Categories
Fréttir

„Samgöngur eru grunnstoð efnahagskerfisins“

Deila grein

06/05/2020

„Samgöngur eru grunnstoð efnahagskerfisins“

„Góðar samgöngur leggja grunn að samkeppnishæfni þjóðarinnar og lífsgæðum í landinu. Þegar samgönguáætlun er lögð fram hefur langt og mikið ferli átt sér stað. Framkvæmdir detta ekki niður úr loftinu eins og einhverjum virtist detta í hug við umræðu í þinginu í gær,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.

„Aðdragandinn felst í samráði og samtali svo hægt sé að forgangsraða og vinna faglega að framlagningu áætlunarinnar. Sviðið er vítt og tekur yfir fjáröflun og útgjöld til allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þar með talið almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála, umhverfismála og samgöngugreina. Málaflokkurinn snertir í raun alla þætti þjóðfélagsins og þar með alla íbúa landsins. Þess vegna er samtal og samráð um þessi mál mikilvægt. Það liggur þó algjörlega ljóst fyrir að ekki fá allir sínar ýtrustu óskir uppfylltar. Þrátt fyrir stóraukin framlög undanfarin ár til framkvæmda, viðhalds vega og hafna er enn langt í land.“

Frumvarp hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem var til umfjöllunar hér í gær og snýr að leið sem kallast samvinnuleið í framkvæmdum, opnar okkur leið til að flýta framkvæmdum og koma verkefnum framar í framkvæmdaröðinni. Það er gróði fyrir okkur öll en ljóst er að innviðafjárfestingar verða lykilþáttur í aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins. Það er því dauðafæri fyrir okkur núna að efla atvinnulíf, auka störf og styrkja innviði innlenda hagkerfisins en stærsti ávinningurinn verður alltaf fyrir notandann, ekki bara að hann geti valið um leið heldur eykur það öryggi okkar allra. Það er það sem við eigum að hafa á oddinum þegar við tölum um samgöngur og samgöngukerfið okkar,“ sagði Þórunn í lokin.