu, öryggi og lýðheilsu þjóðarinnar. Við slíkt mat finnst mér blasa við að dómurinn felur í sér að reglurnar verði yfirsterkari markmiðunum sem við setjum í þessu tilviki, að verja hreina íslenska búfjárstofna, að verja sérstöðu Íslands, að verjast raunverulegri ógn við sjálfbærni landbúnaðar, framtíðarmatvælaframleiðslu, ógn við lýðheilsu þjóðarinnar og fæðuöryggi.“
Categories
Reglur ESB yfirsterkari markmiðum um framtíðarmatvælaframleiðslu – ógn við lýðheilsu þjóðarinnar og fæðuöryggi
28/02/2019
Reglur ESB yfirsterkari markmiðum um framtíðarmatvælaframleiðslu – ógn við lýðheilsu þjóðarinnar og fæðuöryggi