Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að sjómenn telji að meira sé af grásleppu en talið sé og að þeir kalli eftir að ráðgjöf Hafró verði endurmetin. Þetta koma fram í ræðu hennar í störfum þingsins á Alþingi í dag. Grásleppuveiðar verið stöðvaðar þar sem að 4.600 tonna veiðiráðgjöf hefur verið náð eftir mokveiði við norðan- og austanvert landið.
„Grásleppuveiði hefur verið stunduð víða um land og er það áberandi að þessar veiðar eru orðnar stór þáttur í útgerð á mörgum stöðum og halda sér betur í veikari byggðum eins og á Ströndum, í Búðardal og á Brjánslæk svo einhver svæði séu nefnd,“ sagði Halla Signý.
„Þessar veiðar voru ekki hafnar núna við innanverðan Breiðafjörð og í Stykkishólmi biðu um 20 útgerðir eftir að opnað yrði á svæðið. Nú á að opna það svæði eftir 20. maí og leyfa veiðar í allt að 15 daga. Í Stykkishólmi er að jafnaði 120 manns sem fá vinnu á gráslepputímanum og þar er komið að fimmtungur heildaraflans að landi undanfarin ár er grásleppa. Kvótakerfi í grásleppu er ekki svarið þar sem byggðasjónarmið vantar inn í kvótakerfið.“
„Það gefur augaleið að ofan í Covid-ástandið er þetta rothögg fyrir fjöldamargar litlar fjölskylduútgerðir sem margar hverjar halda lífi í byggðum landsins. Það hefði átt að gefa þessari ákvörðun tíma, mæta henni með mótvægisaðgerðum eða endurmeta ráðgjöf. Það er lágmark að þessir 15 dagar í Breiðafirði verði tryggðir. Smábátaútgerðir munu þurfa að snúa sér fyrr að strandveiðum en þar hefur heildaraflamarkið verið skert um 1.000 tonn og ásókn stóreykst í þetta kerfi við þá ákvörðun að loka fyrir grásleppuveiði.
Virðulegi forseti. Fordæmalausir tímar kalla á önnur sjónarmið og nýjar nálganir,“ sagði Halla Signý að lokum.