„Virðulegur forseti. Það hefur ekki verið augljóst um hvað þessi ríkisstjórn var mynduð. Þó eru í henni tveir nýir flokkar. Maður skyldi ætla að þegar menn taka sig saman og stofna flokk þá sé einhver tilgangur með því, menn vilji breyta einhverju, vilji nýjar áherslur. Það hefur lítið borið á því til þessa. Þetta hefur verið frekar tíðindalítið. Morgunverkin hafa ekki verið merkileg hjá þessari ríkisstjórn, mest eitthvert svekkelsi, verið að ganga á baki orða sinna, ef svo má segja, varðandi hluti eins og samgöngumál, en almennt tíðindalítið þar til nú.
Þar til nú, virðulegur forseti, að við sjáum að þessi ríkisstjórn ætlar a.m.k. ekki að fylgja sömu stefnu og síðasta ríkisstjórn fylgdi í samskiptum við þá sem hafa reynt að hafa Ísland að féþúfu vegna þeirra vandræða sem við gengum í gegnum, ekki að fylgja sömu stefnu og hv. þm. Óli Björn Kárason lýsti svo vel hér áðan. Að vísu ætla menn að klára það sem var orðið óhjákvæmilegt að aflétta höftum og hefði mátt gera það fyrr gagnvart íslenskum almenningi, en taka á algjöra u-beygju í samskiptum við þessa aðila sem hafa sótt að okkur í alþjóðastofnunum, í fjölmiðlum, ekki bara hér á landi heldur víða um heim og jafnvel reynt að skipta sér af úrslitum kosninga á Íslandi. U-beygjan gagnvart þessum aðilum er sú að láta undan, gefa eftir, fullkomlega held ég megi segja, virðulegi forseti.
Hvers vegna stimplar ríkisstjórnin sig inn með þessum hætti með morgungjöf hæstv. fjármálaráðherra til vogunarsjóða í New York? Hvernig stendur á því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin fylgdi ekki þeirri áætlun sem boðuð hafði verið að byrja á því að losa íslenskan almenning úr höftum og þeir sem ekki vildu spila með í því, þeir sem ætluðu að hafa Ísland að féþúfu vegna vandræða í efnahagsmálum, yrðu látnir bíða. Þetta var ekki bara eitthvað sem var rætt í kosningabaráttu, þetta var í raun loforð sem var gefið þegar efnt var til útboðs og fullyrt var af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og öðrum að þeir sem ekki tækju þátt, þeir sem ekki spiluðu með, yrðu látnir bíða; þeir yrðu læstir inni, þeir myndu ekki græða á því, yrðu skildir hér eftir jafnvel árum ef ekki áratugum saman.
Einhverjir tóku mark á orðum ráðherrans og annarra, Seðlabankans, og létu sig hafa það að fara út á þeim kjörum sem voru í boði. Aðrir ákváðu að fara aðra leið. Reyndar var eitthvað um það, virðulegur forseti, að menn hefðu fyrst ætlað að taka þátt í þessu útboði en á síðustu stundu hætt við það einhverra hluta vegna. En þessir aðilar ákváðu að fara frekar þá leið að taka slaginn við íslensk stjórnvöld, treysta á að hægt væri að brjóta samstöðuna á bak aftur, að hægt væri að beygja íslensk stjórnvöld. Til þess notuðu þeir ýmsar aðferðir, sumar kunnuglegar, sumar síður. Það var auglýst í dagblöðum hér á landi fyrir kosningarnar, reyndar líka í Danmörku og í Bandaríkjunum, og líklega víðar. Það var reynt að dreifa falsfréttum svokölluðum. Menn voru látnir skrifa greinar í dagblöð hér og víðar og reynt leynt og ljóst að beita íslensk yfirvöld, stjórnvöld hér á landi, þrýstingi, fá þau til að gefa eftir þetta grundvallaratriði sem hv. þingmaður stjórnarliðsins, Óli Björn Kárason, lýsti hér áðan, atriðinu sem tryggði okkur þann árangur sem hefur náðst; gefa eftir fullveldisréttinn, gefa eftir möguleika okkar á að verja Íslendinga og hagsmuni Íslands. Þetta var gefið eftir. Það var horfið frá þeirri stefnu að verja fyrst og fremst almenning og ákveðið að gera sérstakan samning við vogunarsjóðina sem höfðu beitt öllum ráðum til að ná því sem þessi ríkisstjórn hefur nú gefið þeim.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um afnám fjármagnshafta á Alþingi 13. mars 2017.
Categories
Ríkisstjórnin stimplar sig inn með morgungjöf
15/03/2017
Ríkisstjórnin stimplar sig inn með morgungjöf