Categories
Fréttir

Við séum gerð að tilraunadýrum?

Deila grein

28/02/2019

Við séum gerð að tilraunadýrum?

„Virðulegi forseti. Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er eðlilegt. Það fjallar um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og gerilsneyddum eggjum. Bann við innflutningi hrás kjöt og sóttvarnir er liður í sóttvörnum landsins og snýst um sérstöðu landsins til framtíðar. Með samþykkt frumvarpsins erum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp með því að leyfa frjálsan innflutning á hráu kjöti. Það er ekki útséð hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Þeir sem hafa verið að tala um óheftan innflutning á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverði. Hagsmunir neytenda snúast ekki bara um hvað er í matinn og hvað það kostar, heldur hvað er í matnum. Við megum ekki gefast upp þótt ESB hrópi. Við þurfum að halda uppi vörnum hvað varðar sérstöðu okkar þjóðar og lands sem hlýtur að vega nokkuð inn í heildina og því dýrmætt að halda í hana. Sérstaða landsins byggist m.a. á hreinleika búfjárstofna sem okkur hefur tekist að halda í vegna legu landsins,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í umræðu um störfþingsins á Alþingi í dag.
Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í störfum þingsins 28. febrúar 2019. 

„Við þurfum að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis. Frumvarpið tekur ekki nægilega á þeim hlutum. Þessir hagsmunir eru okkur jafn dýrmætir og hreinleiki lofts og vatns. Þetta er stórpólitískt mál og miklir hagsmunir í húfi. Því þurfa íslenskir ráðamenn að stíga fastar til jarðar og eiga samtal við þá sem stýra Evrópusambandinu. Dómur EFTA er unninn út frá lögum og reglum og niðurstaða fengin frá þeim sem vinna samkvæmt þeim. Eigum við endilega að beygja okkur undir það? Þá er að fara hærra í stigann og ná samkomulagi um undanþágu, fá það viðurkennt að við þurfum tíma til aðlögunar og til að byggja upp raunverulegar varnir. Það þarf að fara í áhættugreiningar til að meta hvaða afleiðingar það getur haft fyrir Ísland. Það getur ekki verið vilji Evrópusambandsbúa að við séum gerð að tilraunadýrum í þessum efnum.“