Categories
Fréttir

Rödd hins þögla sjúkdóms

Deila grein

07/10/2019

Rödd hins þögla sjúkdóms

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um fræðslu um vefjagigt og endurskoðunar á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
„Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna,“ sagði Halla Signý.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

„Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi og er nú endurflutt með viðbótarumfjöllun í greinargerð. Við umfjöllun málsins á 149. löggjafarþingi bárust fimm umsagnir um málið en í þeim öllum var tekið undir markmið þingsályktunartillögunnar og þörfin á vitundarvakningu um vefjagigt undirstrikuð. Í umsögn frá embætti landlæknis er tekið undir mikilvægi þess að fram fari endurskoðun á heildarskipulagi þjónustu fyrir einstaklinga með vefjagigt og áhersla lögð á að hún nái til allra þjónustustiga. Félag sjúkraþjálfara benti á að skortur væri á umgjörð fyrir börn með vefjagigt og Þraut ehf. benti á mikilvægi þess að vinnufært fólk með vefjagigt á vægari stigum hefði betri aðgang að þeirri þjónustu sem er í boði,“ sagði Halla Signý.
„Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvarandi og útbreiddir stoðkerfisverkir, stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru fótapirringur, kuldanæmi, órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, dauðir fingur, einbeitingarskortur og depurð.“
„Árið 1993 var vefjagigt formlega skilgreind sem sjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Töluverðan tíma tók uns sjúkdómurinn öðlaðist almenna viðurkenningu innan læknasamfélagsins en framan af var algengt að litið væri á vefjagigt sem eins konar ruslakistugreiningu. Í gegnum tíðina hafa fordómar verið tengdir sjúkdómnum sem mikilvægt er að eyða með markvissri fræðslu um hann. Vefjagigt mælist hvorki með blóðprufum né röntgenrannsóknum og er það vafalaust ein helsta ástæða fordóma í garð sjúkdómsins.“
„Ef tillagan nær í gegn tel ég að hér sé komin rödd þessa þögla sjúkdóms sem hefur hrjáð svo margar konur og er stór orsakaþáttur í örorku kvenna hér á landi. Það skiptir ekki bara máli að haldið sé utan um þennan hóp og að hann fái rödd heldur skiptir líka gríðarlega miklu máli að konur, og karlar sem hafa líka sjúkdóminn, komist sem fyrst til meðferðar svo að þau komist aftur út á vinnumarkaðinn. Bæði konur og karla eru með þennan sjúkdóm svo að þetta skiptir máli fyrir samfélagið í heild,“ sagði Halla Signý.